Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 18:48:24 (1360)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[18:48]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er verið að setja hlutina á haus að mínu mati. Það er ljóst að þegar unnið var að samkomulaginu hinu fyrra, sem var klárað árið 2002 og því samkomulagi sem nú á að klára árið 2006 var rætt á breiðum grunni við Landssamband eldri borgara um hagsmunamál þeirra. Þar var bæði rætt um lífeyrismálin, þ.e. greiðslur sem viðkomandi lífeyrisþegar fá og þær kjarabætur sem í þeim felast, og auðvitað felast miklar kjarabætur í þessu frumvarpi, kjarabætur umfram kaupmáttaraukningu eins og fram kom í framsöguræðu minni áðan.

Það er líka verið að ræða þjónustuna. Mér finnst mikilvægt að hlusta á Landssamband eldri borgara. Ég vil nefna sem dæmi að það hefur lagt mikla áherslu á heimahjúkrun, þjónustu heima og að fá að vera heima sem lengst. Það er hagsmunamál sem er þeim mjög kært. Ég tek heils hugar undir það.

Það að ræða við Landssamband eldri borgara í slíkri nefnd — reyndar situr maður ekki sjálfur í nefndinni en þar eru embættismenn og fagaðilar — getur hjálpað okkur mjög mikið í uppbyggingunni. Niðurstaðan var að við erum að fara að byggja hjúkrunarrými. En niðurstaðan er líka sú að við stóraukum fjármagn í heimahjúkrun. Sú aukning sem var bæði vegna samkomulagsins 2002 og núna 2006 hefur m.a. orðið til þess að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum eru að styttast, hafa styst um 20% í Reykjavík á síðasta hálfa árinu. Það er mjög mikilvægt.