Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 18:50:34 (1361)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[18:50]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ódýrara fyrir ríkið að veita hjúkrun heima en að byggja hjúkrunarheimili þannig að ég átta mig ekki alveg á röksemdafærslu hæstv. ráðherra.

Gerum okkur það í hugarlund að hið sama gerðist á hinum almenna vinnumarkaði, að launþegi settist að samningsborði til að semja um laun sín og kjör og þeir sem sætu á móti honum hefðu í hendi sér að segja: Ef þú veikist og vilt hjúkrun þá tökum við það inn í þessar samningaviðræður. Hvort eigum við að hækka við þig launin, eins og þú ferð fram á eða tryggja þér að ef þú veikist og þarft á hjúkrun að halda þá fáir þú þjónustu?

Að mínu viti eiga þessir tveir hlutir ekkert skylt hvor við annan. Annars vegar erum við að tala um kjör eldri borgara og hins vegar þjónustu sem ríkinu ber að veita þeim en er ekki samningsatriði þegar kemur að því að þeir eru orðnir sjúkir og þurfa á aðstoð ríkisins að halda.

Hæstv. ráðherra sagði í seinni ræðu sinni að við vildum hafa tekjujafnandi kerfi, hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Ég er sammála ráðherranum um það. Ég held að enginn hafi í umræðunni talað um að klippa á allar tekjutengingar, tengingarnar eru bara allt of neðarlega. Þær eru svo neðarlega að aldraðir sem verða fyrir slíkum skerðingum ná ekki að framfleyta sér og sínum. Við erum að tala um það. Við þurfum að skoða þessar skerðingar, auka frítekjumarkið og minnka skerðingarnar. Við þurfum að sjálfsögðu að skoða skattlagninguna á lífeyristekjurnar. Þessi framfærslukönnun sem við höfum verið að tala um þarf að fara fram. Að sjálfsögðu er kominn tími til, sem er löngu orðið aðkallandi, að hækka svokallaða vasapeninga á dvalarheimilum og stofnunum umfram það sem verið hefur.

Við þurfum að tryggja hinum öldruðu sæmilega gott ævikvöld.