Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 18:57:10 (1364)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[18:57]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að samstarfið við Landssamband eldri borgara hafi verið mjög gott, bæði hvað varðar þjónustuþáttinn og lífeyrislöggjöfina. Þar vitna ég aftur í samkomulagið frá 2002 og síðan samkomulag sem komst í höfn í sumar. Ég tel að það samstarf hafi verið til fyrirmyndar. Mér finnst líka mikilvægt að benda á að það að Landssamband eldri borgara geti yfirleitt gert samkomulag, klárað vinnuna, skrifað undir og gengið frá henni, eru ákveðin þáttaskil. Mér finnst mikilvægt að draga fram hvað það er öflugt og samtökin eru að mínu mati sterk fyrir vikið. Þau ná samkomulagi, fóru í vinnuna, ræddu í málin og kláruðu þau. Þau skiluðu tillögum með nöfnum sínum undir. Mér finnst það mjög sterkt og sýna styrk Landssambands eldri borgara, að það er fært um að gera svona samkomulag.

Ef samtökin væru veik tel ég að þau hefðu ekki getað gert svona samkomulag. Þá hefði umræðan bara flotið og menn ekki náð niðurstöðu og ekki náð landi.

Það er að störfum samráðsnefnd sem er, að mig minnir, undir forustu hæstv. forsætisráðherra. Hana er hægt að kalla saman. Sú nefnd starfar ekki á mínu forræði heldur hæstv. forsætisráðherra, held ég alveg örugglega. En að því koma fleiri ráðherrar og þar á meðal heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, þegar sú nefnd hittist.