Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 18:59:20 (1365)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[18:59]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra taldi að samráð og samstarf hefði verið virkt milli heilbrigðisráðuneytisins og Landssambands eldri borgara. Ég tel að það hafi ekki verið virkt að jafnaði þessi ár. Ég hvet hæstv. ráðherra til að stuðla að góðu samráði milli landssambandsins og heilbrigðisráðuneytisins og að hæstv. ráðherra stuðli að því að samráðsnefnd undir forustu forsætisráðherra sé virk og taki upp þau mál sem snúa að kjörum aldraðra sem eru á borðum fleiri ráðuneyta en heilbrigðisráðherra, ekki síst félagsmálaráðuneytisins.

Varðandi lífskjarakönnun og úttekt á framfærslukostnaði óska ég eftir að ráðherra svari hvort hún sé tilbúin að beita sér fyrir slíkri könnun.

Hæstv. forseti. Ég vil benda á að tekjujöfnun er einnig hægt að koma á í gegnum skattkerfið. Það er hægt að hækka frítekjumörk lífeyrisgreiðslna og hækka skattleysismörk. Hægt væri að hækka hátekju- og fjármagnstekjuskatt til að ná þessum tekjujöfnuði sem hæstv. ráðherra benti á. Það er ekki eingöngu í gegnum lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar sem við getum náð þeim jöfnuði.

Ég hef ekki tekið eftir því að nokkur hv. þingmaður hafi sett fram kröfu um að afnema algjörlega tekjutengingu en tengingin er engu að síður of mikil. Breytingar koma of seint og í of hægum skrefum í frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna.