Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 19:01:20 (1366)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[19:01]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt sem hér kom fram og ég held að ég hafi ekki sagt það heldur að neinn vilji afnema tekjutenginguna algjörlega því að ef svo væri væri kerfið auðvitað fallið um sjálft sig. Þá værum við a.m.k. ekki að nálgast það að reyna að jafna kjörin með nokkrum hætti ef þeir sem hefðu mikið milli handanna fengju það sama og þeir sem hefðu minna. En það er spurning hvað á að ganga langt í að tekjutengja, þar þarf auðvitað að líta til þeirra tekna sem menn hafa og reyna að nálgast málið á réttlátan hátt.

Á sínum tíma gengum við of langt í tekjutengingum, það er algjörlega á hreinu, enda höfum við verið að breyta lögunum til að minnka tekjutengingarnar. Það var gert fyrir ekki svo löngu síðan og verið er að gera það aftur núna, verði frumvarpið að lögum, en ég vara við því að menn gangi of langt í því líka af því að þá er kerfið farið að snúast upp í andhverfu sína, þá er það alls ekki tekjujafnandi. Ef við göngum of langt í því kemur það fjármunum til þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda.

Ég lýsi mig reiðubúna í allt samstarf við Landssamband eldri borgara, ég tel mig hafa verið í mjög góðu samstarfi við þá og hef kallað þá til, m.a. til að bera undir þá stefnumótun mína varðandi öldrunarmálin. Ég kynnti líka fyrir þeim og bar undir þá reglugerðina sem við vorum að setja í dag varðandi hvernig innheimta eigi ofgreiddar bætur. Við áttum mikið samstarf við Landssamband eldri borgara í sumar varðandi þetta samkomulag og leiðir okkar liggja saman með mjög margvíslegum hætti. Ég tel því að við séum í mjög góðu samstarfi og samráði við þá og að það samstarf gangi prýðilega vel.