Hlerun á símum alþingismanna

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006, kl. 15:18:55 (1652)


133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hlerun á símum alþingismanna.

230. mál
[15:18]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta afar alvarlegt mál sem hér kemur upp. Hæstv. ráðherra neitar að upplýsa mál sem hann er spurður um. Hann ber við að hann vilji hafa nafnleynd á þeim sem urðu fyrir hlerunum. Hann upplýsir ekki heldur hvers lags mál þetta voru án þess að nefna þá nöfn sem hann hefði líka getað gert. Hann hefði getað valið þá leið.

Hér hefur því verið haldið fram að þingmenn sem hafa sætt hlerunum hafi verið grunaðir um saknæmt athæfi og hæstv. dómsmálaráðherra telur ekki vera sitt hlutverk að upplýsa hvað hafi verið á ferðinni. Þetta er gersamlega óþolandi og þingmenn geta í sjálfu sér ekki þolað það að svona hlutir séu óupplýstir. Krafan um að öll þessi mál verði dregin fram hlýtur að verða að fá uppfyllingu í sölum Alþingis.