Orkustofnun

Mánudaginn 20. nóvember 2006, kl. 22:11:52 (1895)


133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Orkustofnun.

367. mál
[22:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Gott að heyra að hæstv. iðnaðarráðherra tekur þetta með sér í sarpinn varðandi ábendingu mína um hugtakið „sjálfbær“.

Varðandi rannsóknir á umhverfisþáttum og rannsóknir sem mundu mögulega eiga að heyra undir Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun Íslands dettur mér í hug að skynsamlegt gæti verið að iðnaðarnefnd óskaði eftir áliti Umhverfisstofnunar á nákvæmlega þessum þætti málsins eða sendi a.m.k. málið til umsagnar til stofnana í umhverfisgeiranum sem sinna rannsóknum. Það er eins og ég nefndi áðan kannski fyrst og fremst Náttúrufræðistofnun Íslands en eflaust Umhverfisstofnun líka, sem hefur með ákveðna þætti málsins að gera þótt hún hafi kannski ekki með rannsóknarþáttinn að gera.

Varðandi aukin verkefni Orkustofnunar er kannski rétt að ég árétti það að fyrirvari minn við skýrslu auðlindanefndar var þess eðlis að ég hef ekki séð á hvern hátt þetta hlutverk Orkustofnunar kemur til með að breytast samkvæmt þeim hugmyndum sem auðlindanefndin lagði fyrir hæstv. ráðherra. Við eigum vænti ég eftir að fá að sjá von bráðar frumvarp sem byggir á tillögum auðlindanefndarinnar. Þá sjáum við kannski skýrar á hvern hátt þetta hlutverk Orkustofnunar kemur til með að breytast eða hvað kemur til með að bætast við það. Ég hef varað við að hlutverk Orkustofnunar verði svo viðamikið að það fari inn á svið umhverfisstofnananna hvað þetta varðar. Ég held að umsýsla með vatn sé viðkvæmt mál sem eigi eftir að verða æ viðkvæmara eftir því sem fram líða stundir og þar þurfi að fara að öllu með gát hvað varðar hlutverkaskiptingu.