Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 16:25:21 (1961)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:25]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um að framlengja niðurfellingu á vörugjaldi af ökutækjum sem ekki nota olíu eða bensín. Þetta er í sjálfu sér tilefni til að ræða um mengunarskatta og mengunarvarnir og hér hefur spunnist nokkur umræða um það atriði og ég held að það sé sjaldan of mikið rætt. Þegar vörugjöld, bensíngjald og olíugjald voru tekin upp á Íslandi þá voru þau gjöld aðallega hugsuð sem tekjustofn fyrir ríkissjóð, síðan sem notkunargjald á vegina og núna sýnist mér umræðan vera að snúast upp í að það sé að verða mengunarskattur. En þá ætti að sjálfsögðu að leggja slíkt gjald á alla olíu, ekki bara þá sem notuð er á bíla, líka olíu á skip því að olía mengar jafnmikið hvort sem hún er brennd um borð í skipi eða til að knýja bíl. Ég er hlynntur þessu frumvarpi sem ákveðnu skrefi til að styðja rannsóknir og þróun á slíkum bifreiðum sem ekki menga með koltvíoxíði.

Í því sambandi vil ég benda á þá staðreynd, frú forseti, að Íslendingar flytja út meiri orku en þeir flytja inn. Þetta er ekki almennt vitað en öll sú orka sem við flytjum inn í formi olíu og bensíns á skipin og bílana, sem er nokkurn veginn jafnmikil notkun á báðum sviðum, er svipuð og sú orka sem við flytjum út í formi áls. Þess vegna getur Ísland glaðst yfir hækkun á orkuverði í heiminum og alveg sérstaklega vegna þess að hækkun orkuverðs mun einmitt verða efnahagslegur hvati til að framleiða slíka bíla sem hér um ræðir, bíla sem ekki nota bensín eða olíu, þannig að þetta tengist þessari þróun.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að svona þróun tekur marga áratugi áður en hún verður notkunarhæf og þeir bílar sem hér að um ræðir eru í rauninni ekki notkunarhæfir enn sem komið er, ekki í samkeppni við olíu- og bensínbílana og þess vegna er þessi styrkur íslenska ríkisins á sinn hátt aðstoð við að þróa þessa bíla. Í framhaldi af umræðu sem fór fram áðan um að einhver mætur samfylkingarmaður í Brasilíu hefði gert eitthvað stórkostlegt þá vil ég benda á að við getum alveg eins sagt að hæstv. núverandi ríkisstjórn hafi stigið það stórkostlega skref að það er nánast ekkert annað en jarðhiti notaður við húshitun á Íslandi. Þar er bara notuð hrein orka en þetta var auðvitað gert fyrir löngu og er ekkert núverandi ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Já, hugsanlega, það var svo langt síðan. En það er mikið skref Íslendinga og sennilega er engin þjóð sem þarf að hita húsin sín á annað borð, komin jafnlangt í því að nota ekki mengandi orkugjafa til þess.

Hér var líka rætt um vetnisvæðinguna. Ég hef bent á það fyrir nokkuð löngu að ég hef ekki mikla trú á þeirri kenningu vegna þess að vetnið er í rauninni rafgeymir. Það er notað sem rafgeymir. Það er sett inn raforka til að framleiða vetnið og út kemur raforka til að knýja bíl. Nýtingin er afskaplega léleg, efnið vetni er mjög létt og þarf að geymast undir gífurlegum þrýstingi sem gerir það hættulegt í meðförum og auk þess þó það sé geymt með mörg hundruð sinnum loftþrýstingi þá hefur það ekki mikla orku per kíló. Þetta er því ekki sérstaklega sniðugur rafgeymir og ég er viss um að margir aðrir rafgeymar eru miklu fremri í að knýja áfram bíla en vetnið, þannig að ég hef ekki haft mikla trú á því. Hins vegar er allt í lagi að skoða það mál ásamt fleiru en menn skulu ekki búast við því að það verði einhver allsherjarbylting í þjóðfélaginu á grundvelli vetnisvæðingar.

Þetta frumvarp sem hér er til umræðu og hefur orðið mér tilefni til að ræða lítils háttar um koltvíoxíðsmengun jarðar er gott skref, góður styrkur íslenska ríkisins til þróunar á þessum bílum og ég styð það eindregið.