Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 16:41:28 (1965)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:41]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að okkur ber siðferðileg skylda til þess að minnka eins og hægt er orkunotkun bíla, skipa og flugvéla. Hins vegar getum við ekki haft nein óskaplega mikil áhrif á hraða tækniþróunar í heiminum þó að við stígum okkar litla skref í þá átt með því frumvarpi sem við ræðum.

Við getum gert annað. Við getum reynt að finna notkun fyrir þá hreinu orku sem við eigum hér á landi enn óbeislaða, sem ekki gengur á náttúruna eða eins lítið og hægt er, þannig að við hjálpum heiminum við að leysa þetta vandamál, því að þetta er vandamál alls heimsins. Raforka sem framleidd er í útlöndum með brennslu kola, olíu og gass, mengar sem raforka á Íslandi gerir ekki. Ég er hins vegar ekki endilega hlynntur því að reisa fleiri álver eða ótakmörkuð álver vegna þess að ég held við séum orðin efnahagslega háð eða getum orðið of háð þeirri vörutegund. Hins vegar eru margir aðrir kostir eins og t.d. að geyma hérna gagnagrunna og annað slíkt sem menn hafa nefnt, sem eru mjög orkukrefjandi og spara þá orku annars staðar í heiminum sem mengar. Þannig getum við mætt þeirri auknu mengun sem við völdum með bílum og skipum í framtíðinni.