Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 16:45:26 (1967)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Um þetta mál hefur farið fram góð og efnisleg umræða enda fullt tilefni til. Málið snýst um þá stefnumótun ríkisstjórnarinnar að framlengja aðeins til tveggja ára ákvæði til lægri gjaldtöku af bifreiðum sem nota annaðhvort rafmagn, metangas eða aðra orkugjafa en olíu og bensín.

Ég tek undir það, sem m.a. kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að sú stefnumótun sem hér er lögð til og afgreidd sem slík, sem bráðabirgðaákvörðun til tveggja ára, ætti að gilda til lengri tíma en hér er gert ráð fyrir. Við eigum að marka þá stefnu fyrir framtíðina að þeir sem vilja fjárfesta í ökutækjum sem nota aðra orkugjafa heldur en bensín og dísilolíu geti verið nokkuð vissir um að í íslenskri löggjöf verði eftirgjöf af gjöldum til ríkisins við kaup á slíkum tækjum. Það ætti ekki að vera þannig að innan tiltölulega skamms tíma verði þeim ívilnunum breytt.

Ég held að gefa ætti skilaboð til lengri tíma um að þeirri ívilnun verði ekki breytt og hvatinn verði beinlínis til staðar. Fólk og fyrirtæki sem fjárfestir í slíkum ökutækjum ætti að geta treyst því að svo verði til lengri tíma, a.m.k. til nokkurra ára. Ég tel eðlilegt að sú stefna verði mótuð til áratugs í upphafi og þar með væri hvatinn til staðar. Menn færu frekar út í að kaupa sér ökutæki sem notar slíkan orkugjafa. Farartækin hafa vissar takmarkanir umfram þau sem við notum í dag. Til dæmis er þjónusta við farartæki knúin með bensíni og dísilolíu til staðar hér á landi, þ.e. hér er nægt framboð af bensín- og olíusölustöðum en fáir staðir þar sem hægt er að kaupa metangas. Hins vegar er auðvelt að nota rafmagn til að endurhlaða farartæki en sá búnaður kostar væntanlega einhverja fjármuni.

Ég hefði talið eðlilegt að við hefðum víðtækari stefnu en ákvörðun til tveggja ára. Stefnumótunin á Íslandi ætti að tryggja fólki og fyrirtækjum það að komið verði til móts við slíka fjárfestingu til lengri tíma. Það þarf einnig að skoða aðra kostnaðarþætti sem fylgja ökutækjum af þessu tagi.

Við þurfum að horfa til dreifikerfis að því er varðar aðra orkugjafa og gera mönnum kleift að nýta ökutækin víðar en eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Við gætum t.d. sett okkur þá stefnu að menn geti nálgast metangas á fleiri stöðum við hringveginn til að byrja með og síðan hringveginn um Vestfirði líka, a.m.k. þannig að menn komist inn á svæðið og út af því aftur. Það er náttúrlega forgangsskilyrði ef þetta á að vera raunveruleg notkun og við ætlum að efla þetta mikið.

En stór hluti þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu og hér hafa þessi ökutæki verið að ryðja sér til rúms. En til að við getum haft meiri not af slíkum ökutækjum þurfum við að setja fram skýra stefnumótun af hálfu íslenskra stjórnvalda í þeim efnum. Þar af leiðandi mundum við ýta á þá sem nú sjá um olíudreifingu, að þeir geri mögulegt að kaupa aðra orkugjafa þótt þeir yrðu kannski ekki á hverri bensínstöð. Ég held að við gætum þannig flýtt þróuninni, hæstv. forseti. Það er eðlilegt að við horfum til þess.

Við höfum verið að gera tilraunir varðandi vetnisnotkun á undanförnum árum, aðallega með strætisvagna á götum Reykjavíkur. Ég held að það hafi tekist nokkuð vel. Við getum vafalaust gert það í meira mæli. En það er hins vegar alveg rétt sem menn hafa bent á að það kostar raforku að framleiða vetni. Nýtnin á því eldsneyti miðað við kostnað er kannski ekki nægjanleg eins og málum er fyrirkomið í dag þótt opinberir aðilar geti vissulega haft mikil áhrif á möguleika fólks til að nálgast þá orku.

Þetta held ég að þurfi að skoða í samhengi, hæstv. forseti. Ég tel að það væri eðlilegt fyrir okkur að stíga þetta skref til lengri tíma en tveggja ára og huga jafnvel að frekari eftirgjöf varðandi gjöld af þessum ökutækjum til að flýta þróuninni. Það yrði örugglega til þess að fleiri færu að huga að því hvernig hægt væri að framleiða metangas hér á landi.

Hæstv. forseti. Þótt þetta sé ekki stórt mál er það geysilega mikilvægt fyrir framtíðina. Ég hefði talið, hæstv. forseti, að við ættum að huga að framtíðinni að því er þetta varðar og ýta undir þá þróun að við notum minna af innfluttum orkugjöfum, bensíni og olíu, einkanlega með tilliti til þess sem fram hefur komið í þessari umræðu en allir landsmenn vita að ökutækjum fjölgar geysihratt hér á landi.

Við erum miklir bílaeigendur, Íslendingar, og notum bíla í vaxandi mæli. Nánast allir flutningar eru komnir á þjóðvegina og því að mörgu að hyggja og eftir miklu að slægjast, hæstv. forseti, með því að fólk geti treyst því að í gangi sé sú stefnumótun að auka möguleikann á nýtingu vistvænna ökutækja. Það mundi eitt og sér ýta undir það að fólk treysti sér til að kaupa slík tæki ef það veit að notkunarmöguleikar muni aukast með betri aðgangi að orkugjöfunum og víðar en bara á höfuðborgarsvæðinu.