Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 16:55:03 (1968)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:55]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil segja nokkur orð um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti, með síðari breytingum, sem við hér fjöllum um. Í því er lagt til að framlengja tímabundið heimild til að lækka vörugjald af bifreiðum með vélar sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu.

Ég tek hjartanlega undir efni frumvarpsins. En eins og aðrir hv. þingmenn sem talað hafa í þessari umræðu þá tel ég allt of skammt gengið. Að tala um þetta sem tímabundna heimild tel ég að sýni stefnuleysi stjórnvalda í þessum málaflokki. Við getum haft áhrif. Við sjáum að tækninni fleygir fram og eins sjáum við að hugmyndir eru til um farartæki framtíðarinnar sem ekki eru komin á göturnar. En við getum með markvissum, hvetjandi aðgerðum stuðlað að því að almenningur fjárfesti í vistvænum farartækjum og noti vistvænan ferðamáta í staðinn fyrir það ástand sem ríkir í dag, þ.e. mikill innflutningur á bifreiðum, sérstaklega einkabifreiðum. Innflutningur á stórum, bensínfrekum einkabifreiðum hefur t.d. aukist stórlega.

Við höfum stefnt neyslunni í þveröfuga átt við það sem við ættum að gera, miðað við það sem við vitum í dag, að okkur ber sem þjóð að stuðla að því að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Við eigum að stuðla að því með öllum mögulegum ráðum að draga úr útblæstri farartækja, hvort sem er bifreiða, skipa eða flugvéla, til þess að draga úr neikvæðum gróðurhúsaáhrifum sem nú eru í fullum gangi. Við eigum að stuðla að sjálfbærri þróun í samgöngum sem öðru.

Við getum haft áhrif í þessa átt með ákveðnum aðgerðum í stað þess að bíða og sjá til með tímabundnar aðgerðir um að lækka vörugjald og það aðeins af bifreiðum sem nota metangas eða rafmagn en ekki svokölluðum tvíorkubifreiðum. Einnig eru til nýir dísilbílar sem menga minna en bensínbílar.

Auðvitað eigum við að hvetja til að frekar séu keyptar þær bifreiðar sem menga minna, t.d. nýir dísilbílar frekar en bensínbílar. Menn töldu lengi að dísilbifreiðar menguðu meira en bensínbílarnir en það er a.m.k. liðin tíð. Nýir og vandaðri dísilbílar menga minna. Við eigum að hvetja til að vistvænni kostir verði fyrir valinu með öllum ráðum. Það mætti einnig gera með verðmyndun á dísilolíu. Ég tel að markmið sem við settum okkur með að breyta þungaskatti eins og gert var hafi ekki náðst. Sú breyting hefur ekki náð að lækka svo verð á dísilolíu að það hvetji fólk til að kaupa og aka dísilolíubílum. Það er allt of lítill munur á milli bensínverðs og verðs á dísilolíu til að það sé hvetjandi.

Við eigum að stuðla að því að minnka orkunotkun. Það getum við gert með því að efla almenningssamgöngur og draga úr notkun einkabílsins. Við eigum að minnka útblástur bifreiða. Til þess er einnig hægt að hvetja með því að hafa lægri gjöld á mengunarútbúnaði sem hægt er að setja á eldri bíla. Við eigum að nota alla þá hvata sem bjóðast til að auka hlutfall vistvænna farartækja. Við eigum að setja okkur langtímamarkmið um að innan ákveðins árafjölda, segjum fimm ára, tíu ára eða fimmtán eða tuttugu, verði ákveðnu hlutfalli vistvænna ökutækja í landinu náð, bæði einkabíla og annarra ökutækja. Við ættum að geta náð þessu markmiði með því að lækka vörugjöld eða að afnema þau alveg og lækka tolla eða afnema alveg af vistvænni bílum.

Við getum líka náð slíkum markmiðum með því að hvetja til að metangas verði unnið á urðunarstöðum víða um land og staðið við bakið á sveitarfélögum til að koma á þannig förgun eða urðun að samhliða verði unnið metangas úr sorpi. Þetta er mjög dýrt fyrir minni sveitarfélög en skilar sér til lengri tíma litið. Í skattkerfinu og í stuðningi okkar við sveitarfélögin eigum við auðvitað að sjá til að þau séu í stakk búin til að koma á metangasframleiðslu. Varðandi dreifikerfin þarf að vera aðgangur að þessum orkugjöfum, bæði metangasi og vetni, þegar það verður aðgengilegra, þannig að hægt verði að fara um þjóðvegina öruggur með að geta fyllt á slíka bíla.

Hæstv. forseti. Ég vildi eingöngu koma þessu að. Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra ekki trúaður á að við gætum haft áhrif. Við þyrftum að bíða eftir tækninni og sjá hvernig vetnisbifreiðar þróuðust. En við getum haft áhrif. Sé fjárhagslegur hvati fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að kaupa vistvænar bifreiðar fremur en bensínbifreiðar þá kemur annað af sjálfu sér. Það fylgir í kjölfarið. Fari menn að flytja inn stórar bifreiðar og flutningabíla sem nota metangas þá verður það hvati fyrir dreifingarfyrirtækin, að koma upp afgreiðslu á metangasi á fleiri stöðum en er í dag.

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins benda á það í leiðinni að olíubirgðir heimsins eru þverrandi. Að öllum líkindum höfum við náð toppnum í dælingu á olíu nú þegar. Allur heimurinn verður að búa sig undir það að olían er þverrandi auðlind. Við þurfum að búa okkur undir að finna aðra orkugjafa á farartæki okkar. Það er hægt að flýta þeirri þróun og við, hæstv. forseti, getum verið, og erum að hluta til, þátttakendur í því. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að leggja í þá vinnu með hæstv. umhverfisráðherra að setja sér háleit markmið í þessum efnum og ráðast í metnaðarfyllri áætlun en ráð er fyrir gert í þessu frumvarpi.