Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 17:05:02 (1969)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[17:05]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að fara yfir örfá atriði sem komu fram í ræðu hv. þingmanns Vinstri grænna. Það kom skýrlega fram að viðkomandi vill að við förum að virkja metangas og það er í sjálfu sér nýmæli að fulltrúar Vinstri grænna vilji yfir höfuð fara í virkjanir á Íslandi og styðja það. Jafnframt talaði viðkomandi þingmaður, Þuríður Backman, um að við ættum að nota endurnýjanlega orkugjafa og nefndi flutningatæki í því sambandi. Einnig talaði þingmaðurinn um að olíulindir heimsins sem nýttar eru í dag valdi mikilli mengun með koltvísýringi. Mér er því spurn: Er fulltrúi Vinstri grænna að kynna hér nýja stefnu í virkjanamálum? Þar sem við erum að virkja fallvötn og framleiða orku sem er endurnýjanleg og skapar ekki mengun og sama gildir um jarðgufuna, við framleiðum mjög vistvæna orku hér á landi, má þá ekki skilja orð þingmannsins sem svo að hún vilji að við snúum okkur að frekari virkjunum á auðlindum okkar í landinu?