Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 17:27:08 (1972)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[17:27]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur væntanlega mismælt sig þegar hann sagði að vetnið væri orkugjafi. Vetnið er orkuberi eða orkugeymsla en ekki orkugjafi vegna þess að það þarf orku til að framleiða vetni, a.m.k. hér á landi. Á einstaka stað á jörðinni kemur vetni upp úr jörðinni í bland við jarðgas en það er ekki hér á landi.

Hv. þingmaður sagði að það væru mengunarský yfir Reykjavík og það er rétt, það er vegna útblásturs að einhverju leyti en líka vegna svifryks og vetnisbílar búa líka til svifryk. Ég hef ekki séð neina aðferð til þess að losna við svifryk nema að hætta að nota nagladekk eða eitthvað því um líkt.

Hv. þingmaður sagði að við flyttum inn jarðefni, (Gripið fram í.) eldsneyti, og flyttum út peninga. Ég vil ekki sjá það þannig. Ég sagði áðan í ræðu minni: Við flytjum út í formi áls jafnmikla orku og við flytjum inn. Þannig kvittum við fyrir þá koltvíoxíðsmengun sem við búum til á Íslandi, við kvittum fyrir henni gagnvart heiminum, því að það ál sem er framleitt á Íslandi með hreinni raforku, mengunarlausri, er þá ekki framleitt úti í heimi með mengun. Ef það magn af áli sem við framleiðum og flytjum út en þyrfti eitt tonn af olíu í öðrum heimshluta til að framleiða svarar til eins tonns af olíu sem við flytjum inn þá erum við kvitt. Við erum nefnilega kvitt vegna þess að þegar Kárahnjúkavirkjun verður komin í gagnið munum við flytja út jafnmikla orku og við flytjum inn. Það er náttúrlega spurning um mælingu þarna á milli en þetta er það sem Orkustofnun telur. (Forseti hringir.)