Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 17:33:11 (1975)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[17:33]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fer ekkert á milli mála að orkuverð, verð á bensíni og olíu, hefur hækkað og hækkað og hækkað, og ég er sammála hv. þingmanni um að þjóðir heimsins, til dæmis Bandaríkjamenn sem eru mestu orkunotendur veraldar, leita logandi ljósi að nýrri tækni og hafa sagt að það snúist um pólitískt sjálfstæði, efnahagslegt sjálfstæði að finna nýjar lausnir, að losna úr viðjum, má segja, olíunnar og þeirra sem ráða yfir olíu. Þær lausnir sem virðast vera í sjónmáli eru einmitt efnarafalar og vetni. Hvort sem hv. þingmanni líkar betur eða verr þá veðja líklega allir, að minnsta kosti langsamlega flestir bílaframleiðendur heimsins á það og verja milljörðum í þróunarstarf á því. Fulltrúar Íslenskrar NýOrku hafa heimsótt alla helstu bílaframleiðendur. Þeim hefur ýmist verið boðið að fara þangað eða hafa farið á eigin vegum og þetta er niðurstaðan, að þeir veðja á efnarafala og vetni, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við erum bara svo heppin að þeir skuli veðja á þessa tækni því að hún gefur okkur svo mikil tækifæri.

Hv. þingmaður skriplaði aðeins á skötu þegar hann fór út í nýtinguna. Það er rétt hjá honum að nýting olíu á sprengivél er ekki nema um 25%–26% og hún verður ekkert meiri, segja sérfræðingar á því sviði og ef hv. þingmaður setur vetni á sprengivél þá nær nýtingin því varla. En við erum ekki að tala um vetnið á sprengivél. Við erum að tala um vetni á efnarafala og þar er nýtingin allt upp undir 70%. Ég endurtek: Allt upp undir 70% á móti 25% nýtingu (Gripið fram í.) olíu á (Gripið fram í.) sprengivél. Hv. þingmaður verður að kyngja þessu. (Gripið fram í: Það er ...) Þetta er draumur sem er að verða að veruleika.