Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 24. nóvember 2006, kl. 15:07:43 (2313)


133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjármálafyrirtæki.

386. mál
[15:07]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér er á ferðinni afskaplega spennandi mál um eiginfjárreglur fjármálafyrirtækja sem við í efnahags- og viðskiptanefnd hlökkum mikið til að skoða og einhenda okkur í.

Það segir sig sjálft að það er auðvitað mikilvægt að hafa samræmdar reglur á þessu sviði eins og á svo mörgum öðrum sviðum. Ef ég skil hæstv. viðskiptaráðherra rétt er hér um að ræða skyldu okkar til að innleiða efnisreglur þeirra tilskipana sem hann vísaði til. Það væri reyndar fróðlegt að fá viðbrögð frá hæstv. viðskiptaráðherra um hvort hér sé um að ræða skyldu eða ekki, hvort við höfum í rauninni eitthvert val hvað þetta varðar. Það væri líka fróðlegt að vita að hvaða leyti við höfum svigrúm í efnahags- og viðskiptanefnd til að koma að breytingum þessa máls. Markmiðið er væntanlega að stuðla að samræmingu og þá hlýtur svigrúm löggjafans eðli málsins samkvæmt að vera mjög takmarkað.

Við sjáum að markmiðið með þessum breytingum er fyrst og fremst að ákvörðun um lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja verði byggð á nákvæmari viðmiðum en hingað til hefur verið stuðst við og að fyrirtæki sem hafa góða stjórn á áhættum sínum geti notið þess við útreikning á eiginfjárkröfunni. Meginreglurnar eru víst ítarlegri en áður og stór fjármálafyrirtæki með öflugt skipulag geta fengið að byggja eiginfjárkröfuna á eigin áhættumati að hluta.

Eins og ég skil frumvarpið eru þetta efnisatriði málsins. Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hér sé verið að bregðast við einhverjum vanda hvað þetta varðar, hvort honum sé kunnugt um að eitthvað hafi kallað á þessa breytingu úti í hinum stóra heimi og hvort þessar breytingar muni breyta einhverju í raun og veru varðandi íslensku fjármálafyrirtækin. Hver er hin praktíska breyting, ef svo mætti segja?

Í greinargerðinni er sagt að framvegis muni lánastofnanir geta valið á milli ýmissa aðferða við uppgjör á eiginfjárkröfum vegna lánaáhættu og að annaðhvort verði unnt að velja tiltölulega einfalda aðferð, sem kallast staðlaða aðferðin, eða þá að velja aðra tveggja flóknari aðferða sem m.a. byggjast á eigin útreikningi fyrirtækja á áhættu. Það kallast víst innramatsaðferðir. Notkun innramatsaðferðar er háð heimild frá Fjármálaeftirlitinu sem jafnframt mun hafa reglulegt eftirlit með því hvort aðferðirnar sem beitt er standist ýmsar kröfur sem gerðar eru.

Síðan segir þarna, með leyfi forseta:

„Staðlaða aðferðin minnir á þá aðferð sem nú er notuð til að reikna út eiginfjárkröfu. Líklegt er að langstærstur hluti fjármálafyrirtækjanna miðað við fjölda muni velja hana. Innramatsaðferðirnar gera strangar og kostnaðarsamar kröfur til áhættumats fyrirtækjanna og er því búist við að einungis stærri fyrirtæki sæki um leyfi til að nýta þær aðferðir.“

Fjármálafyrirtækjum er veitt valfrelsi milli tvenns konar aðferða. Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort það sé skynsamlegt að hafa tvenns konar aðferðir sem fyrirtækin geti valið um og hvort á þeim sé einhver grundvallarmunur sem gæti vakið einhvern misskilning eða eitthvað slíkt eftir því hvaða aðferðir menn styðjast við. Mig langar einnig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort markaðsaðilar fjármálafyrirtækja hér á landi hafi sýnt þessu máli einhvers konar viðbrögð, hvort honum sé kunnugt um það. Býst hann við einhverjum vandkvæðum eða að íslensku fjármálafyrirtækin nái að fara að starfa eftir þessum lagabreytingum strax 1. janúar? Er nægur tími til að undirbúa viðkomandi fyrirtæki, eru þau í stakk búin til að fara eftir þessu? Þetta snertir auðvitað það hvort þetta séu í raun og veru miklar breytingar eða hvort þær séu aðallega tæknilegs og formlegs eðlis.

Mig langar einnig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra um kostnaðinn. Í greinargerðinni er sagt að kostnaðurinn muni aukast, þá væntanlega bæði hjá Fjármálaeftirlitinu og hjá fjármálafyrirtækjunum sjálfum. Rekstur Fjármálaeftirlitsins er fjármagnaður með ríkistekjum af eftirlitsgjaldi samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og hér er sagt að þeim kostnaði verði mætt af þeim tekjum. Mig langar því að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra: Hversu mikið mun eftirlitsgjaldið hækka ef við samþykkjum þetta frumvarp? Mun sú hækkun ekki að öllu leyti duga fyrir þeim kostnaði sem Fjármálaeftirlitið verður fyrir við lögfestingu þess?

Einnig væri fróðlegt að vita hvort viðskiptaráðuneytið hafi metið það hvort kostnaður hjá fyrirtækjunum sjálfum muni aukast við að uppfylla þessar kröfur, hvort við séum að lögleiða hér það íþyngjandi reglur að talsverður kostnaður falli á viðkomandi fyrirtæki. Er e.t.v. hægur vandi fyrir þessi fyrirtæki að uppfylla kostnaðinn?

Að lokum langar mig að forvitnast um atriði sem hæstv. viðskiptaráðherra kom inn á í andsvari sínu sem lýtur að því að útfærslurnar og tækniatriðin eigi að vera ákvörðuð í reglum sem eru settar af Fjármálaeftirlitinu. Gerir hann ráð fyrir miklum breytingum hvað það varðar? Mun Fjármálaeftirlitið ráðast í meiri háttar breytingar á sínu regluverki vegna þessa frumvarps?

Í sjálfu sér styð ég markmið þessa frumvarps. Mér finnst það samræming á mikilvægum reglum. Samræmingin er góð. Hún er grundvöllur Evrópusamvinnunnar. Við höfum séð hvað þetta regluverk sem kemur frá Evrópusambandinu hefur fært okkur margt jákvætt í okkar samfélagi. Í rauninni sjáum við allar grundvallarbreytingarnar á fjármálalöggjöfinni, samkeppnislöggjöfinni, viðskiptalöggjöfinni, persónuréttarlöggjöfinni, umhverfislöggjöfinni, fjarskiptalöggjöfinni — svona mætti lengi telja. Við sjáum að þær breytingar á þessum lagabálkum, lagaumhverfi, koma að stærstum hluta frá Evrópusambandinu og í langflestum tilvikum eru þessar breytingar til batnaðar. Ég hef enga ástæðu til að efast um að þessar breytingar sem við erum að innleiða hér varðandi eiginfjárreglurnar séu af sama meiði, þ.e. að gera fjármálafyrirtæki okkar samkeppnishæfari og gegnsærri.