Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 24. nóvember 2006, kl. 15:15:19 (2314)


133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjármálafyrirtæki.

386. mál
[15:15]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér er komið fram. Það er mjög nauðsynlegt í þeirri stöðu sem við erum í nú með atvinnulíf sem hefur blómstrað óvenjuhratt og mikið og starfar ötullega jafnvel utan lands, alveg sérstaklega þar með þessari útrás eins og hún er kölluð. Við það magnast upp áherslur sem menn hafa kannski ekki kynnst áður, alla vega ekki að stærðargráðunni til. Þetta er þvílík áhætta að menn eiga mjög erfitt með að átta sig á henni. Það er tugmilljarða áhætta sem menn eru að taka í einstökum dæmum og jafnvel hundruð milljarða. Því er orðið mjög mikilvægt að bankarnir sem eiga mikla hagsmuni þarna tengda hafi bæði gott áhættustýringarkerfi innan borðs, innra eftirlit með áhættu og aðferðir til að dreifa áhættu. Brýnt er að opinberir eftirlitsaðilar gæti þess að þessi kerfi vinni rétt og að annarri áhættu sem kerfin taki ekki til sé mætt þannig að sparifjáreigendur og aðrir viðskiptamenn bankanna þurfi ekki að óttast að neitt komi upp á. Það er þekkt úr gjaldþrotafræðum og öðrum fræðum sem fjalla um líkindi að þegar menn taka mjög mikla áhættu og í vaxandi mæli þá er gjaldþrotið nánast óumflýjanlegt. Það er bara spurning hvenær. Þess vegna er mjög brýnt að bankar sem lána í svona starfsemi séu búnir undir það að taka á slíkum vandamálum. Mér sýnist nú að menn séu mjög duglegir í bönkunum að dreifa áhættunni til að geta ráðið við það ef einhverjir aðilar fara illa í sínum fjárfestingum.

Frú forseti. Ég styð þetta frumvarp. Ég mun vinna að hröðum framgangi þess í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og kalla til gesti sem vonandi geta skilað góðum niðurstöðum og góðum greinargerðum þannig að frumvarpið megi batna ef þörf er á í nefndinni.