Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 24. nóvember 2006, kl. 15:17:46 (2315)


133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjármálafyrirtæki.

386. mál
[15:17]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessi ágætu viðbrögð og prýðilegar spurningar sem ég vonast til að geta fjallað eitthvað um þó þeim verði kannski ekki svarað endanlega í stuttu svari. Ég vil þakka þær ágætu undirtektir sem hér hafa komið fram hjá hv. þingmönnum.

Í sem einföldustu máli er um það að ræða að gera samræmda sundurliðun á áhættuþáttum á efnahagsreikningi og setja síðan samræmt margfeldi við hvern lið fyrir sig. Það er í allra skemmstu máli það sem um er að ræða þannig að niðurstöðutala á þessum áhættumatsreikningi sé með þeim hætti að viðskiptaaðilar og stjórnendur hvers fjármálafyrirtækis geti þokkalega við unað í þokkalegu öryggi.

Í sjálfu sér eru Basel II reglurnar ekki skylda, en innleiðing þeirra verður skylda við það að þær eru teknar upp í tilskipun. Það gerist raunverulega með þeim hætti. Það er kannski ekki rétt að segja að þessar reglur séu settar vegna einhverra sérstakra vandamála eins og hv. þingmaður spurði um. Það er frekar um það að ræða að þetta er þróunarstig. Þetta er liður í langri þróun. Vinnan við Basel II staðalinn hefur staðið yfir í mjög mörg ár. Hún hefur farið í gegnum margar umræður meðal fjármálastofnana og er ákaflega vönduð og reyndar flókin vinna þarna að baki. Það er ekki heldur um það að ræða að það séu sérstök vandamál í íslenskum fjármálafyrirtækjum sem verið er að mæta heldur frekar þróunarþarfir þeirra eins og ég sagði og ég hygg að einn sterkasti hvatinn til að taka upp þessar reglur hér á landi sé einfaldlega hagsmunir og öryggi fyrirtækjanna. Með því að fylgja þessari þróun vel eftir sýna þau sig að vera metnaðarfull, örugg og traust á alþjóðlegum markaði.

Þá var spurt hvort það væri heppilegt eða eðlilegt að hafa tvær eða reyndar þrjár aðferðir um að velja. Sannleikurinn er sá að flest minni fyrirtæki, og þar af leiðandi trúlega öll íslensku fyrirtækin, eiga kost á því að velja stöðluðu leiðina. Hinir kostirnir tveir um innramatsaðferðir eiga þá frekar við um þau fyrirtæki sem eru stærri, eru metnaðarfyllri, eru í flóknari viðskiptum, eru kannski í áhættufyllri viðskiptum og telja sér þess vegna henta eða jafnvel nauðsynlegt á markaði að sýna að þau viðhafa svo mikla vinnu, svo vandaða vinnu og svo flókið og fullkomið kerfi sem þar heimtist til.

Það kann að vera að ýmis vandkvæði verði við innleiðslu þessara nýju reglna. Ég á reyndar ekki von á því fyrir þau fyrirtæki sem taka upp staðlaða aðferð. En ég held að það geri sér allir grein fyrir því að upptaka innramatsaðferðar tekur býsna langan tíma hjá fyrirtæki og ég held að það sé gert ráð fyrir því að þau hafi tíma og svigrúm til þess arna enda um valkvæðar ákvarðanir að ræða.

Við vitum ekki núna hver kostnaður verður af þessu. Í sjálfu sér má segja að útgáfa leiðbeinandi reglna af hálfu fjármálaeftirlitsins liggi kannski að talsverðu leyti fyrir í því að þessar tilskipanir séu fyrir hendi og álit Basel II nefndarinnar sé fyrir hendi og það er kunnugt öllum íslenskum bankamönnum og sérfræðingum fjármálaeftirlitsins til nokkurra ára nú þegar þannig að það er ekki þar með sagt að það verði mjög mikill kostnaður við það umfram það sem ella yrði. En einhver kostnaður verður þetta og vitanlega verður það talsverður kostnaður í metnaðarfullum fyrirtækjum að kaupa til sín alla þá flóknu sérfræðivinnu sem er dýr við að búa til þessa áhættugrunna og til dæmis þau sem taka innramatskerfið.

Ég endurtek að ég þakka þessar ágætu undirtektir og vönduðu spurningar sem hér komu fram og sýna hvað þetta er í raun og veru heillandi mál fyrir þá sem hafa á annað borð hafa áhuga á slíkum efnum.