Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 24. nóvember 2006, kl. 15:24:07 (2317)


133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjármálafyrirtæki.

386. mál
[15:24]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að megnið af þeim kostnaði sem um verður að ræða yrði innheimtur hjá viðkomandi fyrirtækjum því hér er um sértækan kostnað að ræða vegna sértækra verkefna. Ég hygg að hann muni dreifast á jafnvel nokkur ár. Sannleikurinn er þó sá að þessar reglur sjálfar liggja fyrir í þeim alþjóðlegu textum sem fyrir hendi eru þannig að það þarf ekki að nema nein ný þekkingarlönd á þessu sviði. Ég geri ráð fyrir því að það verði nægur tími til að bregðast við þörfum, aðstæðum og óskum sem kunna að koma upp við þessa innleiðingu. Ef óskað verður eftir því að tekið sé úr sameiginlegum sjóðum þá mun það vafalaust helgast af því að þar sé um einhver sameiginleg hagsmunamál að ræða. Að því leyti sem um er að ræða upptöku sérstakra reglna í einstökum fyrirtækjum þá tel ég tvímælalaust að það verði innheimt með venjulegum hætti af hálfu Fjármálaeftirlitsins.