133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

ummæli formanns Samfylkingarinnar á fundi í Keflavík – förgun fugla í Húsdýragarðinum.

[10:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Já, það rekur ýmislegt á fjörur okkar þingmanna undir þessum dagskrárlið um störf þingsins. Þannig háttar til að ég hef í nokkurn tíma beðið eftir að koma hér að umræðu, bæði utan dagskrár og eins í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær, varðandi förgun 56 fugla í Húsdýragarðinum. Nú hillir undir lok þingsins og ég sé ekki fram á að ég fái að taka þessa umræðu við hæstv. landbúnaðarráðherra nema ég kveðji mér hljóðs um störf þingsins.

Þann 20. nóvember sl. fyrirskipaði hæstv. landbúnaðarráðherra að tillögu Landbúnaðarstofnunar og yfirdýralæknis að 56 fuglum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal yrði lógað. Þetta var gert á grundvelli 8. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, sem kveða á um að ráðherrann geti fyrirskipað hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að hindra útbreiðslu tiltekinna dýrasjúkdóma.

Hæstv. forseti. Nú hafa komið upp áhöld um það hversu nauðsynlegar þessar aðgerðir hafa verið enda málið þannig vaxið að í upphafi þessa árs, í janúar, greindust í fjórum fuglum mótefni við flensu, sýnin týndust eða fóru eitthvað á flakk og erfiðlega gekk að fylgjast með þeim fuglum sem smitaðir voru eða höfðu þetta mótefni í blóðinu og það var a.m.k. ekki staðið þannig að málum að hægt hefði verið að grípa til þeirra aðgerða sem ég mundi telja að væru eðlilegar. Hæstv. landbúnaðarráðherra gaf þessa fyrirskipun út án þess að hafa samráð við ræktendafélagið sem ræktar þennan sjaldgæfa stofn landnámshænsna. Það stríðir gegn Evrópureglum en í þeim segir að í tilfelli sem þessu, þegar fuglaflensu verði vart eða einhvers konar ótti um hana grípur um sig þá beri að hafa samband við ræktendafélag. Þess vegna spyr ég hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvers vegna var ekki haft samband við Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna um viðbrögð við þeim möguleika að fuglaflensa bærist til landsins og hvers vegna var beðið með að slátra fuglum sem greindust með mótefni fyrir níu mánuðum?