133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

ummæli formanns Samfylkingarinnar á fundi í Keflavík – förgun fugla í Húsdýragarðinum.

[10:43]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega litlu hægt að bæta við þessa umræðu sem hefur verið skemmtilegri en oft áður. Eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson benti á þá er það mjög sögulegt að formaður stjórnmálaflokks skuli koma og gefa þingmönnum sínum svona einkunn. Þetta er auðvitað mjög sögulegt. Og ef við settum þetta í eitthvert annað samhengi, af því að maður er nú vanur ýmsum uppákomum í Samfylkingunni, ef við settum þetta í samhengi við einhvern annan stjórnmálaflokk, ef formaður einhvers annars stjórnmálaflokks hefði komið og afgreitt þingflokkinn með slíkum hætti þá þætti það jafnvel meiri frétt en þetta. (Gripið fram í.) Og kaldi raunveruleikinn er sá — ég vek athygli á því að hv. þm. Mörður Árnason kallaði fram í og sagði að það væri jafnvel meiri ástæða til að tala um aðra þingflokka, hann er líka sammála þessu. Hann er augljóslega sammála því að ekki sé nokkur einasta leið að treysta þingflokki Samfylkingarinnar og er hann innanbúðarmaður og þekkir það ágætlega og vonin er nákvæmlega engin vegna þess að eftir prófkjörið liggur það alveg fyrir að ef Samfylkingin fær einhver atkvæði í næstu kosningum og eitthvert fylgi þá er nákvæmlega sama fólkið í þingflokknum, nema hv. þm. Jón Gunnarsson. [Hlátrasköll í þingsal.] Ég vil ekki trúa því að hann beri það upp að öll þjóðin treysti ekki þingflokki Samfylkingarinnar til að gæta hagsmuna þeirra, tryggja stöðugleika, fara með skattpeninga af ábyrgð og gæta þess að atvinnulíf okkar sé samkeppnishæft og vernda hagsmuni Íslands utan landsteinanna eins og formaður Samfylkingarinnar fór í smáatriðum yfir. Það er ekki bara að þeir treysti þeim ekki, heldur í smáatriðum í öllu sem skiptir máli, þar treystir þjóðin ekki Samfylkingunni. En svona er þetta bara, virðulegi forseti.