133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

ummæli formanns Samfylkingarinnar á fundi í Keflavík – förgun fugla í Húsdýragarðinum.

[10:55]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það má eiginlega segja að það hafi verið dálítið gaman að þessum umræðum hér í morgun, annars vegar að hingað skuli koma upp fulltrúi stjórnmálaflokks sem mælist með þetta fjóra til fimm þingmenn í skoðanakönnunum og hafa af því miklar áhyggjur og sýna þingflokki Samfylkingarinnar mikla umhyggju þegar hann lýsti því yfir að hugsanlega kynni þjóðin ekki að treysta þingflokknum. En hann hafði ekki orð á því að þjóðin er náttúrlega gersamlega búin að gefast upp á Framsókn. Hann nefndi það ekki einu orði.

Þá hafði ég ekki síður gaman af því að heyra hina umræðuna sem hér fór fram um að landbúnaðarráðherra hefði nánast lagt til að farga fuglum í Húsdýragarðinum. Mér finnst þessi umræða í morgun vera að mörgu leyti skemmtileg. Hins vegar er hún kannski að mörgu leyti athyglisverð í því ljósi að nú er langt liðið á þingið og hér er mikið að gera. Það þarf að fjalla hér um mörg mikilvæg mál. En þetta er talið það mikilvægasta núna á þessum morgni. (Gripið fram í: Það sýnir styrk Samfylkingarinnar.) Það sýnir augljóslega styrk Samfylkingarinnar. En það sem í reynd er kannski ástæða fyrir því að þessi umræða er vakin er að Samfylkingin var að skoða sín innri mál og velta fyrir sér meðal annars því (Gripið fram í.) að hún mælist um þessar mundir með 25% fylgi. En við viljum auka það fylgi. Þetta þýðir þá væntanlega að 75% þjóðarinnar hafa ekki í augnablikinu hug á því að styðja við flokkinn og um það snýst vitaskuld þessi umræða því ef það á að fella (Gripið fram í.) þessa ríkisstjórn þá er alveg ljóst að Samfylkingin verður að gera það. Þannig liggur þessi staða (Gripið fram í.) og það er eðlilegt að formaður flokksins sýni hreinskilni með því að lýsa yfir áhyggjum af þessari stöðu. Þetta (Forseti hringir.) ættu kannski miklu fleiri að gera. Það er svolítið gaman að þessari umræðu, virðulegi forseti, í ljósi þess að fyrir nokkrum dögum kom formaður Framsóknarflokksins hér í pontu og (Forseti hringir.) sagði að það sem þeir ræddu sem sín innri mál ætti ekki erindi hér á þingið. En hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hafði ekki fyrir því að fara eftir fyrirmælum formannsins.