Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 15:58:09 (2858)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[15:58]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að óhætt sé að fullyrða að frumvarp til laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra sem hér er á ferðinni marki allveruleg tímamót. Frumvarpið markar tímamót vegna þess að ef það verður að lögum, sem ég geri fastlega ráð fyrir, verða þetta fyrstu lögin sem sett eru hér á landi um fjármál stjórnmálasamtaka og upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka, þrátt fyrir að eftir slíkum lögum hafi verið kallað í mörg ár og áratugi, ekki síst af ýmsum sem tilheyra þeim væng stjórnmálanna sem ég er fulltrúi fyrir. Íslenskir jafnaðarmenn hafa lengi haft það sem baráttumál að slík lög væru sett, m.a. hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir verið ötull talsmaður þess og verið 1. flutningsmaður að mörgum málum í þessa veru. Það má því segja að hún hafi hamrað steininn ótt og títt á þinginu með þetta mál og það sannast kannski hið fornkveðna að dropinn holar steininn, ekki vegna þess að hann falli endilega svo þungt til jarðar heldur svo oft. Þingmaðurinn á auðvitað heiður skilinn fyrir að hafa unnið ötullega að þessum málum.

Eins og ég sagði markar þetta frumvarp tímamót og kannski ekki síst fyrir það að full samstaða náðist um það milli stjórnmálaflokkanna á þinginu að standa að flutningi þessa frumvarps. Um innihald frumvarpsins varð góð sátt milli formanna flokkanna og þess fólks sem sat fyrir okkur í þeirri nefnd sem skipuð var til að vinna að þessum málum. Ég er ekki viss um að margir hafi haft trú á því þegar nefndin var skipuð í júlí 2005, nefnd fulltrúa allra þingflokka, að hún næði niðurstöðu í málinu vegna þess að það virtist a.m.k. svo að himinn og haf væri milli sjónarmiða flokkanna í málinu.

Það er stundum þannig að allt hefur sinn tíma og við vorum einfaldlega þangað komin núna í þessum málum að það var forsenda fyrir sátt á milli stjórnmálaflokkanna í viðkvæmu deilumáli sem lengi hefur verið þrætuepli á milli flokka. Þetta segir okkur það, eins og ég hef áður bent á, að mörg mál eru þeirrar gerðar að ef menn einfaldlega setjast niður, útskýra sjónarmið sín og ræða sig í gegnum þau þá er sáttin kannski oft nær en menn vilja vera láta. Vísa ég í því sambandi til fjölmiðlamálsins árið 2004 og ætla ég líka að vísa í Ríkisútvarpið sem liggur fyrir þinginu.

Í þessu frumvarpi er kveðið á um fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi. Það er tilgangur þeirra að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gegnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auki að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræði. Þetta stendur í 1. gr. frumvarpsins, markmiðsgreininni. Ég tel einmitt mjög mikilvægt þetta gegnsæi sem kemst þarna í fjárreiður stjórnmálaflokkanna, sem ég er sannfærð um að er til þess fallið að auka traust á stjórnmálastarfseminni ef vel tekst til sem allar forsendur eru fyrir.

Samfylkingin hefur lengi verið þeirrar skoðunar að í þessum efnum ætti að ríkja gegnsæi, þ.e. að flokkarnir ættu að vera bókhaldsskyldir og þeir ættu að birta tölur úr bókhaldi sínu opinberlega og m.a. kveða þar á um fjárframlög frá lögaðilum og einstaklingum sem væru yfir ákveðinni upphæð. Við vorum í sjálfu sér ekki þeirrar skoðunar að það ætti endilega að setja bann við fjárframlögum yfir ákveðinni upphæð, aðalatriðið væri gegnsæið þannig að öllum mætti ljóst vera hvort flokkar þæðu fjárframlög frá tilteknum fyrirtækjum eða ekki. Þannig gætu kjósendur og almenningur gert sér grein fyrir því hvort um hugsanlega hagsmunaárekstra væri að ræða í afgreiðslu mála sem koma til kasta flokkanna. Ég gat hins vegar alveg fallist á það að setja þetta þak, 300 þús. kr. þak á fjárframlög, bæði frá lögaðilum og einstaklingum, og ná þannig samstöðu í þessu máli, þó að almennt sé ég ekki mjög fylgjandi bannleiðum heldur fremur því sem lýtur að gegnsæi. Ég tel að það megi öllum ljóst vera að það kaupir sér enginn fylgispekt, hvorki einstaklings né flokks, fyrir upphæð sem er undir 300 þús. kr. Sú upphæð ætti því ekki að bjóða upp á neina hagsmunaárekstra milli fyrirtækja og flokka.

Þá er líka mikilvægt í þessu sambandi að hér er um algert gegnsæi að ræða vegna þess að flokkunum ber að gera grein fyrir og birta lista yfir þá lögaðila sem styrkja þá um einhverjar upphæðir sem eru undir þessari hámarksupphæð sem er 300 þús. kr. Varðandi framlög frá einstaklingum er sama bann í gildi, þ.e. þau framlög mega ekki vera yfir 300 þús. kr. en það er ekki sama birtingarskylda á þeim framlögum og ræður þar auðvitað miklu um réttur einstaklinga til þess að starfa í stjórnmálum og leggja þeim lið með þeim hætti sem þeir helst kjósa. Það er við því að búast að þetta muni hafa áhrif á fjárreiður stjórnmálaflokkanna vegna þess að allir hafa flokkarnir þurft að leita stuðnings hjá fyrirtækjum og einstaklingum til stjórnmálastarfsemi sinnar þó að í mismiklum mæli sé. Þess vegna er mikilvægt að tryggja þeim framlög, þ.e. þingflokkum og stjórnmálaflokkum úr ríkissjóði og sveitarstjórnarflokkum frá sveitarfélögum, til þess að standa við bakið á þessari mikilvægu starfsemi því að stjórnmálaflokkarnir eru auðvitað gríðarlega mikilvæg eining í öllu lýðræðislegu starfi að stjórnmálum.

Ég tel að það séu mjög mikilvægar greinar í þessu frumvarpi sem lúta sérstaklega að reikningsskilum og upplýsingaskyldu og ég er þar að vísa til 9. og 10. gr. þessa frumvarps þar sem kveðið er nákvæmlega á um það hvernig stjórnmálasamtök skuli færa reikninga sína og að þau skuli skila Ríkisendurskoðun árlega reikningum sem áritaðir séu af löggiltum endurskoðendum. Þá er líka kveðið á um það að Ríkisendurskoðun skuli í kjölfarið birta útdrátt úr ársreikningi stjórnmálasamtaka með samræmdum hætti. Þannig verði birtar tilteknar lykiltölur sem verði þær sömu fyrir öll stjórnmálasamtök. Hér segir í frumvarpinu:

„Þar skal greina a.m.k. heildartekjur og heildargjöld. Þá skal flokka tekjur eftir uppruna, þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum, ásamt helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi.“

Svipaðar reglur gilda samkvæmt þessu um frambjóðendur í persónukjöri eða í prófkjörum og það er í 11. og 12. gr. Ég tel ég gríðarlega mikilvægt að reyna að ná utan um það vegna þess að við höfum fylgst með því á undanförnum mánuðum, missirum og árum að svo virðist sem útgjöld til framboðs í prófkjörum fari sífellt vaxandi. Ég held raunar að þar sé kannski meiri hætta á ferðum fyrir stjórnmálastarfsemina en hjá flokkunum sjálfum þegar einstaklingar þurfa að verja verulegum fjárhæðum, milljónum og jafnvel milljónatugum í framboðsbaráttu til Alþingis eða sveitarstjórnar og sækja þá fjármuni til fyrirtækja á markaði.

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt frumvarp sem hér er að líta dagsins ljós. Ég vil þakka sérstaklega því fólki sem sat í nefnd fulltrúa allra þingflokka sem vann að þessu og ég þakka einnig formönnum annarra stjórnmálaflokka fyrir gott samstarf í þessu máli.

Ég vil segja tvennt að lokum, virðulegur forseti. Annars vegar það að ég tel mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um það á næstu vikum með hvaða hætti þeir ætla að reyna að halda aftur af þeim gríðarlega fjáraustri sem nú er samfara auglýsingum í tengslum við kosningar. Mér finnst mikilvægt að flokkarnir sýni ákveðna ráðdeild í þessum efnum og reyni að ná utan um útgjöld sín sem eru samfara auglýsingakostnaði fyrir kosningar.

Annað sem ég vil líka geta um er mikilvægi þess að menn starfi í anda þessara laga, ekki aðeins stjórnmálaflokkarnir heldur ýmsir sem styðja við bakið á stjórnmálaflokkunum, þannig að ekki verði til neins konar neðanjarðarkerfi þar sem hollvinasamtök stjórnmálaflokka eða einhverjir einstaklingar í prívatframtaki taki sér það fyrir hendur að fara að auglýsa flokkana upp eða jafnvel að auglýsa gegn flokkum, eins og tíðkast m.a. í Bandaríkjunum þar sem eru umfangsmikil bönn við fjárframlögum til stjórnmálasamtaka. Þar hafa peningarnir fundið sér farveg í gegnum slík hollvinasamtök sem fyrst og síðast eru með neikvæðar auglýsingar um aðra stjórnmálaflokka og frambjóðendur, sem setur mjög leiðinlegan svip á bandarísk stjórnmál sem menn sáu kannski ekki alveg fyrir. Ég tel mikilvægt að að komi skýrt fram hjá okkur, formönnum stjórnmálaflokkanna, að við teljum það ekki samrýmast anda þessara laga og að við munum ekki með neinum hætti eiga aðild að því að slíkir hlutir gerist eða samþykkja slíkt, þó að það geti verið erfitt fyrir okkur formlega séð að koma í veg fyrir það.

Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegur forseti. Ég tel mikilvægt að þetta mál fari nú til nefndar og þar verði kallaðir til aðilar til að gefa umsögn um það sem eru líklegir til að hafa á því skoðun og allherjarnefnd gefist þannig kostur á því að heyra í fólki sem hefur skoðun á þessum málum og sem mikilvægt er að við þingmenn heyrum núna í meðferð málsins.