Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 16:44:05 (2862)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[16:44]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Það ber að sjálfsögðu að fagna þessu frumvarpi um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu. Það má kannski segja að það sé svolítið táknrænt að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sé hæstv. forseti yfir þessu máli, hún sem hefur margoft lagt svipað fram á þingi. Umræðan um framlög til stjórnmálaflokka og til stjórnmálamanna almennt hefur aukist í þjóðfélaginu. Almenningur hefur kallað eftir meira gegnsæi og hefur sú krafa ekki síst aukist í kjölfar umræðna um kostnað vegna kosningabaráttu og þá sérstaklega vegna þátttöku einstaklinga í prófkjörum.

Þegar okkur berast upplýsingar um að prófkjörskostnaður geti farið í allt að 14 millj. er eðlilegt að Gróa á Leiti fari af stað og það er nokkuð ljóst að ekki hafa allir aðgang að slíku fé. Mér sýnist að skv. 8. gr. sé einstaklingi bannað að eyða meiru en rúmum 5 millj. og er það vel að setja slíkt þak þótt jafnvel megi spyrja hvort það sé ekki of hátt.

Í 11. og 12. gr. eru ákvæði um reikningsskil frambjóðenda í prófkjörum og upplýsingaskyldu um reikninga eftir kosningabaráttu og er það vel að menn skuli vera skyldaðir til að leggja fram slíkar upplýsingar.

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi þó að alltaf megi spyrja sig hvort gengið sé nógu langt. Það má vera að ef þetta er liður í að stöðva fjáraustur í kosningabaráttu, og þá sérstaklega í prófkjörum, séum við á réttri leið. Við hljótum að þurfa að setja spurningarmerki við það þegar einstaklingur notar um eða yfir 10 millj. íslenskra króna í prófkjörsframboði. Hvað rekur menn áfram til að eyða slíku fjármagni og hverjir greiða í raun þennan kostnað? Ég hef ávallt verið á móti því að fyrirtæki eða eigendur fyrirtækja greiði slíkan kostnað, þ.e. styrki einstaklinga beint í kosningabaráttu sinni, og spyr: Hvaða skilyrði fylgja slíkum styrkjum? Vonandi engin.

Frú forseti. Vonandi nást þau markmið þessa lagafrumvarps að auka traust kjósenda á stjórnmálahreyfingum, stjórnmálaflokkum og að efla lýðræðið. Ég hef þó trú á að við þurfum að endurskoða þessi lög og þá er gott að hafa þetta bráðabirgðaákvæði hér um að það sé ekki endurskoðað seinna en 2010.