Landsvirkjun

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 17:08:20 (2870)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagst gegn sölu á hlut Reykjavíkurborgar og sölu á hlut Akureyrar í Landsvirkjun við þær aðstæður sem uppi eru í málinu. Við erum sömuleiðis andvíg þessum gjörningi á Alþingi. Það erum við vegna þess að leynt og ljóst er þetta liður í einkavæðingar- eða markaðsvæðingarleiðangri ríkisstjórnarinnar á orkusviðinu.

Það liggja fyrir skýrar yfirlýsingar frá fyrrverandi iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur. Hún tímasetti áformin um að hefja einkavæðingu Landsvirkjunar meira að segja, a.m.k. ársetti þau, að svo snemma sem á árinu 2008 væri áformað að hefja einkavæðingu Landsvirkjunar. Það var kannski ekki beinlínis ráðið hvort það ætti að gerast fremur, með beinni sölu á eignarhlut eða með innkomu nýrra eignaraðila með aukið eigið fé nema hvort tveggja væri. Hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir sagði þá að það væri ekki stefna ríkisstjórnarinnar að ríkið ætti þetta fyrirtæki um alla framtíð. Ég hygg að hæstv. ráðherra og jafnvel fleiri hafi meira að segja nefnt lífeyrissjóði sem æskilega eigendur að Landsvirkjun eða a.m.k. sem meðeigendur á móti ríkinu. Þar hafa menn væntanlega horft til þess mikla fjár sem lífeyrissjóðirnir eiga vegna þess að Landsvirkjun er í nokkurri þröng, eins og kunnugt er, með fjármál sín.

Nú kemur hæstv. núverandi iðnaðarráðherra og segir engin áform uppi um þetta núna en við vitum hvert hugur manna hefur stefnt í þeim efnum. Við vitum um áhuga ýmissa fjársterkra aðila á því að komast inn í þennan geira til að ávaxta þar sitt pund og græða. Auðvitað horfa menn til þess að þótt Landsvirkjun sé illa stödd í bili og hafi bundið sér gríðarlegar byrðar vegna mikilla fjárfestinga í virkjunarframkvæmdum í þágu erlendrar stóriðju þá hefur fyrirtækið líka fengið, í gegnum einkaréttindi sín og virkjanaleyfi, gríðarleg framtíðarverðmæti sem auðvitað munu skila arði í fyllingu tímans og gefa mikið af sér, ef menn vitkast og hætta óarðbærum fjárfestingum í virkjunum sem selja framleiðslu sína á allt of lágu verði til erlendra fyrirtækja.

Landsvirkjun er hvort tveggja í senn, fyrirtæki í verulegum kröggum vegna gríðarlegra fjárfestinga sem allar hafa verið teknar að láni og á hina hliðina fyrirtæki sem í eru fólgin mikil möguleg framtíðarverðmæti vegna forréttindastöðunnar sem Landsvirkjun hefur lengst af haft. Hún hefur fram undir síðustu ár haft einkaleyfi til að reisa stærri virkjanir, raforkuver, og fengið mikla fyrirgreiðslu frá stjórnvöldum. Það hefur meira og minna allt verið teppalagt fyrir Landsvirkjun enda var lengi litið á hana eins og ríki í ríkinu. Menn þar á bæ töldu sig eiginlega yfir það hafna að þurfa að hlusta á aðra í þjóðfélaginu og þeir mættu gera það sem þeim sýndist.

Núna hefur að vísu verið innleidd samkeppni á þessu sviði og Landsvirkjun þarf að keppa við aðra aðila, eftir atvikum, um virkjanaleyfi á svæðum. En það breytir ekki því liðna og ekki því að þetta fyrirtæki er í gríðarlega sterkri stöðu að þessu leyti. Í ljósi þessara einkavæðingaráforma, einkavæðingarumræðu sem hefur svifið yfir vötnunum, höfum við verið algjörlega andvíg því að sveitarfélögin seldu eignarhluti sína vegna þess að við teljum að þetta miðlæga raforkufyrirtæki eigi að vera í eigu þjóðarinnar, sérstaklega vegna þess að það hefur enn mikilvægu hlutverki að gegna sem frumframleiðandi raforku til sölu á almennum markaði, til sölu til veitna sem dreifa raforkunni á almennum markaði.

Varðandi stöðu fyrirtækisins, sem eðlilegt er að beri á góma í tengslum við þetta mál, er það rétt sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að annað frumvarp er til umfjöllunar á Alþingi sem þessu tengist mjög. Ég lít svo á að í raun sé það allt einn pakki. Það er frumvarpið um sameiningu Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og Landsvirkjunar, sem er auðvitað ekki annað en sameining þótt þessi fyrirtæki hafi átt að verða dótturfélög Landsvirkjunar. Eins og málið var lagt upp stóð til að setja upp samstæðureikning að sjálfsögðu og þar með hefði Landsvirkjun getað talið sér eigið fé þessara fyrirtækja til tekna og lagað efnahagsreikning sinn sem því nemur.

Það má út af fyrir sig þakka þá hreinskilni að menn hafa ekki reynt að dylja þann ásetning, allra síst reyndu Landsvirkjunarmenn að dylja hann á fundum í iðnaðarnefnd. Þeir sögðu það hreint út að þetta væri einn megintilgangur málsins, að ná í þessa peninga og laga bókhaldið hjá Landsvirkjun. Ekki veitir af.

Staðreyndin er sú að Landsvirkjun er svo grunnt fjármögnuð að ef ekki kæmi til ríkisábyrgðin á skuldbindingum hennar, á lánum sem Landsvirkjun hefur tekið, og hún þyrfti að bjarga sér sjálf þá er það mat aðstandenda fyrirtækisins að dæla þyrfti inn í það a.m.k. 30–40 milljörðum kr. til þess að lánskjör gætu haldist nokkurn veginn óbreytt eða versnuðu a.m.k. ekki að marki. Það segir sína sögu um stöðuna.

Auðvitað hafa menn þar af leiðandi ásælst mjög og girnst þessa 12 eða hvað það nú eru, 15 milljarða sem menn til samans ... (Gripið fram í: 17.) 17 eru þeir kannski orðnir, 17 milljarða sem menn til samans telja sig ná út úr Orkubúi Vestfjarða og Rarik.

Nú er það þannig með þann málatilbúnað að sem betur fer tókst að koma vitinu fyrir menn og menn ætla ekki lengur að fara í þessa sameiningu í bili á Rarik, Orkubúinu og Landsvirkjun. Það var af því að málið náttúrlega fékk svo hroðalega útreið í umfjöllun iðnaðarnefndar. Jafnvel þótt menn væru að reyna að prjóna einhverja treyju með breytingartillögu til að laga verstu ágallana og reyna að fá svo Samkeppnisstofnun og aðra til að skrifa upp á það, þá var nú kjarkurinn ekki meiri en sá að nú hefur verið flutt breytingartillaga um að fella þennan þátt úr frumvarpinu, sem er vel. (Gripið fram í.) Þetta verður aldrei gert, hv. þm. Hjálmar Árnason. Þetta er svo vitlaust.

Það breytir ekki hinu að langréttast væri að geyma þennan pakka í heild sinni því þetta er einn pakki. Auðvitað voru kaupin á hlut borgarinnar og Akureyrar liður í því að geta sameinað Rarik og Orkubúið og farið í gegnum allt þetta möndl, sem aftur er svo undirbúningur að fyrirhugaðri einkavæðingu. Það er alveg ljóst hvert hugur manna stefnir í þessum efnum, hvar hjartað slær.

Vinnubrögðin hafa hins vegar verið svoleiðis að þetta er allt meira og minna í vandræðum hjá ríkisstjórninni. Fyrir það fyrsta var nú þannig að því staðið af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í borgarstjórn Reykjavíkur að troða sölunni þar í gegn. Búið er að kæra það mál. Það er til kærumeðferðar hjá félagsmálaráðuneytinu vegna ágalla í málsmeðferð hjá borginni.

Sameining sölueininga Rariks og Orkubús Vestfjarða og þátttaka Landsvirkjunar í því, stofnun Orkusölunnar ehf. er sömuleiðis til kærumeðferðar en hjá Samkeppnisstofnun. Við þær aðstæður á auðvitað ekki að hreyfa þessum málum. Verður það ekki snautlegt fyrir ríkisstjórnina ef félagsmálaráðherra neyðist nú til þess að úrskurða málsmeðferðina í borgarstjórn Reykjavíkur ólögmæta, gerninginn ógildan? Væri þá ekki betra að hafa látið málið bíða og fá niðurstöður í það og þessi kærumál í báðar áttir? Jú, ég held það nú. Enda er þetta svo glórulaus gerningur að taka þennan markaðsráðandi risa sem Landsvirkjun er á sviði framleiðslu, á sviði heildsölu og fyrir flutninga í gegnum Landsnet og sameina hann við stóra aðila á sviði smásölu og dreifingar og búa þar með til, styrkja markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar sem fyrir er og búa til nýjan einokunar- eða fákeppnisrisa á smásölustiginu einnig.

Þetta er beinlínis stórfurðulegt í ljósi þess að sama ríkisstjórn hefur á undanförnum árum verið að troða hér í gegn ákvæðum sem tengjast fullgildingu raforkutilskipunar Evrópusambandsins sem hefur það að meginmarkmiði að búa til virkan samkeppnismarkað á sviði raforku, á sviði allra þeirra þátta raforkumála sem ekki eru einkaleyfabundnir.

Menn eru því að fara þarna algerlega í gagnstæðar áttir. Taka hér hinn og innleiða þessa orkutilskipun sem ríkisstjórnin gerði án þess að hafa neina sýnilega tilburði til þess hugsanlega að semja um undanþágu frá eða fá að framkvæma þetta með einhverjum þeim hætti sem hentaði aðstæðum á Íslandi. Það er eins vitlaust og nokkuð getur verið að þvinga íslenskan raforkumarkað inn í regluverk sem er sniðið að þörfum sameiginlegs raforkumarkaðar á öllu meginlandi Evrópu og er aðallega til þess að fella niður hindranir í viðskiptum með raforku yfir landamæri. Hvaða erindi á það upp á Ísland? (Gripið fram í: Þetta voru mistök.) Þetta voru náttúrlega mistök, kannski tæknileg mistök, eins og mjög er í tísku að segja núna. En það voru þó ekki meiri mistök en það að menn reyndu hér á þingi að benda stjórnvöldum á hvað þau væru að gera. (Gripið fram í: Þau hlustuðu ekki.) Þingmenn Vinstri grænna voru eini þingflokkurinn sem var með meðvitund í þessu máli og strax þegar tilskipunin kom vöruðum við við þessu og lögðumst gegn henni. (Gripið fram í: Og nokkrir líka frá Samfylkingunni.) Ekki var það nú fyrr en síðar, hv. þingmaður. Fyrst þegar orkutilskipunin kom vorum við alein með það. (Gripið fram í.) En síðan hafa fleiri bæst í hópinn og það er meira að segja svo komið að þingmenn Sjálfstæðisflokksins, t.d. Einar Oddur Kristjánsson og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, sem þá voru í minni hluta, hneyksluðust á þessu, hvaða vitleysa og steypa þetta væri, enda eru þetta tóm vandræði.

Hér eru engar forsendur fyrir þeim sýndarmennskusamkeppnismarkaði sem að nafninu til er verið að búa til. Það hlálegasta af öllu er að þetta eru örfá fyrirtæki öll í eigu (Gripið fram í.) opinberra aðila. Þetta er því allt saman eins og hvert annað grín, frú forseti.

Ég verð líka að segja að ég er nokkuð undrandi á þeirri hagsmunagæslu sem þeir aðilar sem bera ábyrgð á sölu eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun ástunda fyrir hönd sveitarfélaga sinna. Nú er það auðvitað ekki mitt að fara að segja þeim fyrir verkum á sjálfstæðu stjórnsýslustigi sem sveitarstjórnirnar eru. En ég leyfi mér að hafa skoðun á því. Vegna þess að þetta er hluti af stærra máli, þetta er hluti af stöðu raforkumálanna í heild sinni.

Sérstaklega efast ég um og undrast þessa hagsmunagæslu vegna þess að með eignarhlutnum í Landsvirkjun fer sambærilegur eignarhlutur í Landsneti, sem er flutningskerfi raforkunnar í landinu. Er það ekki dálítið undarlegt fyrir hönd Reykvíkinga og Akureyringa að afsala þeim trompum af hendi sem fólgið er í þeirri stöðu sem eignarhluturinn gaf að þessu leyti. Af hverju fóru menn t.d. ekki fram á að leysa út eignarhlutinn í formi útreiknaðra verðmæta og halda honum eftir sem eign þessara stóru sveitarfélaga í Landsneti þannig að fleiri aðilar kæmu líka þar að?

Þetta gerir Landsvirkjun nánast algjörlega einráða í Landsneti. Það er væntanlega eitthvað sem Samkeppnisstofnun þarf að kíkja á, að risinn sem er algerlega ráðandi á framleiðslustiginu og á heildsölumarkaðnum, er eini aðilinn sem er að selja öðrum orku til dreifingar svo einhverju nemur, verður í gegnum þessar breytingar líka algerlega ráðandi í flutningsfyrirtækinu, Landsneti.

Ég held að þetta sé ekki góð þróun. Ég held að þetta sé ekki gott fyrir neinn og ekki Landsvirkjun heldur að vera í þeirri stöðu. Því það er ómögulegt að svo eigi að heita að þetta sé eitthvert samkeppnisumhverfi. Sér er nú hver samkeppnin. Svo maður tali nú ekki um ósköpin ef Landsvirkjun nær til sín ítökum á smásölustiginu líka, fyrirtækið er þá algerlega einrátt sem framleiðandi og heildsöluseljandi á raforku og getur í gegnum tengsl sín við smásöluaðilana að sjálfsögðu rústað aðra sem vildu reyna að taka einhvern þátt í samkeppni og selja raforku, eins og lögin gera ráð fyrir að hægt sé.

Hitaveita Suðurnesja hefur t.d. haft svolitla lausa orku vegna þess að þar hafa minnkað orkukaup á svæðinu við brottför hersins og hefur aðeins verið að reyna að keppa og ná sér í nýja kúnna. En hvaða möguleika á slíkur aðili ef sú samsteypa myndast sem ríkisstjórnin hefur haft í huga að gera með stofnun Orkusölunnar ehf., sem ekki er víst að verði vegna þess að samkeppnisyfirvöld gætu úrskurðað það ólöglegt. Svo ég tali nú ekki um með hinni fyrirhuguðu sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og Orkusölunnar í gegnum frumvarpið með breytingum á ýmsum lögum á orkusviði. Það eru því hlutir í þessu máli, frú forseti, sem vekja manni mikla undrun, satt best að segja þegar það er skoðað.

Landsvirkjun þarf svo líka að fara að átta sig á því að þeir tímar eru liðnir, eða gætu að minnsta kosti senn verið liðnir, að hún geti bara litið á sig eins og ríki í ríkinu og gert eiginlega hvað sem er. Þessi keyrsla áfram gengur ekki upp, að menn hlaði þetta fyrirtæki endalaust skuldum með nýjum stórframkvæmdum í þágu erlendrar stóriðju, erlendra álvera, sem kaupa rafmagnið á spottprís, á útsöluverði. Það er alveg viðurkennt. Auðvitað er alveg ljóst að raforkuverð einhvers staðar í kringum eða neðan við 20 mills á kílóvattstund er út úr korti eins og þau mál hafa þróast í dag. Að verið sé að selja raforkuna á 1 og í mesta lagi upp í 2 kr. kílóvattstundina á sama tíma og aðrir landsmenn borga 6, 8, 10, 12 kr., er algerlega hneykslanlegt. Og margt fleira í þessu er orðið mikið áhyggjuefni, satt best að segja.

Vita menn að skuldir Landsvirkjunar einar og sér eru 12% af vergri landsframleiðslu? Það er nú orðið þó nokkuð. Vissulega er hún áskrifandi að heilmiklum tekjum og þegar loksins menn afskrifa t.d. vatnsaflsvirkjanir sem eru varanlegar og vel byggðar þá breytast þær í miklar gullkvarnir. En þar rofar seint til ef menn hlaða fyrirtækið alltaf nýjum og nýjum skuldum og aldrei sér til lands.

Nokkur ár eru síðan því var lofað að raforkuverð í landinu yrði lækkað með markvissum skrefum, ég held um ein 2% á ári eða eitthvað svoleiðis. Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvar er sú raunlækkun? Muna menn ekki eftir henni? Áætlunina um raunlækkun raforku í landinu? (Gripið fram í.) Eða voru það 3% á ári? Ég er ekki viss um að landsmenn hafi orðið mikið varir við þetta.

Hæstv. ríkisstjórn hefur tekist að koma þeim málum þannig að menn eru syngjandi vitlausir á landsbyggðinni yfir því hvernig raforkuverðið hefur hækkað, sérstaklega á gjaldskrársvæðum í strjálbýli, eins og orkufyrirtækjunum er nú samkvæmt nýju lögunum uppálagt að gera, að hafa sérstakar gjaldskrár, annars vegar fyrir þéttbýli og hins vegar strjálbýli. Við vitum hvar raforkuverðið hefur hækkað mest og tilfinnanlegast. Það er þar sem síst skyldi. Það er í dreifbýlinu á köldum svæðum, raforka til húshitunar o.s.frv. Það er alveg stórfurðulegt hvernig ríkisstjórninni hefur tekist að klúðra þessum málum.

Og aumingja, vesalings Framsóknarflokkurinn ætlar nú með þetta veganesti í alþingiskosningar. Ja, sá verður hýddur. Ekki trúi ég öðru, og taka þeir þó ekki gagnrýni mjög vel, það er nú svo merkilegt með það, þeir framsóknarmenn.

Ekki var því vel tekið af þingmönnum Norðausturkjördæmis þegar við vorum að funda í ónefndu sjávarplássi í fyrrahaust og sveitarstjórnarmenn þar og gestir okkar leyfðu sér að stynja því upp að það væri nú tilfinnanlegt hvernig rafmagnið hefði hækkað. Fyrsti þingmaður kjördæmisins, þáverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, tók því satt best að segja ekki mjög vel og urðu frekar snubbóttar kveðjur með henni og fundarmönnum. En aumingja fólkið leyfði sér að vekja á þessu athygli að það væri tilfinnanlegt að á einu kaldasta svæði landsins þar sem hús eru hituð með rafmagni (Gripið fram í: … blanda sérstökum þingmönnum inn í …) hefði raforkuverðið hækkað svo. Það er ekki við mig að sakast þó hæstv. núverandi utanríkisráðherra og hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra sé ekki hér. Hún á seturétt á Alþingi þannig að það er ekki venjan að kveinka sér undan því þó að stjórnmálamenn sem geta svarað fyrir sig, þó síðar verði, séu nefndir á nafn. Eða er þetta orðið svo kvikusárt fyrir hv. þm. Hjálmar Árnason að ekki má nefna Valgerði Sverrisdóttur á nafn? Þá kippist formaður iðnaðarnefndar til. Ljótt er það, frú forseti.

Ég ætla tímans vegna og aðstæðna hér ekki að hafa um þetta miklu fleiri orð. Vandinn er sá í þessum málum að Íslendingar hafa gert mikil mistök í raforkumálum. Athyglisvert var að lesa á sinni tíð, fyrir allmörgum árum síðan, ævisögu Sigurðar heitins Thoroddsens verkfræðings. Þess manns sem hvað mest kom að hönnun og framkvæmdum í raforkumálum á Íslandi um áratuga skeið og var m.a. einn aðalhönnuður og verkfræðilegur ráðgjafi og stofa hans í framkvæmd margra stórra virkjana.

Hvert var mat þess aldna höfðingja þegar hann skyggndist um öxl og velti fyrir sér þróun og uppbyggingu á raforkumálum á Íslandi? Nú endursegi ég þetta að vísu eftir minni, en hann komst að þeirri niðurstöðu að sennilega hefðu það verið mikil mistök af Íslendingum að ráðast ekki í miklu ríkari mæli í smærri virkjanir. Smærri og meðalstórar virkjanir. Það hefði sennilega skilað miklu betri árangri fyrir hinn almenna markað.

Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að afdrifaríkustu mistökin hafi þó verið að blanda nokkurn tímann saman í sama fyrirtæki framleiðslu fyrir almennan innlendan markað og framleiðslu til stóriðju. Það átti aldrei að vera inni í sama fyrirtækinu. Það átti að stofna um það algerlega sjálfstæðar einingar sem yrðu algerlega aðskildar og sæju þá algerlega um sig sjálfar og auðvitað án ríkisábyrgðar eða meðgjafar af því tagi til að virkja þá og framleiða fyrir stóriðjuna.

Þá hefði verið von til þess að Íslendingar, almennir orkunotendur og kaupendur í landinu, hefðu notið þess, sem auðvitað ætti að vera ein af allra mestu hlunnindum þess að búa á Íslandi, hræbillegrar orku. Það er ævintýralegt að okkur skuli hafa tekist að klúðra málum þannig að raforkuverð á Íslandi sé svipað og jafnvel hærra en í löndum sem verða að fara út í miklu dýrari lausnir til að fullnægja orkuþörfum sínum. En þannig hefur það verið. Raforkuverð hefur að vísu hækkað talsvert á markaði í Vestur-Evrópu vegna þess að orkuskortur hefur verið. Norðmenn njóta nú mjög góðs af. Það er t.d. þannig að ódýrara er orðið fyrir iðnfyrirtæki í Noregi, sem eiga bæði orkuver og verksmiðjur, að loka þeim, flytja starfsemina til Íslands þar sem er hægt að komast í billega orku og selja rafmagnið í staðinn inn á evrópska notendamarkaðinn.

En ef við hefðum haldið almenna markaðnum og notendamarkaðnum sér og látið hann t.d. njóta góðs af því að vatnsaflsvirkjanir, eins og Sogsvirkjanir, Laxárvirkjun og aðrar slíkar eru nú afskrifaðar, þá er auðvitað enginn vandi að hafa raforkuverðið hér með því allra hagstæðasta sem hægt er að hugsa sér. Þannig ætti það auðvitað að vera orðið vegna þess að þörfin fyrir nýfjárfestingar á ári hverju vegna almenns markaðar er svo lítil í rauninni. Menn ættu að geta rekið þær einingar skuldlausar og haft raforkuverðið mjög hagstætt. Hverju mundi það þá hafa skilað okkur í þróun almenns iðnaðar o.s.frv.? Hver veit? En eitt er víst að þessu höfum við klúðrað.

Það má kannski segja að það hafi verið hlálegt eða grátlegt í þessu sambandi þegar hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, setti starfshóp í það að skoða starfskjör garðyrkjunnar á Íslandi fyrir nokkrum árum. Út úr því starfi komu tillögur um aðgerðir til að bæta starfsskilyrði garðyrkjunnar, gróðurhúsarekstur. Hver var einn liður tillagnanna? Muna menn það? Það var að reyna að lækka raforkuverð til garðyrkju á Íslandi þannig að það yrði sambærilegt og í samkeppnislöndunum, niður í það sem það væri í Hollandi. Er það ekki glæsilegur árangur hjá Íslendingum að okkur skuli hafa tekist að klúðra þessum málum svo heiftarlega, með þær einstöku aðstæður til að byggja hér upp sjálfbæran orkubúskap fyrir okkur sjálf, að svona sé málum háttað? Það er auðvitað stóriðjudraugurinn, trúarbrögðin og kreddan sem þar hefur riðið húsum og er aðalsökudólgurinn.

Þó að þessi mistök hafi verið gerð gegnum tíðina hefðu menn auðvitað getað séð að sér og strax hefði verið önnur staða uppi t.d. í fjárhag Landsvirkjunar ef risaverkefnið Kárahnjúkavirkjun hefði aldrei verið sett þar inn fyrir dyr. Þannig stóð nú reyndar upphaflega til að gera það. Rætt var um að það yrði bara stofnuð ný eining. En menn gáfust snarlega upp á því. Af hverju? Af því að Kárahnjúkavirkjun hefði aldrei orðið að veruleika nema með því að á bak við hana stæði ríkisábyrgðin og allar aðrar eignir og allir aðrir tekjumöguleikar Landsvirkjunar til frambúðar. Svo lélegur er samningurinn. Svo litlir bisnessmenn eru menn þegar til kastanna kemur. Nú þykjast þetta vera menn sem eru góðir í rekstri og trúa á frjálsan markað og guð má vita hvað sem hafa staðið svona að málum. Það eru meiri ósköpin.

Þetta er auðvitað þyngra en tárum taki, frú forseti. Það er alveg ljóst að orkumálin eru eitt það málasvið sem hvað mest ríður á að frelsa undan stjórnarflokkunum. Þau eru auðvitað mörg málefnin í samfélaginu sem er orðið brýnt að frelsa undan stjórnarflokkunum. Eftir langar setur t.d. sjálfstæðismanna í ónefndum ráðuneytum, er orðið geysilega brýnt að frelsa þá málaflokka undan því. Ég nefni menntamálin og Ríkisútvarpið. Ég nefni dómsmálin og ég nefni samgöngumálin. En það á líka við um iðnaðarmálin og Framsóknarflokkinn. Það er orðið geysilega brýnt að frelsa þann málaflokk undan Framsóknarflokknum. Hann er að klúðra þar öllu sem hægt er að klúðra með hroðalegum afleiðingum fyrir þjóðina, eins og þessi málatilbúnaður og þetta sullumbull allt á sviði orkumálanna er gott dæmi um, og verður meira að segja að játa sig sigraðan og éta ofan í sig sumar vitleysurnar, eins og hér er verið að gera með breytingartillögunum á frumvarpinu um að sameina Rarik, Orkubúið og Landsvirkjun.

Frú forseti. Niðurstaða mín er sú sem ég hef rökstutt að frumvarp þetta ætti að liggja. Það á ekki að hrófla við þessu og lágmarkið er að bíða þess að niðurstöður fáist í þeim kærumálum sem í gangi eru vegna þessa málatilbúnaðar, bæði varðandi þetta frumvarp og svo aftur hitt málið. Ef mönnum sýndist svo að út úr þeim kæmu niðurstöður, sem ég á nú síður von á, sem gerði mönnum kleift að halda áfram, þá það. Menn gætu þá reynt að þrjóskast við á vorþinginu. En það er að minnsta kosti algerlega út í loftið að vera með þennan málatilbúnað uppi núna.