Landsvirkjun

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 17:38:50 (2872)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason gerir mér upp skoðanir þegar hann segir að ég hafi haldið því fram að orkumálin sem slík væru í rúst og ég hafi verið að gagnrýna t.d. afhendingaröryggi eða uppbygginguna að því leyti í kerfinu. Ég var að gagnrýna verðið. Og ég var að fara yfir það að sorgarsagan væri sú að við sem ættum að geta verið hér með langódýrasta rafmagn eiginlega á byggðu bóli — það væri þá kannski helst að Nýsjálendingar gætu nálgast okkur í því af því að þeir búa líka yfir miklum möguleikum til hagkvæmrar beislunar endurnýjanlegrar orku, vatnsafls og jafnvel jarðvarma — þá hefur okkur tekist þetta svo snilldarlega til að fyrir örfáum árum þurfti að gera ráðstafanir til þess að ná verði til garðyrkjunnar á Íslandi niður í það sem það var í samkeppnislöndunum. Þetta er staðreynd, hv. þm. Hjálmar Árnason.

Ég hafði að vísu þann fyrirvara á og ég vænti þess að hv. þingmaður hafi hlustað, að raforkuverð hefur verið hækkandi á meginlandi Evrópu þannig að þessi samanburður hefur nokkuð breyst. Þetta er samt allt of, allt of hátt verð sem almennir notendur eru að borga. Að veitingahús skuli skipta úr rafmagni yfir í gas, að það skuli ekki nokkrum einasta manni detta í hug að setja upp rafskautaketil heldur framleiða þeir gufu í almennum iðnaði með olíu. Auðvitað er þetta alveg absúrd að við skulum ekki ná því að nýta okkar innlendu orku í svona hluti. Það segir auðvitað sína sögu að hver einasti bóndi í landinu sem hefur á því einhverja möguleika er að ráðast í að virkja af því að raforkureikningurinn sem hann borgar er allt of hár.

Varðandi frumkvæði R-listans að þessu var það búið að vera þannig í langan tíma að það var bara viðvarandi stefna sveitarstjórna í Reykjavík og á Akureyri að reyna að losna við sinn hlut. Menn töluðu um þetta bundna fé sem þeir ættu í Landsvirkjun. Þessi mál eru í allt öðru samhengi nú og sérstaklega eftir yfirlýsingar Valgerðar Sverrisdóttur fyrrverandi iðnaðarráðherra um fyrirhugaða einkavæðingu Landsvirkjunar. Frá þeim degi var Vinstri hreyfingin – grænt framboð andvíg því að selja eignarhluti.