Landsvirkjun

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 17:43:05 (2874)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var síður en svo að ég væri að tala gegn því að bændur reistu smávirkjanir, ég hef lengi verið mikill áhugamaður um það mál og það er gott að það er að gerast. Engu að síður segir það sína sögu að menn geta ráðist í 20, 30, 40 millj. kr. fjárfestingu bara til að framleiða rafmagn fyrir eitt bú, (Gripið fram í.) eitt heimili, ja, ég er að tala um kannski litla virkjun sem eingöngu er hugsuð til heimilisnota, segjum 35, 50, 70 kílóvattastöð. Menn geta ráðist í slíka fjárfestingu og ég hef séð dæmi þess að þetta borgar sig upp á innan við tíu árum. Af hverju? Af því að raforkureikningurinn sem þeir greiða ef þeir kaupa rafmagnið af Rarik er svo hár. Það eru engir smáreikningar t.d. sem stórt bú borgar ef húsið er kynt með rafmagni, menn eru með einn súgþurrkunarmótor, ætla að hafa afl til að geta rafsoðið og annað í þeim dúr. Þetta ættu menn nú að vita. Ég tala nú ekki um og ekki batnar ástandið ef þeir hafa ekki einu sinni þriggja fasa rafmagn.

Varðandi Landsvirkjun og gróðagullkvörnina miklu þá hefur nú orðið bið á því að landsmenn sjálfir færu að fá einhvern arð og njóta einhvers góðs af. Fram að þessu hefur það verið þannig, eða var á sinni tíð, að það þurfti að hækka sérstaklega raforkuverð á landsmönnum til þess að bjarga Landsvirkjun. Það þurfti ítrekað á áttunda áratugnum vegna þess að menn sömdu um svo lágt verð til Straumsvíkur.

Landsvirkjun stendur fyrir um 12% af vergri landsframleiðslu í skuldum. Landsvirkjun er gríðarlega viðkvæm fyrir breytingum á alþjóðlegum vöxtum og vaxtamarkaði eins og aðrir sem skulda mikið erlendis. Við skulum þess vegna ganga hægt um þær gleðinnar dyr, hv. þm. Hjálmar Árnason, að það sé nú í hendi sá mikli gróði sem (Forseti hringir.) þingmaðurinn var að tala um.