Landsvirkjun

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 18:37:34 (2884)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:37]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um kaup ríkissjóðs á helmingshlut í Landsvirkjun af Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ. Frumvarpið er að okkar mati eðlileg tillaga um hvernig fara beri með mál gagnvart Landsvirkjun í framhaldinu af því.

Við samfylkingarmenn teljum að þessi kaup séu eðlileg. Það hafi þurft að leysa úr þeim eignarhaldsvanda sem uppi var með eignarhaldi Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar á þessum eignarhlutum og það auðveldi þá óhjákvæmilegu aðgerð sem þarf að fara í, þ.e. að fara yfir eignarhald á auðlindum sem Landsvirkjun hefur og sjá til þess að þær auðlindir verði í eigu landsmanna til framtíðar og best er að gera það með þeim hætti að þetta sé þá allt saman á hendi ríkisins þegar menn fara í þá göngu.

Ég tel að það sé ágætlega að þessu staðið frá hendi ríkisins. Kaupin séu í raun og veru eðlileg, verðið sé gott og við sem fulltrúar landsmanna getum varla slegið hendi á móti samningi eins og þeim sem hér er á ferðinni.

Við samfylkingarmenn munum því styðja þetta frumvarp en í því er ekki fólginn neinn stuðningur við einhvers konar einkavæðingu fyrirtækisins. Ég endurtek það. Framhaldið hlýtur síðan að vera að koma þeim auðlindum sem Landsvirkjun hefur í framtíðarfyrirkomulag sem sér þá til þess að arðurinn af þeim renni til fólksins sem á þær.