Landsvirkjun

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 18:41:30 (2886)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir lýsti því yfir fyrir um einu til einu og hálfu ári að stefna ríkisstjórnarinnar væri að einkavæða Landsvirkjun. Að hefja einkavæðingu Landsvirkjunar á árinu 2008. (Gripið fram í.)

Þetta liggur fyrir á prenti, hæstv. landbúnaðarráðherra og það er til skammar fyrir landbúnaðarráðherra að vita ekki hvað flokkssystir hans, ráðherrann hefur sagt í þessum efnum.

Það var beinlínis sagt að það væri ekki stefna ríkisstjórnarinnar að ríkið ætti þetta fyrirtæki eitt áfram heldur væri stefnt að því að hefja einkavæðingu þess og nefndir til sögunnar mögulegir eignaraðilar eins og lífeyrissjóðir.

Þar fyrir utan hefur ríkisstjórnin staðið illa að þessu máli sem og meiri hluti ríkisstjórnarinnar hér í Reykjavík sem tók ákvörðun um að selja hlutinn en sú málsmeðferð hefur nú verið kærð til félagsmálaráðuneytisins með stjórnsýsluúrskurði.

Þannig að auðvitað á að láta þetta frumvarp liggja. Það hefði náttúrlega aldrei átt að koma hingað en í öllu falli er óhæfa að (Forseti hringir.) afgreiða það við þessar aðstæður.