Almannatryggingar og málefni aldraðra

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 21:44:57 (2925)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[21:44]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja framsögumann meiri hlutans einnar eða tveggja spurninga. Hann talar um yfirboð og upphlaup. Það gerðist í fyrradag, eftir að fjárlög höfðu verið afgreidd, að fram komu á blaðamannafundi hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra yfirboð og upphlaup, ef hann kallar það það ef aðeins er gefið í — sem ég vissulega fagna að gefið var smávegis í á þeim blaðamannafundi, smáyfirboð miðað við það frumvarp sem hér liggur fyrir — þá langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hvar koma fjárveitingar til þeirra breytinga sem kynntar voru á blaðamannafundinum 6. desember? Hvar koma þær fram, úr hvaða liðum á fjárlögunum eru þær greiðslur eða þeir fjármunir? Vegna þess að um morguninn voru afgreidd fjárlög og þar voru þessir peningar ekki sérstaklega tilgreindir. Þeir komu þarna til viðbótar eftir hádegið.

Ég óskaði eftir því á fundi heilbrigðis- og trygginganefndar að þær upplýsingar lægju fyrir áður en við færum að ræða þetta mál. (Gripið fram í: … hvenær dagsins …) Búið var að afgreiða fjárlög og þetta var ekki á þeim fjárlögum sem við afgreiddum um morguninn enda allar tillögur okkar til bættra kjara lífeyrisþega felldar.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sem ég fékk þegar ég hringdi þangað kostar þetta um hálfan milljarð. Ég vildi gjarnan fá að vita hvar þeir peningar eru á fjárlögum og um leið fagna ég vissulega því litla yfirboði sem kom þarna frá þessum tveimur ráðherrum fyrir tveim dögum.