Almannatryggingar og málefni aldraðra

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 21:48:54 (2927)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[21:48]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar breytingar voru ekki ræddar í heilbrigðis- og trygginganefnd heldur voru ræddar tillögur sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafði boðað um að séreignarlífeyrissparnaður skerti ekki almannatryggingabætur. Hv. þingmaður hafði boðað þær breytingar í sjónvarpsþætti í Kastljósi fyrir nokkrum vikum, en þær hafa ekki sýnt sig.

Hér eru aftur á móti tillögur um að elli- og örorkulífeyrisþegar geti dreift skerðingunum og það er ágætt, en það verða samt sem áður skerðingarnar. Það var ekki gert ráð fyrir því í fjárlögunum. Sömuleiðis hvað varðar þær tvær reglur sem er verið að setja um skerðingar á lífeyri þar sem ellilífeyrisþegarnir fá að nýta sér örorkulífeyrisregluna og öfugt, hún var ekki komin fram þegar fjárlögin voru afgreidd, hún kom ekki fram fyrr en eftir hádegið og var ekki rædd í nefndinni og sömuleiðis frítekjumarkið. Þetta er hálfur milljarður og ég hafði samband við Tryggingastofnun ríkisins og þeir könnuðust ekki við að þessir fjármunir væru þar og töldu líklegt að þetta færi á fjáraukalög að ári, a.m.k. stór hluti af þessum útgjöldum.

Ég minni á það að ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi felldi allar tillögur okkar í minni hlutanum sem voru til bóta, kölluðu þær yfirboð og felldu þær. Síðan koma hérna yfirboð og það eru engir peningar til að standa með þeim. Þetta segir náttúrlega alla söguna og ég gagnrýni það. Og að vera að vísa á það Tryggingastofnun sé með þessa peninga í sínum fórum, (Gripið fram í.) alls ekki, ég sagði áðan að ég fagna öllum litlum hænuskrefum. (Forseti hringir.) En mér finnst það ábyrgðarleysi að vísa þessum (Forseti hringir.) breytingum til næstu ríkisstjórnar.