Almannatryggingar og málefni aldraðra

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 22:45:51 (2939)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:45]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að minnast á tvö atriði í andsvari við hv. þingmann. Hækkunin 1. júlí varð ekkert sérstaklega vegna samningaviðræðna við ríkisstjórnina. Það voru hækkanir sem lágu á borðinu vegna kjarahækkana, vegna hækkana á vinnumarkaði sem alltaf hafa skilað sér til lífeyrisþega og þarf engar sérstakar nefndir til þess. Þær hafa yfirleitt gengið beint áfram til lífeyrisþega í kjölfarið á að laun hækka á vinnumarkaði.

Það er ekkert skrýtið þótt hv. þingmaður lýsi því hér yfir að þetta sé mesta hækkun í þó nokkuð mörg ár. Þetta er mesta hækkun í tíð þessarar ríkisstjórnar, en í tíð hennar hafa lífeyrisþegar setið eftir. Það var orðið tímabært að kjör þeirra yrðu bætt.

Það hefur enginn haldið því fram að þetta sé ekki kjarabót. Ég hef ekki haldið því fram að þetta væri ekki kjarabót. Þetta er kjarabót. En við teljum bara ekki nógu langt gengið. Þessi kynslóð á rétt á betri kjörum en verið að bjóða þeim hér þó að þetta sé auðvitað allt til bóta.

Ástæðan fyrir því að ég kalla þetta yfirboð er sú að ég var að nota sömu orð og hv. þingmenn ríkisstjórnarmeirihlutans nota í hvert einasta skipti sem við í minni hlutanum leggjum til einhverjar smákjarabætur fyrir lífeyrisþega.

Ég vil bara nefna það hér að t.d. það að öryrki haldi örorkuuppbótinni eftir að hann er orðinn 67 ára, uppbót sem er sannarlega sýnt fram á að hann þurfi sem öryrki og varla minnkar þörfin þegar hann verður gamall, það kostar mun minna en sá hálfi milljarður sem ég leyfði mér að kalla yfirboð vegna þess að það var búið að afgreiða fjárlög þegar sú tillaga kom hér fram. Hún var yfirboð miðað við frumvarpið. Alveg eins og þið kallið tillögur okkar yfirboð (Forseti hringir.) við þessar umræður.