Almannatryggingar og málefni aldraðra

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 22:52:47 (2943)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:52]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er langt liðið fram á kvöld. En ég ætla að fara nokkrum orðum um það mál sem hér er til umræðu, breytingar á almannatryggingalögum og málefnum aldraðra. Þetta er stórt mál og mikið réttlætismál.

Ég ætla ekkert að draga úr því sem ég sagði við 1. umr. málsins að þetta eru vissulega kjarabætur. Það eru mörg atriði sem eru í réttlætisátt og samkvæmt þeim kröfum sem bæði aldraðir og öryrkjar hafa lagt fram og samkvæmt þeirri hugsun sem núna ríkir í þjóðfélaginu, þ.e. að hætta að líta á öryrkja og aldraða sem bótaþega en hugsa fremur til þeirra og hafa löggjöfina þannig að aldraðir og öryrkjar geti notið sín í samfélaginu og að við hin fáum notið þeirra krafta sem þeir hafa möguleika á að leggja fram til samfélagsins.

Því miður hefur ástandið verið þannig í kjörum og aðbúnaði þessa fólks að einn þriðji aldraðra, um 30%, hefur búið við það knöpp kjör að þeir hafa verið hnepptir í fátæktargildru. Það er staðreynd. Kerfið hefur því miður stuðlað að því, bæði með lágum bótum og ekki síður með því innbyggða kerfi sem eru tekjutryggingar við hinar lágu bætur, þannig að það er næstum því komin króna á móti krónu. Ef aldraður eða öryrki hefur unnið sér inn einhverjar tekjur til að reyna að bæta hag sinn þá hafa skerðingarnar verið það miklar að það hefur ekki borgað sig fyrir viðkomandi að fara út á vinnumarkaðinn eða að vinna heima og reyna að fá einhverjar tekjur.

Þetta sýndi sig mjög vel þegar stórfyrirtæki hér í bæ, mig minnir að það hafi verið Húsasmiðjan, ætlaði að nýta sér krafta þeirra sem voru í eldri kantinum og fékk hóp eldri starfsmanna til að koma og vinna í versluninni. Þetta var þeim sem komu í verslunina til mikillar ánægju og bættrar þjónustu því þetta var fólk sem hafði þekkingu og kunnáttu á því sem verslunin hafði fram að bjóða. En því miður entust þessir einstaklingar ekki lengi vegna þess að það lá við að þeir borguðu með sér. Launin voru svo lág að þetta var sjálfboðavinna og þetta þekkjum við. Þannig er nú staðan.

En það er ekki að ástæðulausu sem þeim kjarabótum sem nú liggja fyrir hefur verið náð. Af því hér var vísað til þess samkomulags sem fulltrúar Félags eldri borgara og fulltrúar ríkisvaldsins gerðu síðastliðið sumar, þá var það með þá samninga eins og aðra samninga, að á einhverjum tímapunkti komast aðilar ekki lengra í samningagerðinni. Úrslitastundin rennur upp.

Það er alveg ljóst að þeir einstaklingar sem voru í samninganefndinni fyrir hönd Landssambands eldri borgara voru mjög ósáttir við að ná ekki lengra í kjarabótum en kom fram í samkomulaginu. En aftur á móti hafði náðst nokkuð góður vilji og yfirlýsingar um frekari uppbyggingu í hjúkrunar- og þjónustuþáttum fyrir aldraða og öryrkja. Þannig að svona enduðu þessir samningar. Aldraðir gátu ekki farið lengra með niðurstöður samkomulagsins. En það gat ríkisstjórnin. Og það gerði hún í tvígang eftir að frumvarpið var lagt fram.

Þremur dögum eftir að mælt var fyrir frumvarpinu gerðu hæstv. heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra með sér samkomulag og sáu sig um hönd og voru ekki að vísa tekjuskerðingunni nokkur ár fram í tímann, þrjú ár fram í tímann, heldur áttuðu sig á því að frítekjumarkið varð að koma nú þegar um næstu áramót ef þessir flokkar ætluðu að fara inn í næstu kosningar og telja sig hafa möguleika á að fá atkvæði þess fjölda aldraðra og öryrkja sem vissulega fylgdust með hvernig ríkisstjórnarflokkarnir unnu úr þessu máli.

Sem betur fer hefur líka komið fram viðurkenning á því að samkomulagið gekk ekki nógu langt til þess að ná fram réttmætum bótum og eðlilegum bótum, rétt eins og aldraðir höfðu bent á.

Ég vil því bara vísa til nefndarálits minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar og þeirra breytingartillagna sem minni hlutinn gerir. Þar byggjum við á tillögu, velferðartillögu, sem var lögð fram í upphafi þings um nýja hugsun, nýjan grunn í lífeyrissjóðsmálum. Á því viljum við byggja. Á því byggja breytingartillögurnar. Við munum að sjálfsögðu taka undir þær tillögur sem hafa komið fram hjá meiri hlutanum sem eru til enn frekari bóta. Auðvitað styðjum við allt sem er í réttlætisátt.

En rétt eins og aldraðir sögðu, það var ekki gengið nógu langt. Ríkisstjórnin hefur viðurkennt það og komið hálfa leið. Við viljum ganga það skref lengra. Þó að vísað sé til að 29 milljarðar eigi að fara í þennan málaflokk á næstu fjórum árum þá segir það okkur eingöngu hversu aldraðir og öryrkjar hafa dregist mikið aftur úr í launum og kjörum af hendi ríkisstjórnarinnar, með bótum frá Tryggingastofnun.

Þetta segir okkur eingöngu hversu aftarlega þessir einstaklingar eru orðnir hvað varðar laun og kjör. Það er hægt að veifa hérna háum prósentum, miklum hækkunum í prósentum þegar að grunnurinn er eins lágur eins og hann var.