Almannatryggingar og málefni aldraðra

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 23:08:00 (2948)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[23:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, enda er búið að fara ágætlega yfir málið. Ég ætla rétt að draga fram í lokin í meginatriðum um hvað þessi mál snúast, annars vegar að því er snýr að okkur í stjórnarandstöðunni, hvað við höfum sett fram og hvað við höfum viljað gera, og hins vegar hvað ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera í meginatriðum.

Í fyrsta lagi höfum við lagt það til í stjórnarandstöðunni að hækka tekjutryggingar aldraðra um 6 þús. kr. og hið sama fyrir öryrkja umfram það sem ríkisstjórnin hefur lagt til, þ.e. fara með þessar bætur upp í 85 þús. kr. fyrir aldraða og 86 þús. fyrir öryrkja í stað 78.500 fyrir aldraða og 79.600 þús. fyrir öryrkja eins og er í tillögu ríkisstjórnarinnar.

Við höfum lagt til að farið yrði með skerðingarregluna strax niður í 35% úr 45%, en ríkisstjórnin ætlar sér að fara með hana niður í 38,35% ef ég er með þá tölu rétta í kollinum sem ég held að sé. Við höfum lagt til — og þar greinir okkur náttúrlega á — að frítekjumark vegna atvinnutekna verði 75 þús. kr. á mánuði, þ.e. að fólk geti verið í hálfu starfi úti í þjóðfélaginu svona um það bil án þess að fá skerðingar hjá Tryggingastofnun en eftir sem áður greiða eldri borgarar tekjuskatta eins og við öll. Ríkisstjórnin leggur til 25 þús. kr. frítekjumark á mánuði. Þarna munar á 300 þús. kr. sem ríkisstjórnin leggur til og 900 þús. kr. sem stjórnarandstaðan leggur til.

Við höfum einnig lagt til að vasapeningar hækki um 50%, þ.e. ráðstöfunarfé þegar dvalið er á stofnunum, og við höfum lagt til að gagnvart þeim sem eru á stofnunum verði frítekjumark hækkað úr 50 þús. kr. í 75 þús. kr. á mánuði.

Síðan höfum við lagt til að tekjutengingar milli maka og sambúðarfólks falli algerlega niður um næstu áramót en ríkisstjórnin hyggst taka þau skref í áföngum á nokkrum árum.

Síðan höfum við lagt til að örorkulífeyrisþegi sem verður eldri borgari haldi örorkubótum sínum, þ.e. sérstakri aldurstengdri örorkuuppbót, þótt hann færist af örorkubótum yfir á ellilífeyrinn.

Þetta er í megindráttum, hæstv. forseti, það sem skilur tillögurnar að. Við höfum svo sem farið mikið í gegnum þetta í fjárlagaumræðunni og ég held að ekki þurfi að bæta miklu við það sem ég hef þegar sagt. Hér er dregin upp meginlínan í því sem ber á milli. Auk þess er auðvitað lagt upp með það í tillögum okkar að gerð verði sérstök könnun á neyslu þessara hópa og að því stefnt í framtíðinni að fólk sem ekki hefur annað sér til framfæris en lágmarkstekjur Tryggingastofnunar komist af í þjóðfélaginu. Við höfum sem sagt svarað því játandi að þannig eigi tryggingakerfið að verða þegar við teljum að það sé orðið viðunandi að lokum að fólk komist ævinlega af á lágmarksbótunum ef það hefur ekki annað sér til framfærslu.

Þarna held ég að skarist meginlínur milli stjórnarandstöðunnar annars vegar og ríkisstjórnarflokkanna hins vegar og þurfum við ekki að hafa mörg orð um það. Ég geri ráð fyrir því að þegar greidd verða atkvæði um þessar tillögur í fyrramálið muni ríkisstjórnarflokkarnir kolfella eins og venjulega allt sem við leggjum til í stjórnarandstöðunni. Það er hefðin sem hefur verið á hv. þingi.

Það verður síðan kjósenda í vor að meta hvort þeir vilja taka stöðu með því sem við höfum lagt til í stjórnarandstöðunni sem stefnumótun og fylkja sér um hana, að eldri borgarar og öryrkjar komist af í þjóðfélagi okkar eða hvort það á áfram að vera þannig að fólk hafi ekki nægjanlegar tekjur sér til framfærslu. Þar inn í spilar líka skattkerfið sem við væntanlega ræðum á morgun undir annarri tillögu, hæstv. forseti.