Lífeyrissjóðir

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 23:31:02 (2953)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

lífeyrissjóðir.

233. mál
[23:31]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þingskjali 491 um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lagaákvæði um lífeyrissjóði, frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins og Friðbert Traustason frá Samtökum íslenskra bankamanna. Auk þess sem hún fékk umsagnir um málið.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar er lagt til að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað úr 10% í 12% af iðgjaldsstofni og gert ráð fyrir því að iðgjald launagreiðanda hækki úr 6% í 8% en iðgjald launþega haldist óbreytt, þ.e. 4%.

Í öðru lagi er lagt til að lífeyrissjóðum sem njóta, eða nutu, bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags eða banka verði gert heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sínum ef meira en 10% munur verður á milli eigna og skuldbindinga. En allt þetta kemur fram í nefndarálitinu. Ég ætla ekki að lesa það allt saman.

Nefndin leggur til, þar sem síðari breytingin reyndist vera of rúm, að þrengja hana með breytingu sem gerð er á sérstöku þingskjali þannig að hún einskorðist við þá sjóði sem ekki njóta lengur bakábyrgðar, t.d. hlutfallsdeild Lífeyrissjóðs bankamanna og Lífeyrissjóðs starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, og að þeim sjóðum sé þá skylt að gera nauðsynlegar breytingar til samræmis við 2. mgr. 39. gr. laganna.

Síðan lagði nefndin til nokkrar breytingar þar sem vantaði inn í lög um Ábyrgðasjóð launa og lög um fæðingar- og foreldraorlof þar sem þurfti að breyta prósentum, þ.e. 10% í 12% í samræmi við breytingar um lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í þingskjali 492.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Dagný Jónsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara, Kolbrún Baldursdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, með fyrirvara, Ásta Möller, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.