Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 23:42:55 (2958)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

266. mál
[23:42]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Það er að finna á þingskjali 522. Nefndarálitið er frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónas Fr. Jónsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneytinu. Nefndinni bárust auk þess umsagnir um frumvarpið.

Ég ætla ekki að lesa nefndarálitið allt, herra forseti. Það er á þingskjali 522. En ég vil geta þess að starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja hefur aukist mikið á undanförnum árum. Á árinu 2005 stækkuðu íslensk fjármálafyrirtæki enn frekar og juku jafnframt hlutdeild starfsemi sinnar erlendis. Nefndin fagnar þessari þróun en telur jafnframt að í viðskiptalífinu verði að vera skýrar reglur svo að þeir sem starfa á því sviði viti hvað er leyfilegt og hvað ekki. Til þess þurfa að vera til staðar öflugar eftirlitsstofnanir, eins og Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið. Úrskurðir þessara stofnana þurfa jafnframt að ganga hratt fyrir sig og vera skýrir. Slíkar stofnanir þurfa að hafa yfir að ráða hæfu starfsfólki og öflugum upplýsingakerfum og verða að geta brugðist hratt við þegar upp koma mikilvæg mál eða breyttar aðstæður. Nefndin telur að til þess að Fjármálaeftirlitið geti staðist þessar kröfur verði það að hafa nægar tekjur. Nefndin bendir auk þess á að tekjur eftirlitsins byggjast á afkomu ársins 2005 en útgjöldin á umfangi ársins 2007. Þegar svo miklar og hraðar breytingar eiga sér stað eins og núna sé hætta á að eftirlitið geti ekki fylgt nýrri þróun sem skyldi. Enn fremur byggist traust fyrirtækjanna innan lands sem erlendis á því eftirliti sem til staðar er. Þess vegna er það hagur fyrirtækja í miklum vexti að eftirlitið sé virkt. Það kann að vera nauðsynlegt að gera breytingar á grunni álagningar til að ná til þeirra sviða sem vaxa hraðast þannig að útrásin sé færð sérstaklega.

Vegna innleiðingar Basel II-reglna var nauðsynlegt að auka tekjur Fjármálaeftirlitsins um tvö stöðugildi og leggur því nefndin til breytingu á prósentum sem getið er um í nefndarálitinu.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Sæunn Stefánsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Birkir J. Jónsson, Lúðvík Bergvinsson, Drífa Hjartardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Kolbrún Baldursdóttir og Ögmundur Jónasson.