133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[00:18]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kem hér til að taka undir nefndarálit minni hluta fjárlaganefndar. Ég verð að segja alveg eins og er að það er undarlegt að vera með þetta frumvarp í höndunum og með því innihaldi sem raun ber vitni í ljósi umræðunnar síðustu daga. Það er stórfurðulegt að menn skuli á aðra hliðina gefa út yfirlýsingar og loforð um að nú eigi að ráðast í gríðarátak og stórar og dýrar framkvæmdir eins og tvöföldun vegarins austur fyrir fjall, Suðurlandsvegar um Hellisheiði, og jafnvel hæstv. samgönguráðherra sjálfur telur raunhæft að ljúka því verki, sem er fleiri milljarða framkvæmd eins og allir vita, á fjórum árum. Þá þarf heldur betur að spýta í lófana. Í fyrsta lagi þarf auðvitað að hanna þá gjörbreyttu útfærslu sem þar væri um að ræða, væntanlega þarf hún að fara í gegnum umhverfismat og síðan þarf að afla, ja, hvort sem við segjum 8, 10 eða 12 milljarða króna. (Gripið fram í.) Nei, ég held að ég hafi ekki heyrt svo háa upphæð en það er alveg ljóst að þetta er líklega um þrisvar sinnum dýrari lausn en sú sem Vegagerðin hefur unnið að (Gripið fram í.) hingað til og krefst auðvitað heilmikils undirbúnings.

Vissulega væri gleðilegt í sjálfu sér ef menn vildu þá gefa stórframkvæmdum í vegamálum stóraukinn forgang og vægi á næstu árum, en hefur þessi ríkisstjórn verið tilbúin til þess? Nei, ríkisstjórnin hefur hælt sér, og hælir sér, mikið af árangri í ríkisfjármálum, hún hafi borgað niður skuldir þannig að ekki er þrengingunum fyrir að fara. En það er akkúrat þessi ríkisstjórn sem hefur aftur og aftur skorið vegaframkvæmdirnar niður og frestað þeim og notað þær sem einhvern fínstilli að eigin sögn á efnahagsástandið í landinu, hagsveifluna, þensluna, sem allir vita auðvitað að er eins og hvert annað grín. Nokkur hundruð milljónir eða þó að það séu milljarðar í almennum vegaframkvæmdum vega ekki neitt á móti stóriðjuframkvæmdum upp á fleiri tugi milljarða á hverju ári og innspýtingu fjár í hagkerfið, t.d. eins og bankarnir hafa gert með gríðarlegum innflutningi erlends lánsfjár inn í landið. Það fær einfaldlega ekki staðist þegar það er betur skoðað, hin efnislegu rök eru ekki til staðar. Þetta hefur verið handhægt og þægilegt að grípa til og þykjast vera að gera eitthvað og fría sig gagnrýni af því að menn séu ábyrgðarlausir og láti vaða á súðum og aðstoði Seðlabankann ekkert við það að reyna að kæla niður hagkerfið.

Það er undarlegt og dapurlegt að vegamálin, þessi eini framkvæmdaflokkur, skuli alltaf verða fyrir barðinu á þessu. Þetta er orðið algert hringl og alger vitleysa. Ég veit ekki hvort nokkur maður hefur lengur almennilega yfirsýn yfir það hvað er búið að auka, ákveða að bæta allt í einu við framkvæmdir og síðan að fresta þeim aftur og seinka og tefja og banna allt í einu útboð í nokkra mánuði og guð má vita hvað. (Gripið fram í: Það er nú rosalegur árangur af því.) Það er gríðarlegur árangur af því, sögðu þeir, það bara alveg sló verðbólguna flata. Hún var slegin köld, það eru nú meiri ósköpin.

Svo er hér frumvarp. Það var ekki svo lítið blásið í lúðrana þegar silfrinu var sáldrað úr Landssímanum og allir keyptir voðalega hamingjusamir með þeim gjörningi. Menn gefa sér yfirleitt að þjóðin sé svo grunnhyggin að hún kaupi svona rugl, eins og að það sé einhver ægilegur góðviljagjörningur að selja undan henni eigurnar og nota svo peningana. Halda menn að menn séu fífl? Halda menn að menn átti sig ekki á því að verðmætar eignir þjóðarinnar verða ekki seldar nema einu sinni? Þegar búið er að selja þær eru þær ekki lengur til staðar og þá á þjóðin þær ekki lengur. Þó að hún fái þá að njóta afrakstursins til einhvers. Og það átti aldeilis að gefa í í vegamálunum.

Hvað kemur svo hér? Frumvarp um að fresta vegaframkvæmdum fyrir á þriðja milljarð kr. sömu daga og samgönguráðherra talar um að spýta í lófana og segir að það séu áherslur sínar, „sú leið sem ég vil fara“, að tvöfalda hér vegina út úr höfuðborginni í allar áttir eiginlega, a.m.k. bæði til suðurs og vesturs. Hefur hann þó haft húskarla sína í því að undirbúa framkvæmdir á allt öðrum forsendum. Ég veit ekki betur en að Vegagerðin sé að undirbúa næstu áfanga á leiðinni austur fyrir fjall á háheiðinni og jafnvel frá nýja kaflanum og niður í Lögbergsbrekku og hafi unnið að því hörðum höndum undanfarna mánuði í góðri trú með stuðningi stjórnvalda á grundvelli samþykktrar vegáætlunar, þeirrar stefnu sem mótuð hefur verið og þeirra pólitísku ákvarðana sem teknar hafa verið og ætlunin að bjóða einn áfanga út núna strax eftir áramótin.

Hvernig er að vinna við svona aðstæður? Hvernig er að reyna að skipuleggja hluti og áætlanir fram í tímann? Það er væntanlega ekki mjög auðvelt.

Rökin í og með sem hér eru líka flutt, að það breyti engu að taka þessa fjármuni af þeim framkvæmdum sem búið var að eyrnamerkja þeim þá og að það megi bara skila þeim til baka á árinu 2008 og það geri ekkert til, eru óskaplega grunn. Halda menn kannski að það sé vandamál t.d. fyrir þingmannahóp Norðausturkjördæmis að koma þessum fjármunum fyrir á næsta ári, lána þá yfir í önnur verk sem bíða og skila þeim aftur með fjárveitingum á árinu 2008 eða 2009? Nei, auðvitað er verið að fresta þessu, það er bara barnaskapur að reyna að halda öðru fram. Svo koma menn eins og hæstv. samgönguráðherra og jafnvel fleiri og daðra við einkaframkvæmd á veginum austur fyrir fjall og fara þar þá leið sem almennt er talin verst í öllum þessum einkaframkvæmdaræfingum, þ.e. skuggagjaldaleið. Hún hefur mikla ókosti til viðbótar öðrum veikleikum sem einkaframkvæmd hefur almennt að þessu leyti, þ.e. hún hefur tilhneigingu til að verða dýrari og getur líka bundið hendur stjórnvalda með ýmsum hætti sem framkvæmdir á þess eigin vegum eða ríkisins gera ekki af því að menn gera samning til alllangs tíma. Stjórnvöld eru bundin af samningnum og geta sig lítið hreyft á gildistíma hans varðandi viðkomandi rekstur og útfærslu viðkomandi mannvirkis.

Það væri gaman ef hæstv. samgönguráðherra hefði heiðrað okkur hérna með nærveru sinni og farið yfir þau gögn sem hann hefur í höndunum varðandi einkaframkvæmd. Veit hæstv. samgönguráðherra ekki af skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hvalfjarðargöng og Sundabraut þar sem í raun og veru er ráðið frá því að fara leið einkaframkvæmdar? Sérstaklega er talað þar með gagnrýnum hætti einmitt um skuggagjaldaaðferð, þ.e. ef ekki er tekinn vegtollur á viðkomandi leið og hún hentar illa til þess, ef hún er ekki valkvæð við eitthvað annað eins og Hvalfjarðargöng. Að ætla þá að reyna að gera samning sem byggir á því að áætla umferðina og borga fyrir hvern bíl 25 ár fram í tímann eða hvað það nú er er handleggur eins og umferðarspár breytast. Það væri gaman ef samgönguráðherra upplýsti okkur um hvort það sé rétt að hann liggi á skýrslu, að starfshópur sem hæstv. samgönguráðherra skipaði sjálfur sé búinn að skila af sér skýrslu en henni haldið leyndri. Gæti það verið rétt, forseti, af því að niðurstöðurnar passi ekki í daðrið við einkaframkvæmdina? Svo mikið er víst að starfshóp setti hæstv. samgönguráðherra á laggirnar fyrir allnokkru og honum var ætlað að vinna hratt. Það væri fróðlegt að vita hvar sú vinna eða afraksturinn er á vegi staddur.

Nei, væri þá ekki gáfulegra að fara að ráði minni hlutans og samþykkja tillöguna um að halda þessum fjármunum bara til vegagerðar inni á árinu 2007, lána þá eftir atvikum til verkefna sem hægt er að ráðast í strax til að auka umferðaröryggi? Nóg er af þeim, og ég held að það mundi ekki valda neinni þenslu sem skipti máli þó að þetta yrði sett í úrbætur sem hægt er að ráðast í á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi, taka út einhvern slatta af einbreiðum brúm sem enn eru eftir á meira að segja hringveginum og mörgum aðalakstursleiðum.

Allra rosalegast er að taka fjármuni af þessum almennu vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi, það er auðvitað alveg með ólíkindum. Hæstv. samgönguráðherra og aðrir þeir sem því trúa að þetta muni engin áhrif hafa af því að ekki sé hægt að vinna þessi verkefni á árinu 2007 þekkja ekki vel til. Halda menn að það væri eitthvert vandamál að lána fjármuni úr norðausturleiðinni sem ætlaðir voru í Hófaskarðsleið t.d. yfir á Langanesströnd sem er hluti af norðausturleiðinni að sjálfsögðu á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar? Þar er nú orðið eitt sveitarfélag. Þar eru malarkaflar og bráðónýtir gamlir vegir sem voru lagðir með handverkfærum á fjórða áratug aldarinnar. Ætli karl faðir minn, áttræður maðurinn, hafi ekki verið þar kúskur eins og sagt var. Á þessu er ekið enn þá og fluttur fiskur og þar fram eftir götunum. Þar liggur fyrir hönnuð veglína á núverandi vegarstæði þannig að það þarf ekkert umhverfismat og ekki neitt, tæki svona þrjá mánuði að undirbúa útboðsgögn og bjóða verkið út og mætti byrja á því í vor. Við höfum gert okkur vonir um það, þingmenn Norðausturkjördæmis, að þessir kaflar kæmust inn á næstu vegáætlun. Þar með yrðu kannski fjármunir eyrnamerktir þeim á árunum 2008–2009 eða eitthvað svoleiðis og ekkert vandamál að skila þeim þaðan til baka inn í verkið sem lánaði þá í bili ef þannig stendur á.

Við skulum ekki láta segja okkur draugasögur í björtu. Það er kannski ekki góð samlíking núna af því að kvöldsett er orðið og nokkuð dimmt úti. Hvað um það, við skulum ekki láta plata okkur á (GÓJ: … fram undan.) einhvern ódýran hátt. Já, það er sko bjart fram undan, hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, þegar búið verður að kjósa og skipta um ríkisstjórn, það er bjart fram undan. Það mun vora vel á Íslandi næst, bæði pólitískt og vonandi líka hvað veðráttuna snertir.

Það er stjórnarliðum til mikillar háðungar að vera með þetta mál í höndunum og maður fer að spyrja sig hvort þessu linni einhvern tíma, örugglega ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar enda lítill tími til stefnu. Það veitir ekki af að brjóta í blað hvað vinnubrögðin í þessum efnum snertir. Það er búið að gjörsamlega rústa allt traust sem menn hafa haft á vegáætlun, það er búið að taka stærstu ákvarðanirnar út úr henni og því lögboðna ákvarðanatökuferli sem vegalög, eða lög um samræmda samgönguáætlun eins og það heitir víst núna, gera ráð fyrir. Nánast allar ákvarðanir á þessu sviði eru komnar til hliðar yfir í geðþóttaákvarðanir ríkisstjórnar um að seinka eða flýta eða fresta eða færa eða bjóða ekki út framkvæmdir af þessu tagi. Menn eru komnir áratugi aftur í tímann hvað þetta varðar. Það var mikil framför að því þegar menn innleiddu hér fyrir allmörgum áratugum áætlanagerð og skipulögð vinnubrögð á þessu sviði, fyrst með hinum almennu áætlunum og síðan komu til sögunnar fyrstu langtímaáætlanirnar í vegamálum. Síðan fylgdu hafnargerð og flugmál á eftir og þetta skapaði allt önnur skilyrði til að taka pólitískar ákvarðanir, raða verkefnum upp og sætta íbúa viðkomandi svæða við það að það er ekki hægt að gera allt í einu en það þarf ekki endilega að slást um hverja einustu krónu á hverju einasta ári, ekki ef búið er að taka ákvörðun um röðun og fjárveitingar og menn sjá að viðkomandi verkefni er komið á sinn stað og að að því kemur eftir eitt, tvö eða þrjú ár eftir atvikum.

Þá skiptir auðvitað öllu máli, ef þessi vinnubrögð eiga að verða trúverðug og ef fólk á að geta treyst þeim, að menn standi við sitt. Það er alveg ofboðslega ljótur leikur og vont að hringla með hluti sem búið er að ákveða og fólk hefur væntingar um og gagnvart og reiðir sig á. Það eru mikil svik við þá sem hafa beðið lengi eftir úrbótum ef þeim er síðan kannski kippt allt í einu út aftur, þeir hlutir settir aftur fyrir eitthvað annað eða þeim endalaust frestað og hringlað með þá. Þessi vinnubrögð öll eru ekki til fyrirmyndar, nema mjög mikið síður sé.

Hér hafa menn sem sagt farið aftur á bak en ekki áfram á undanförnum árum hvað varðar skipulögð og traust vinnubrögð í þessum efnum og það er engum til sóma sem að því stendur. Þetta er hluti af þessu hringli og þótt ekkert kæmi annað til er full ástæða til að gagnrýna það. Auk þess er málið efnislega auðvitað alveg fráleitt, það eru engin sérstök rök fyrir því að gera þetta og þetta er einhver friðþægingaraðgerð, sýndarmennskuaðgerð sem allir sjá að hefur í sjálfu sér ekkert efnislegt gildi og er sennilega aðallega einhver sálræn þerapía fyrir stjórnarliðið án þess þó að mér sé mögulegt að skilja hvernig hún á að geta verkað til góðs.