133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

Póst- og fjarskiptastofnun.

397. mál
[00:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að benda á að mörg frumvörp koma illa unnin úr samgönguráðuneytinu fyrir þingið. Það er líkt og fastur liður. Við erum í endurskoðun á sömu lagafrumvörpunum ár eftir ár frá samgönguráðuneytinu. Það er greinilega eitthvað að í vinnubrögðum þar.

Hér er um að ræða breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Frumvarpið kom mjög seint fram var fleygt inn í nefnd. Það var alveg ljóst, þótt við hefðum ekki mikið vit á öllum þeim tæknilegu atriðum sem fjallað er um í frumvarpinu, af umsögnum og orðum gesta sem komu á fund nefndarinnar að þetta var mikið til óunnið mál, burt séð frá efni þess. Það var því engin leið fyrir mig að standa að því að senda svona mál út úr nefnd. Ég get vel trúað því að hv. formaður samgöngunefndar, Guðmundur Hallvarðsson, hafi ekki verið sérlega hrifinn af því að rífa þetta út svo illa unnið, óháð því hvort við séum sammála eða ósammála efni þess.

Ég vildi bara segja þetta. Þetta mál var, líkt og í málinu sem við fjölluðum um áðan, heimild til breytingar á lögum um Flugmálastjórn Íslands, tekið fyrir á þingi í fyrravetur, fyrir tæpu ári og kannski rúmu hálfu ári. Sami lagabálkur var þá lagður fyrir þingið og honum hnoðað í gegnum Alþingi og helst átti að gera það umsagnar- og vinnulaust. Menn muna kannski eftir því þegar málaflokknum var skipt upp og einkavæddur hluti af því sem þar hafði verið, flugleiðsögn og flugvelli landsins. Starfsemin var einkavædd og sett í sérstakt hlutafélag. Það er innan við hálft ár síðan við fjölluðum um nákvæmlega sömu lög og þau afgreidd með offorsi. Menn eru ekki enn búnir að bíta úr nálinni með hroðvirknislegu vinnubrögðin í vor. Er það ekki enn þannig með starfsmenn við flugleiðsögn og flugvelli á landinu að eftir er að ganga frá því hvernig þeirri starfsemi verði háttað? Ætli þeir hafi ekki átt að fá uppsagnarbréf 1. desember? Lögin taka gildi 1. janúar. Það er dæmigert fyrir þessa vinnu.

Það er ekki hægt annað en að gagnrýna þessi vinnubrögð. Sama gildir um Póst- og fjarskiptastofnun. Ég held að við fjöllum um það á hverju ári, á þriggja mánaða fresti sjálfsagt, að endurskoða lög og lagaákvæði sem lúta að þeirri stofnun. Það er að því er virðist aðeins vegna slakra vinnubragða. Eftir standa landsmenn með stórhækkun á símkostnaði, farsímakostnaður hefur hækkað um 40% á þremur árum og er með því hæsta sem gerist í nágrannalöndum okkar. Það átti að vera ávinningurinn af einkavæðingu og sölu Símans, að lækka símkostnað. Það varð þveröfugt enda segja menn að fákeppni og einokun ríki á þeim markaði.

Hér er fjallað um gagnaflutningskerfið. Ættu menn ekki frekar að vinna að því að styrkja kerfið og stuðla að jafnræði í verði og möguleikum í gagnaflutningum? Nei, ár eftir ár berjast menn í einhverjum tæknilegum atriðum í sömu málunum.

Herra forseti. Ég mátti til með að láta þetta koma fram. Sjálfsagt eigum við, eftir áramótin, eftir að fá ný frumvörp um breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, um Flugmálastjórn, um rekstur flugvalla eða hvað það er nákvæmlega. Þetta kemur sennilega fyrir þingið á þriggja mánaða fresti og alltaf eru málin jafnhroðvirknislega unnin.