Landsvirkjun

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 11:28:17 (3025)


133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[11:28]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni snýst þetta frumvarp sem hér er verið að greiða atkvæði um um kaup ríkisins á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Eins og hv. þingmaður sagði réttilega má kalla málið ríkisvæðingu þó að hann hafi nú endað í einkavæðingu og ég fæ ekki þá röksemd til að ganga upp.

Það sem vakti líka athygli í umræðum hér í gær og er rétt að komi fram núna við atkvæðagreiðsluna er að hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti því yfir að vinstri grænir yrðu á móti þessu. Afstaðan kemur í sjálfu sér ekki á óvart, en það sem vakti athygli var röksemdin. Það gerðist með þeim hætti að hv. þingmaður vísaði í einhver óljós ummæli iðnaðarráðherra — ekki núverandi hæstv. iðnaðarráðherra — nei, hann virðist eins og oft áður með vinstri græna hafa hrokkið í bakkgírinn. (Gripið fram í.) Ég bíð í rauninni eftir því að þessi bakkgír reki hann alveg aftur til iðnaðarráðherrans Hjörleifs Guttormssonar sem boðaði svo mikla stóriðju á Austurlandi að það hálfa væri nóg.

Við hin, sem augljóslega erum flest hér í þessum þingsal, horfum fram á við og við erum að greiða atkvæði um þetta frumvarp sem horfir til framtíðar. Þetta frumvarp á rætur sínar að rekja til R-listans sem Vinstri grænir báru ábyrgð á. Það var R-listinn sem hóf þetta ferli og óskaði eftir því við ríkisvaldið að hlutur Reykjavíkurborgar yrði keyptur. R-listinn gat ekki lokið því en núverandi meiri hluti lauk þessu máli í sátt við ríkisstjórnina og um það er verið að greiða atkvæði. Við sem horfum fram á veginn, erum ekki föst í bakkgírnum, hlustum á fólk og beitum skynseminni. Þess vegna er ástæða til að styðja þetta frumvarp sem felur það í sér að ríkið kaupir hlut Reykjavíkurborgar og Akureyringa í Landsvirkjun.