Landsvirkjun

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 11:30:25 (3026)


133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[11:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er eitthvað nýtt ef Framsóknarflokkurinn og ekki síst hv. þm. Hjálmar Árnason ætla að fara að beita skynseminni. Ég óska þeim sérstaklega til hamingju með af hafa uppgötvað það fyrirbæri, það hugtak.

Hér á að greiða atkvæði um frumvarp sem tengist kaupum ríkisins á eignarhlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun. Það mál er nú í kærumeðferð hjá félagsmálaráðuneytinu vegna ágalla í málsmeðferðinni af hálfu Reykjavíkurborgar, meiri hlutans þar. Þar sitja framsóknarmenn og sjálfstæðismenn að kjötkötlunum, og framsóknarmenn og sjálfstæðismenn í Reykjavík eru að selja framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum á Alþingi þessar almannaeigur. (Gripið fram í: Ertu á móti því?) Munum við eftir að eitthvað svipað hafi gerst áður? Muna menn eftir því að framsóknarmenn við stjórnvölinn hafi selt öðrum framsóknarmönnum hluti? Hér möndla menn með þessa hluti, almannaeigur, eins og þeir eigi þá sjálfir. (Gripið fram í.) Það er í takt við það að þegar framsóknarmenn eru aðilar að ákvörðunum, t.d. um að veita almannafé til þarfra verkefna, koma þeir upp og láta eins og þeir séu að slíta þetta út úr brjóstinu á sjálfum sér, séu að ráðstafa eigin fé. Það vill gleymast stundum hjá framsóknarmönnum að þeir eru ekki ríkið (Gripið fram í.) og þeir koma kannski til með að muna eftir því á næstu árum að vera þeirra við kjötkatlana er ekki endilega tryggð um alla framtíð.

Það liggur alveg fyrir að ríkisstjórnin skipti um skoðun varðandi það að kaupa eignarhlut sveitarfélaganna þegar hún ákvað að hefja undirbúning að einkavæðingu Landsvirkjunar. Fram að því hafði ríkið verið algerlega áhugalaust um að leysa til sín eignarhlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun en skipti skyndilega um skoðun. Þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, boðaði einkavæðingarundirbúninginn og tímasetti að á árinu 2008 hefði ríkisstjórnin í hyggju að hefja einkavæðingu Landsvirkjunar. Þetta liggur fyrir. Menn mega auðvitað sverja af sér ef þeir vilja hæstv. utanríkisráðherra eins og formaður þingflokksins gerir og lætur sem orð hennar hafi verið ómagaorð. (ÖS: Þau voru það.) Nú, voru þau það þá? En þá er best að hv. þm. Hjálmar Árnason ræði það við hæstv. utanríkisráðherra, Valgerði Sverrisdóttur. Það er ekki okkar vandamál hvernig framsóknarmenn eigast við um þessa hluti.

Þetta mál tengist líka áformum ríkisstjórnarinnar um að búa til einokunarrisa á sviði raforkumála með því að sameina Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða til að bjarga eiginfjárstöðu Landsvirkjunar. Þetta er allt saman einn samansúrraður sullumbullspakki sem ríkisstjórnin er á fullri ferð með að reyna að bjarga málum á orkusviðinu vegna þess hvernig stóriðjustefnan er að leika fjárhag Landsvirkjunar, og væri henni þó nær að standa þannig að málum að ekki þyrfti að stórhækka raforkuverðið til almennings eins og (Forseti hringir.) kerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar hafa leitt til á undanförnum missirum.