Landsvirkjun

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 11:33:39 (3027)


133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[11:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa verið andvígir því að færa hlut Reykvíkinga í Landsvirkjun í hendur ríkisvaldsins, í hendur núverandi ríkisstjórnar sem hefur lýst yfir eindregnum vilja sínum til að einkavæða þetta fyrirtæki. Þar höfum við horft til Sjálfstæðisflokksins og núverandi hæstv. forsætisráðherra, og þar höfum við horft til fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur. (GÓJ: Hvað segir formaður Framsóknarflokksins?) Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, slær hvert met sitt á fætur öðru í ómerkilegum málflutningi, og er ekki heiglum hent að slá þau met.

Hv. þingmaður segir að Framsóknarflokkurinn hlusti á fólk. Það höfum við gert, við höfum hlustað á yfirlýsingar forsvarsmanna Framsóknarflokksins, (Gripið fram í.) á yfirlýsingar fyrrverandi hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur. (GÓJ: En núverandi iðnaðarráðherra?) Hún hefur neitað og reynt að sverja af sér fyrri ummæli. Við höfum hins vegar lagt fram gögn í þinginu sem sanna hið gagnstæða. (Gripið fram í.) Það er ómerkilegt að reyna að drepa þessu máli á dreif með málflutningi af því tagi sem við verðum vitni að frá hv. þm. Hjálmari Árnasyni og í frammíköllum, m.a. hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústssonar. (Gripið fram í.) Þetta er eins ómerkilegt og allur málatilbúnaður Framsóknarflokksins í þessu máli. (Gripið fram í: Og öðrum.)