Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 12:45:15 (3040)


133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[12:45]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessa ræðu því ég er svo innilega ósammála henni. Mér þótti virkilega vænt um að heyra þann málflutning sem hér var uppi vegna þess að hann er nokkurn veginn nákvæm andstaða þess sem ég stend fyrir og ég held að við stöndum fyrir í stjórnarandstöðunni.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að þetta sem hv. þingmaður gerði fyrirvara um í ræðu sinni, valdið úti í bæ, er í reynd framkvæmd á viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er hún sem gaf yfirlýsingu um að í stað þess að lækka tekjuskattsprósentuna skyldi þetta gert á þann hátt sem hér er.

Kannski er hv. þingmaður að segja að valdið sé komið út í bæ. Kannski á hann við það að meiri hlutinn sé svo þægur að það þurfi ekki einu sinni að bera undir hann það sem hefur verið lýst yfir úti í bæ því að meiri hlutinn á hinu háa Alþingi muni án efa fylgja ríkisstjórninni eftir í einu og öllu, það þurfi ekki einu sinni að bera það undir hann. Það er kannski þetta sem hv. þingmaður á við þegar hann kvartar undan því að valdið sé komið út í bæ.

Í annan stað er ég þeirrar skoðunar að það eigi að beita skattkerfinu gagnvart sívaxandi ójöfnuði í samfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar. Ég tel ekki að þótt skattkerfi sé beitt til jafnaðar komi það í veg fyrir að kakan geti stækkað eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni. Þetta eru ekki bara tveir valkostir í lífinu.

Í þriðja lagi talaði hv. þingmaður í lokin á ræðu sinni allt að því fyrir því að það ætti jafnvel að skattleggja þjónustu sem væri veitt í gegnum grunnskólann o.s.frv. Sú þjónusta sem hv. þingmaður talaði um er þjónusta sem er veitt eftir að almenningur í þessu landi hefur fjármagnað hana með skattgreiðslum sínum, þ.e. þetta er (Forseti hringir.) samneysla þjóðarinnar þannig ég átta mig ekki á því hvað hv. (Forseti hringir.) þingmaður á við (Forseti hringir.) þegar hann talar um að skattleggja þessi hlunnindi sérstaklega.

(Forseti (JónK): Ég bið hv. þingmenn að virða tímamörk.)