Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 12:55:35 (3046)


133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[12:55]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög sérkennilegur málflutningur. Það leikur enginn vafi á því í skattalögum að fyrir þjónustu sem fólk fær hjá sveitarfélagi sínu í leikskólum, grunnskólum og öðrum slíkum stofnunum hefur það greitt með framlögum sínum til sveitarfélagsins, útsvari sínu. Það leikur enginn vafi á því í skattalögum að sú þjónusta sem sveitarfélagið veitir, og sveitarfélögin eru búin til í kringum slíka þjónustu við íbúa sína, er ekki skattskyld.

Það er heldur ekki sambærilegt að tala um að framlög sem einstaklingar fá fyrir það að vera heima, sem er þá tekjuauki fyrir viðkomandi fjölskyldu, séu skattskyld samkvæmt skattalögum. Það er núna sem er verið að hola það. Framlögin sem þingmaðurinn talaði um sem mögulegar þjónustuávísanir til foreldra væru þá ávísanir sem mundu ekki stoppa hjá foreldrunum, væru þar af leiðandi ekki tekjuauki (Forseti hringir.) hjá viðkomandi foreldrum, heldur færu beinustu leið til annarra (Forseti hringir.) aðila eins og skóla eða leikskóla.