Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 13:03:25 (3051)


133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[13:03]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Hv. þingmaður sagði einmitt það sem þurfti. Hann sagði að ASÍ hefði áhuga á jöfnuði og að hann skipti máli. Það er einmitt það sem við erum að ræða, mismunandi heimssýn vinstri manna og hægri manna. Við erum að ræða hvort það skipti meira máli að horfa á jöfnuðinn og vera stöðugt að skipta kökunni eða hvort það skipti meira máli að horfa á hvatninguna til einstaklingsins.

Minn flokkur er nú einu sinni einstaklingshyggjuflokkur sem vill að sjálfsögðu taka fullt tillit til jafnaðar líka en fyrst og fremst viljum við hvetja einstaklinginn til dáða og þar skilur á milli okkar og hv. þingmanns og okkar og starfsmanna ASÍ.