Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 13:40:27 (3056)


133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[13:40]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla kannski ekki að fara neitt að lengja absúrd-hlutann í umræðunni. En auðvitað eru heldur engin mörk fyrir því hvað sveitarfélag getur lagt mikið til leikskóla og þar af leiðandi engin mörk fyrir því hvað þau „hlunnindi“ geta verið verðmæt fyrir þá sem þurfa að njóta.

En ég lít á þetta eiginlega hinum megin frá en hv. þingmaður gerir. Sveitarfélagið er að reyna að leysa þarna úr ákveðnu vandamáli, sem eru leikskólamálin og hvernig við önnumst börnin á tilteknu aldursskeiði. Eins og lögin eru núna, en vonandi breytast þau síðar í dag, þá tel ég að þar sé um hindrun að ræða þar sem ekki gætir jafnræðis á milli þeirra fjármuna sem íbúar fá í gegnum hlunnindin í gegnum niðurgreiðslur á leikskólavist og í gegnum það að fá beinar greiðslur.

Það er því beinlínis verið að styðja við það að sveitarfélögin hafi meira frjálsræði í að aðstoða íbúana til að leysa úr tilteknum verkefnum á fjölbreyttari hátt en áður hefur verið, en þannig að jafnræði sé í fjárhagslega hlutanum hvað þetta varðar.