Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 17:47:00 (3108)


133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[17:47]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Minni hlutinn hefur flutt nokkrar breytingartillögur við þetta frumvarp sem felast í því að lækka skatta hjá fólki með lágar og meðaltekjur umfram það sem ríkisstjórnin ætlar með hærri persónuafslætti sem gefur milli 6 og 7 þús. kr. hærri skattleysismörk en ASÍ knúði í gegn í kjarasamningunum. Með okkar leið fara skattleysismörkin í 96–97 þús. sem leiðir til þess að 5 þús. færri einstaklingar, lágtekjufólk og lífeyrisþegar, munu engan skatt greiða og fólk með 300 þús. kr. mánaðartekjur mun greiða minni skatt en það gerir samkvæmt leið ríkisstjórnarinnar.

Við leiðréttum líka viðmiðunargreiðslu vaxtabóta um 12% til að þær haldi raungildi sínu frá árinu 2005 og er þó langt í land að ná til baka 1,4 milljarða skerðingu á vaxtabótum sem stjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir. Við fögnum því að hafa náð því fram að stjórnarflokkarnir hættu við að skerða skattaívilnanir vegna menntunarframlaga barna og unglinga sem harðast hefði bitnað á landsbyggðinni. Stjórnarflokkarnir eru líka að innleiða alvarlega stefnubreytingu á sviði jafnréttismála og í málefnum ungbarnafjölskyldna sem ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af en hér er verið að lögfesta sérstakar skattaívilnanir vegna heimgreiðslna til foreldra upp á 30 þús. kr. þótt foreldrar geti valið um að fá leikskólavist í staðinn. Full ástæða er til að ætla að þetta geti seinkað framþróun á fæðingarorlofslögunum eða uppbyggingu leikskólanna og örugglega mun þetta leiða til bakslags í jafnréttisbaráttunni eins og reynsla Norðmanna sýnir. Þeir eru að hverfa frá þessum heimgreiðslum þar sem þær voru eingöngu nýttar af mæðrum og stuðluðu því að því að konur hurfu af vinnumarkaðnum sem vinnur auðvitað gegn jafnrétti.

Jákvæðu þættina í þessu frumvarpi má fyrst og fremst rekja til þess að aðilar vinnumarkaðarins knúðu þá fram í kjarasamningum. Annað, eins og heimgreiðslur sem stuðla munu að bakslagi í jafnréttisbaráttunni, er síðan verk ríkisstjórnarinnar.