Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 5. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 5  —  5. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

Flm.: Sigurjón Þórðarson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Jón Bjarnason,
Guðjón A. Kristjánsson, Kristján L. Möller, Þuríður Backman,
Magnús Þór Hafsteinsson, Björgvin G. Sigurðsson, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að gerð verði úttekt á því hvaða breytingar hafa orðið á rafmagnsverði til almennra notenda og fyrirtækja í kjölfar breytinga sem urðu á skipulagi raforkumarkaðarins áramótin 2004/2005. Gerð verði grein fyrir þróun raforkuverðs, sundurliðað eftir helstu notendaflokkum og gjaldskrársvæðum. Niðurstaða úttektarinnar, sem nái til allra tegunda viðskipta með raforku, liggi fyrir 15. febrúar 2007.

Greinargerð.


    Í skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumálefni frá nóvember 2005 (þskj. 382, 348. mál 132. löggjafarþings) komu ekki fram upplýsingar um hversu mikil hækkun hafði orðið á rafmagnsverði til almennra notenda og fyrirtækja í svokölluðu samkeppnisumhverfi. Í skýrslunni er samanburður á raforkuverði milli landa og kemur fram að raforkuverð á Íslandi er með því hæsta sem gerist í þessum samanburði, hvort sem horft er til heildarverðs eða orkuverðsins án skatta og gjalda.
    Árið 2008 verður aðeins lítill hluti af raforkunni seldur á samkeppnismarkaði en stærsti hlutinn, um 80%, verður seldur á föstu verði til stóriðjunnar. Í umræðum á Alþingi var ítrekað farið fram á það við ráðherra að hún veitti upplýsingar um hversu mikil hækkun hefði orðið á raforku til almennings en skýr svör fengust ekki. Samtök iðnaðarins hafa bent á að fjöldi fyrirtækja hafi fengið tugprósenta hækkun á raforkureikningum og eru þó nokkur dæmi um allt að 70% hækkun. Aðalfundur Landssambands bakarameistara ályktaði um málið 4. mars 2006 og mótmælti harðlega þeirri miklu hækkun sem orðið hafði á verði raforku til bakaría síðan ný orkulög tóku gildi. Í ályktuninni segir orðrétt
    „Ný raforkulög tóku gildi í byrjun árs 2005. Við það breyttust taxtar sem orkufyrirtæki á öllu landinu innheimta eftir. Stærstur hluti raforkunotkunar í bakaríum fer fram á þeim tíma sólarhrings þegar almenn orkunotkun er í lágmarki. Bakarí hafa hingað til notið betri kjara af þeim sökum gegn því að hægt væri að rjúfa rafmagn til þeirra á öðrum tímum sólarhringsins. Við breytingar á orkulögum var þeim samningum rift með einu pennastriki og við það hækkaði rafmagnsverð til bakaría um allt að 50%. Þessar hækkanir hafa smám saman verið að koma í ljós frá því nýju orkulögin tóku gildi og enda óhjákvæmilega í hærra vöruverði.
    Bakarameistarar telja þessa hækkun ekki vera í samræmi við vilja stjórnvalda til að lækka verð á matvælum og hvetja orkusala til að koma til móts við óskir bakara um að leita leiða til að lækka orkuverð.“
    Hækkunin er ekki eingöngu bundin við iðnfyrirtæki. Raforkuverð til bænda hefur einnig hækkað umtalsvert og eru dæmi um að upphæðir rafmagnsreikninga hafi tvöfaldast, m.a. hjá ferðaþjónustubændum.
    Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra ályktuðu um hækkun rafmagnsverðsins 26. ágúst sl. en í ályktuninni segir orðrétt:
    „Ársþing SSNV, haldið að Gauksmýri í Húnaþingi vestra 25.–26. ágúst 2006, ítrekar að
stjórnvöld standi við gefin loforð um að ekki kæmi til hækkunar á raforkuverði vegna breytinga á raforkulögum og brugðist verði við þeim hækkunum sem þegar hafa orðið. Hækkandi raforkukostnaður er verulega íþyngjandi og við því verða stjórnvöld að bregðast nú þegar.“
    Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga var flutt eftirfarandi tillaga um orkumál:
    „51. fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið í Súðavík 1. og 2. september 2006, skorar á stjórnvöld að auka fjármagn til verkefnisins Jarðhitaleit á köldum svæðum. Nýjar rannsóknir gefa til kynna að meiri möguleikar séu til nýtingar jarðhita á Vestfjörðum en áður var talið. Aukin nýting jarðhita getur til lengri tíma litið lækkað útgjöld ríkisins til jöfnunar húshitunarkostnaðar.
    Fjórðungsþingið skorar á iðnaðarráðuneyti að ljúka úttekt á áhrifum nýrra raforkulaga, sem tóku gildi í upphafi árs 2005 og tekin verði til skoðunar almenn áhrif og jaðaráhrif á heimili og atvinnulíf.“
    Eins og sjá má af þeim ályktunum sem vitnað er til hafa fjölmargir hagsmunaaðilar verulegar athugasemdir við þróun orkuverðs hér á landi í kjölfar samþykktar nýrra raforkulaga. Í málflutningi stjórnvalda þegar lögunum var breytt var margítrekað að engar verulegar breytingar yrðu til hækkunar á orkuverði. Í ljósi þeirrar þróunar sem landsmenn hafa orðið vitni að á verðlagningu raforku er nauðsynlegt að gerð verði úttekt á orsök hækkana og hversu mikið verðið hefur hækkað þar sem verðþróun virðist vera í algjöru ósamræmi við þau fyrirheit sem stjórnvöld gáfu við framlagningu frumvarpa um breytingar á raforkumarkaði.