Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 56. máls.

Þskj. 56  —  56. mál.



Frumvarp til laga

um Ríkisútvarpið ohf.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Eignaraðild.

    Ríkisútvarpið ohf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.
    Ríkisútvarpinu ohf. er óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð.

2. gr.
Leyfi til útvarps.

    Ríkisútvarpið ohf. hefur leyfi til útvarps á þeim rásum og tíðnisviðum sem það fær til umráða eða því kann síðar að verða úthlutað.

II. KAFLI
Hlutverk og skyldur.
3. gr.
Útvarpsþjónusta í almannaþágu.

    Hlutverk Ríkisútvarpsins ohf. er rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, svo sem hljóðvarps og sjónvarps, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum.
    Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:
     1.      Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
     2.      Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring. Enn fremur að birta valda hluta efnis síns, breytta eða óbreytta, ásamt öðru þjónustuefni í breyttu eða óbreyttu formi með öðrum miðlum, þ.m.t. að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.
     3.      Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni.
     4.      Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.
     5.      Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
     6.      Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.
     7.      Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.
     8.      Að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs.
     9.      Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.
     10.      Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins.
     11.      Að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps.
     12.      Að eiga eða leigja, sem og að reka, hvers konar búnað og eignir, þar á meðal tæknibúnað og fasteignir sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi félagsins.
     13.      Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.
    Menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu ohf. ber að gera sérstakan þjónustusamning um markmið, umfang og nánari kröfur skv. 2. mgr. um útvarpsþjónustu í almannaþágu.

4. gr.
Önnur starfsemi.

    Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að standa að annarri starfsemi en kveðið er á um í 3. gr. sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti.
    Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að miðla áður framleiddu efni í eigu félagsins, svo sem rituðu máli, hljómplötum, hljóðsnældum, geisladiskum, myndböndum og margmiðlunarefni.
    Ríkisútvarpinu ohf. er óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og varðveitt eru hjá félaginu.

5. gr.
Fjárhagslegur aðskilnaður.

    Halda skal fjárreiðum alls reksturs, sem ekki fellur undir útvarp í almannaþágu, aðskildum frá fjárreiðum reksturs vegna útvarps í almannaþágu skv. 3. gr. Er félaginu óheimilt að nota fjármuni frá rekstri skv. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi, þar á meðal starfsemi sem telst vera samkeppnisrekstur, nema um sé að ræða starfsemi sem flokkast undir útvarp í almannaþágu skv. 3. gr.

6. gr.
Efni á erlendu máli.

    Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins ohf., skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði er gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal, eftir því sem kostur er, látin fylgja endursögn eða kynning á íslensku á þeim atburðum sem gerst hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.

III. KAFLI
Stjórnskipulag Ríkisútvarpsins ohf.
7. gr.
Umboð menntamálaráðherra.

    Menntamálaráðherra fer með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu ohf.
    Um réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins ohf. skal mælt nánar fyrir í samþykktum félagsins.

8. gr.
Stjórn Ríkisútvarpsins ohf.

    Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skulu fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþingi ásamt jafnmörgum til vara og skulu þeir kosnir í stjórn félagsins.
    Stjórnarmenn skulu vera lögráða, bú þeirra hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og þeir skulu hafa óflekkað mannorð. Stjórnarmenn skulu í störfum sínum eingöngu hafa að leiðarljósi hagsmuni Ríkisútvarpsins ohf., fyrst og fremst skyldur þess til útvarps í almannaþágu. Þeir mega ekki, hvorki beint né óbeint, inna af hendi nokkurt starf, taka við greiðslu eða hafa nokkurra hagsmuna að gæta í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eða fjölmiðlatengdum fyrirtækjum sem leitt geta til árekstra við hagsmuni Ríkisútvarpsins ohf.

9. gr.
Starfssvið stjórnarinnar.

    Starfssvið stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. nær sérstaklega til eftirfarandi þátta í starfi félagsins:
     1.      Að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör.
     2.      Að taka ákvarðanir um lán og ábyrgðir til þarfa félagsins.
     3.      Að taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna.
     4.      Að samþykkja fyrir fram fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár.
     5.      Að gera grein fyrir því í ársskýrslu til aðalfundar hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur félagsins um útvarp í almannaþágu.
    Að öðru leyti en að framan greinir ákveðst starfssvið stjórnar í samþykktum félagsins, sbr. lög um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.

10. gr.
Útvarpsstjóri.

    Útvarpsstjóri er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins ohf. og skal uppfylla skilyrði 2. mgr. 8. gr. Hann er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.
    Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf.
    Í samþykktum félagsins má skilgreina nánar starfssvið útvarpsstjóra.

IV. KAFLI
Tekjur Ríkisútvarpsins ohf.
11. gr.
Tekjustofnar.

    Tekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf. eru sem hér segir:
     1.      Samkvæmt sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldskylda hvílir á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Skal gjaldið nema 14.580 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
     2.      Tekjur af auglýsingum, kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess í útvarpi eða í öðrum miðlum.
     3.      Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.
    Við álagningu, innheimtu, eftirlit og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að frátöldu ákvæði 98. gr.
    Hinn 15. febrúar og 15. maí ár hvert skal fjármálaráðuneytið greiða Ríkisútvarpinu ohf. fyrir fram í hvort sinn fjárhæð sem svarar til áætlaðs fjórðungs heildartekna af gjaldi ársins samkvæmt þessari grein.
    Stjórn félagsins skal setja gjaldskrár fyrir auglýsingabirtingu og aðra skylda tekjustofna.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
12. gr.
Lög um hlutafélög o.fl.

    Að öðru leyti en fram kemur í lögum þessum gilda um Ríkisútvarpið ohf. lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum.
    Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf.

13. gr.
Gildistaka laganna o.fl.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Með lögum þessum eru felld úr gildi lög um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, frá og með 1. janúar 2007, að undanteknum eftirtöldum ákvæðum: 12., 13., 14. og 16. gr., sem falla úr gildi 1. janúar 2009, og 15., 17. og 18. gr., sem falla úr gildi 1. janúar 2012. Heiti þeirra laga verður: Lög um útvarpsgjald og innheimtu þess. Skulu lögin gefin út svo breytt með nýjum greinanúmerum.
    Þar sem í öðrum lögum er vísað til Ríkisútvarpsins er átt við Ríkisútvarpið ohf.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Stofnun hlutafélags um Ríkisútvarpið.

    Í samræmi við lög þessi skal stofnað hlutafélag um Ríkisútvarpið og skal heiti þess vera Ríkisútvarpið ohf. Félagið skal skráð í hlutafélagaskrá. Frestur til þess að setja félaginu sérstakar samþykktir og halda stofnfund er 30 dagar eftir að Alþingi hefur kosið menn til setu í stjórn.
    Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins.
    Menntamálaráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í Ríkisútvarpinu ohf. Við stofnun félagsins skal lögð fram a.m.k. 5.000.000 kr. fjárhæð sem hlutafé og skal hún greiðast úr ríkissjóði eigi síðar en hálfum mánuði eftir skráningu félagsins hjá hlutafélagaskrá.
    Eftir að lög um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, falla úr gildi 1. janúar 2007, sbr. 2. mgr. 13. gr., tekur Ríkisútvarpið ohf. við rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins, og um leið er Ríkisútvarpið lagt niður. Tekur félagið þá m.a. við lögbundnu leyfi Ríkisútvarpsins til útvarpsreksturs. Jafnframt skal Ríkisútvarpið ohf. yfirtaka þær skyldur sem Ríkisútvarpið hefur undirgengist í samningum við þriðju aðila.

II.
Réttindi starfsmanna.

    Þegar stofnunin Ríkisútvarpið verður lögð niður, frá og með 1. janúar 2007, fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.
    Ríkisútvarpið ohf. skal bjóða störf öllum starfsmönnum Ríkisútvarpsins.
    Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum hjá Ríkisútvarpinu, gilda ákvæði laga nr. 70/1996, þó skulu starfsmenn halda biðlaunarétti sínum verði starf þeirra lagt niður fyrir 31. desember 2009.
    Starfsmaður Ríkisútvarpsins, sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira, getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.

III.
Fyrsta stjórn félagsins.

    Eigi síðar en 30 dögum eftir að Alþingi kýs menn til setu í stjórn félagsins, sbr. 8. gr., skal menntamálaráðherra halda stofnfund Ríkisútvarpsins ohf. þar sem jafnt stjórn sem stjórnarformaður félagsins skal kjörin. Þar til skipuð hefur verið stjórn fyrir félagið er menntamálaráðherra í fyrirsvari fyrir félagið sem eini stjórnarmaður þess.

IV.
Lok á umboði útvarpsráðs.

    Umboð aðalmanna og varamanna í útvarpsráði, sem síðast voru kjörnir af Alþingi skv. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, með síðari breytingum, fellur niður við gildistöku laga þessara.

V.
Álagning og innheimta útvarpsgjalds.

    Megintekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf. til og með 31. desember 2008 eru gjöld fyrir útvarpsafnot, gjöld fyrir auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi og öðrum miðlum og aðrir tekjustofnar sem Alþingi kann að ákveða. Menntamálaráðherra skal staðfesta útvarpsgjöld að fengnum tillögum útvarpsstjóra.
    Eftir 1. janúar 2009 fer um tekjur félagsins skv. 11. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins og byggist á frumvarpi um Ríkisútvarpið hf., sem lagt var fram á síðasta þingi, 132. löggjafarþingi, þskj. nr. 517, 401. mál. Í frumvarpi þessu er að finna nokkrar breytingar frá fyrra frumvarpi, sem taka mið af tillögum meiri hluta menntamálanefndar í nefndarálitum við þingmeðferð á síðasta þingi, eftir 1. og 2. umræðu.
    Á 125. löggjafarþingi lagði menntamálaráðherra fram frumvarp til nýrra útvarpslaga (þskj. 241, 207. mál). Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi með nokkrum breytingum, sem menntamálanefnd Alþingis lagði til, útvarpslög, nr. 53 17. maí 2000 (þskj. 1217, 207. mál, Stjórnartíðindi A 2000, bls. 130). Með hinum nýju útvarpslögum voru felld úr gildi útvarpslög, nr. 68/1985, með síðari breytingum, að undanteknum ákvæðum laganna sem varða Ríkisútvarpið. Heiti þeirra laga varð lög um Ríkisútvarpið og voru þau gefin út svo breytt með nýjum greinanúmerum sem lög um Ríkisútvarpið, nr. 122 30. júní 2000.
    Útvarpslög, nr. 53/2000, mynda almennan ramma um alla útvarpsstarfsemi í landinu, bæði sjónvarp og hljóðvarp. Helsta tilefni endurskoðunar útvarpslaganna var setning tilskipunar Evrópusambandsins 97/36/EB sem breytti sjónvarpstilskipun sambandsins 89/552/EBE. Ýmis nýmæli fólust í hinni nýju sjónvarpstilskipun og vísast um það efni til frumvarpsins til laga nr. 53/2000. Þá voru gerðar á útvarpslögunum ýmsar breytingar sem ekki leiddi beinlínis af tilskipun 97/36/EB.
    Í áliti menntamálanefndar, þar sem mælt var með samþykkt útvarpslagafrumvarpsins, kom fram það álit nefndarinnar að nauðsynlegt væri að endurskoða lagaákvæði um Ríkisútvarpið og endurmeta hlutverk þess í breyttu fjölmiðlaumhverfi. Lagði nefndin áherslu á að þeirri vinnu yrði hraðað. Menntamálaráðuneytið hefur um nokkurt skeið unnið að tillögum til breytinga á lagaákvæðum um Ríkisútvarpið og flytur menntamálaráðherra nú frumvarp þetta í framhaldi af þeirri vinnu og í samræmi við ósk menntamálanefndar Alþingis. Því frumvarpi sem hér liggur fyrir og útvarpslögum, nr. 53/2000, er ætlað að mynda heildarlöggjöf um útvarpsmálefni hér á landi.
    Útvarp er í frumvarpi þessu notað sem samheiti fyrir hljóðvarp og sjónvarp, eins og gert er í a-lið 1. gr. útvarpslaga.
    Á 131. löggjafarþingi var af hálfu menntamálaráðherra lagt fram frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir umtalsverðum breytingum á rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins. Þannig var ráðgert að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið og að nýtt félag, sameignarfélag, tæki við rekstri þess. Enn fremur var mælt fyrir um afnám afnotagjalda frá og með 1. janúar 2008 og lagt til að rekstur félagsins yrði eftir það grundvallaður á sérstökum skatti, nefskatti, sem lagður yrði á einstaklinga og lögaðila, auglýsingatekjum og öðrum tekjum. Auk þessa var lagt til að stjórn félagsins yrði breytt þannig að útvarpsráð yrði lagt niður og að við tæki sérstök rekstrarstjórn sem mundi m.a. ráða útvarpsstjóra.
    Frumvarpið breyttist umtalsvert í meðförum þingsins eftir að það var lagt fram af hálfu menntamálaráðherra. Í umsögn menntamálanefndar voru gerðar athugasemdir við fjögur atriði. Í fyrsta lagi var talið að skilgreining á útvarpi í almannaþágu væri of víðtæk og því lagt til að hún yrði þrengd að nokkru leyti. Í öðru lagi taldi nefndin að heimild hins nýja félags til að taka þátt í starfsemi sem ekki teldist útvarpsþjónusta í almannaþágu væri of víðtæk. Lagði nefndin því til að sá hluti frumvarpsins yrði að svo stöddu felldur brott. Í þriðja lagi gerði nefndin athugasemdir við þann hluta frumvarpsins sem gerði félaginu kleift að taka að sér sérverkefni frá stjórnvöldum þrátt fyrir að þau skiluðu ekki arði. Lagði nefndin því til að sá hluti frumvarpsins yrði felldur brott. Í fjórða lagi gerði nefndin athugasemdir við ákvæði er vörðuðu yfirtöku hins nýja félags á réttindum starfsmanna. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu en á grunni þess og með þeim breytingum sem að framan voru raktar var frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. lagt fram á síðasta þingi. Eins og áður segir er frumvarp þetta lagt fram með þeim breytingum sem meiri hluti menntamálanefndar lagði til við þingmeðferð á síðasta þingi, eftir 1. og 2. umræðu.
    Hinn 23. apríl 2004 gaf Samkeppnis- og ríkisstyrkjadeild Eftirlitsstofnunar EFTA (hér eftir nefnt ESA) út leiðbeinandi reglur um ríkisstyrki á sviði almannaútvarpsþjónustu (e. public service broadcasting). Í kjölfarið hófst athugun ESA á fjármögnun og rekstri RÚV á grundvelli 1. mgr. 17. gr. í II. hluta 3. bókunar viðaukasamnings við EES-samninginn um eftirlit og dómstólameðferð.
    Hinn 3. júní 2005 barst íslenskum stjórnvöldum tilkynning ESA skv. 2. mgr. 17. gr. í II. hluta 3. bókunar fyrrgreinds viðaukasamnings við EES-samninginn um eftirlit og dómstólameðferð þar sem gerð er grein fyrir bráðabirgðamati ESA varðandi fjármögnun og rekstur RÚV. Athugasemdir ESA taka bæði til gildandi laga um RÚV og frumvarps til laga um Ríkisútvarpið sf. (643. mál á 131. löggjafarþingi). Á fundi ESA með embættismönnum fjármála- og menntamálaráðuneytisins í Reykjavík 9. júní 2005 gerðu fulltrúar ESA nánari grein fyrir bráðabirgðaniðurstöðunni og viðhorfum ESA til frumvarps til laga um Ríkisútvarpið sf., að teknu tilliti til nefndarálits og breytingartillögu meiri hluta menntamálanefndar Alþingis (þskj. 1438 og 1439). Á fundinum kom fram að rekstrarformið sameignarfélag í eigu íslenska ríkisins væri ekki til þess fallið að leysa úr þeim vandamálum sem leiddi af ótakmarkaðri ábyrgð ríkisins á skuldbindingum RÚV sem ríkisstofnunar.
    Að mati ESA skapaði ákvörðun, álagning og innheimta útvarpsgjalds RÚV skv. 11. gr. frumvarpsins um Ríkisútvarpið sf. efnahagslegt forskot á keppinauta sem stofnunin nyti ekki miðað við eðlilegar markaðsaðstæður. Í þessu fælist að RÚV nyti forskots í samkeppni sem væri andstætt 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins. Samkvæmt dómafordæmum Evrópudómstólsins gæti slíkt forskot í samkeppni ekki viðgengist nema að uppfylltum fjórum skilyrðum:
     1.      að vel skilgreind skylda hvíli á viðtakanda ríkisstyrks til að láta í té opinbera þjónustu;
     2.      að forsendur fyrir útreikningi og ákvörðun ríkisstyrks hafi verið skilgreindar fyrir fram með hlutlægum og gagnsæjum hætti;
     3.      að ríkisstyrkur fari ekki fram úr nauðsynlegum kostnaði við að láta í té hina opinberu þjónustu, að öllu leyti eða að hluta, að teknu tilliti til tekna og sanngjarnrar framlegðar af rekstri þjónustunnar;
     4.      að þegar aðili sé valinn til að veita opinbera þjónustu án undangengins útboðs þurfi upphæð ríkisstyrks að hafa verið ákveðin á grundvelli reiknilíkans um kostnað dæmigerðs, vel rekins fyrirtækis, með nægilegan styrk, af því að veita hina opinberu þjónustu, að teknu tilliti til sanngjarnrar arðsemiskröfu.
    Niðurstaða ESA var að 1. gr. frumvarps til laga um Ríkisútvarpið sf. fæli það í sér að ríkissjóður kæmi til með að bera ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum sameignarfélagsins Ríkisútvarpið sf., enda kæmi fram í 3. mgr. 5. gr. laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, að greiðsluþrot hjá Ríkisútvarpinu sf. gæti aldrei leitt til gjaldþrotaskiptameðferðar á stofnuninni. Þrátt fyrir greiðslu RÚV á svonefndu ríkisábyrgðargjaldi skv. 6. gr. laga um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997 (0,0625%), yrði ekki komist hjá þeirri niðurstöðu að telja ríkisábyrgð á skuldbindingum RÚV fela í sér ólögmætan ríkisstyrk, sbr. gr. 17.4 (3) og 17.2.1 (3) í reglum ESA, sbr. 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins.
    Í ríkisstyrkjareglum ESA koma fram viðmið um svigrúm ríkisrekinna útvarpsfyrirtækja til þátttöku í samkeppnisrekstri á almennum markaði með tilliti til samkeppnisreglna EES- samningsins, sbr. 2. mgr. 59. gr. samningsins. Meðal skilyrða eru:
     1.      að útvarpsþjónustan sé skilgreind (í lögum) sem þjónusta sem varði almenna efnahagslega þýðingu;
     2.      að stjórnvöld hafi skýrlega falið fyrirtækinu að reka útvarpsþjónustu;
     3.      að beiting samkeppnisreglna mundi hindra fyrirtækið í að sinna framangreindum skyld um sínum og að undantekning frá samkeppnisreglum standi ekki í vegi fyrir þróun viðskipta.
    Að mati ESA geta netverslun RÚV og sala á hringitónum í samstarfi við símafyrirtæki ekki talist til opinberrar þjónustu í skilningi ríkisstyrkjareglna ESA. Þrátt fyrir gildistöku tilskipunar 80/723/EBE um gagnsæi fjármálatengsla, sbr. tilskipun 2000/52/EB, hefði RÚV ekki innleitt fjárhagslegan aðskilnað á milli almannaþjónustustarfsemi RÚV og þeirra þátta starfsemi RÚV sem væru í samkeppnisrekstri. Því væri ekkert kerfi fyrir hendi sem tryggði að ríkisstyrkir rynnu ekki til samkeppnisrekstrar og þeim væri haldið aðskildum frá tekjum vegna auglýsinga og kostunar.
    ESA taldi að frumvarpið um Ríkisútvarpið sf. uppfyllti ekki kröfuna um að gera yrði skýran greinarmun á almannaþjónustuhlutverki RÚV og starfsemi sem væri viðskiptalegs eðlis, þ.m.t. að gera yrði kröfu um fjárhagslegan aðskilnað milli þessara tveggja rekstrarþátta í starfsemi RÚV. ESA gerði athugasemd við of víðtæka skilgreiningu á almannaþjónustuhlutverki RÚV í 18. tölul. 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins um Ríkisútvarpið sf. (Að gera hvaðeina sem stjórn félagsins telur óhjákvæmilegt eða stuðlar að því að tilgangi félagsins verði náð.) Þá gerði ESA athugasemd við víðtæka heimild menntamálaráðherra í 4. mgr. 3. gr. til að heimila stofnuninni þátttöku í nýjum verkefnum án frekari skilgreiningar.
    Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 15. ágúst 2005, f.h. íslenskra stjórnvalda til ESA í framhaldi af áliti ESA frá 3. júní sama ár kemur fram að íslensk stjórnvöld mundu taka mið af þeim athugasemdum sem fram hefðu komið og leitast yrði við að breyta frumvarpinu um Ríkisútvarpið sf. á þann veg að þrengd yrði skilgreining á almannaþjónustuhlutverki RÚV, tekin upp skýr aðgreining milli almannaþjónustuskyldna og samkeppnisrekstrar stofnunarinnar, jafnframt því sem dregið yrði úr áhrifum ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar með breytingu á rekstrarformi í átt til félags með takmarkaða ábyrgð að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.
    Í frumvarpi þessu hefur verið reynt að koma til móts við framangreind sjónarmið. Hér á eftir verður gerð grein fyrir efni frumvarps þessa, einkum þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði frá núgildandi ákvæðum um Ríkisútvarpið, og þá sérstaklega breytingu á rekstrarforminu í þá átt að Ríkisútvarpið verði eftirleiðis rekið í hlutafélagsformi.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Helstu nýmæli með frumvarpi þessu eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er ráðgert að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið og stofna samtímis hlutafélag um reksturinn. Með því er rekstrarformi Ríkisútvarpsins breytt og rekstur yfirfærður í félagsform með takmarkaðri ábyrgð ríkisins. Í öðru lagi er mælt fyrir um afnám afnotagjalda frá og með 1. janúar 2009 og lagt til að rekstur hlutafélagsins verði eftir það grundvallaður á sérstöku gjaldi, framlagi af fjárlögum, auglýsingatekjum og öðrum tekjum sem Alþingi kann að ákveða sérstaklega. Í þriðja lagi er stjórnun félagsins breytt. Þessi breyting er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar er ytra eftirlit útvarpsráðs lagt af með niðurlagningu þess og hins vegar er innra eftirlit framkvæmdastjórnar Ríkisútvarpsins lagt niður. Gerir breytingin því ráð fyrir því að hlutafélagið verði rekið á rekstrarlegum forsendum og stjórnunarvald fyrirtækisins verði alfarið í höndum stjórnar þess. Í fjórða lagi er skilgreint hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins. Gerður er skýr greinarmunur á útvarpsþjónustu í almannaþágu, sem er skilgreind með ítarlegum hætti, og annarri starfsemi. Í samræmi við það er í fimmta lagi mælt fyrir um fjárhagslegan aðskilnað á fjárreiðum reksturs sem fellur undir útvarp í almannaþágu, eins og það er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins, og alls annars reksturs sem ekki fellur undir þá skilgreiningu, þar á meðal samkeppnisreksturs.
    Auk framangreinds er lagt til að fella niður þátttöku Ríkisútvarpsins í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sbr. b-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1982. Ekki er mælt fyrir um þá breytingu í þessum lögum, en ráðgert er að leggja fram frumvarp um breyting á lögum nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem m.a. verður felld niður greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar.
    Verður nú nánar gerð grein fyrir meginatriðum frumvarpsins:
     1.      Rekstrarformi Ríkisútvarpsins verður breytt með því að stofnað verður hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins sem beri heitið Ríkisútvarpið ohf., sbr. 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða I. Ætlunin er að í meginatriðum hagi félagið starfsemi sinni í samræmi við lög nr. 2/1995, um hlutafélög, sbr. lög nr. 90/2006, um breytingu á lögum nr. 2/1995, með síðari breytingum (opinber hlutafélög), og Ríkisútvarpið fái þann sveigjanleika í rekstri sem á að fylgja því að breytast úr ríkisstofnun í hlutafélag.
     2.      Íslenska ríkið verður einn eigandi félagsins eða alls hlutafjár í félaginu og verður sala þess, slit eða innkoma nýrra eigenda óheimil, sbr. 1. gr. Samkvæmt sömu grein er Ríkisútvarpinu ohf. óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð.
     3.      Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins, sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I. Þá fær Ríkisútvarpið ohf. með lögunum leyfi til útvarps á þeim rásum og á þeim tíðnisviðum sem Ríkisútvarpið hefur til umráða eða Ríkisútvarpinu ohf. kann síðar að verða úthlutað, sbr. 2. gr. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I.
     4.      Aðalstarfsemi Ríkisútvarpsins ohf. er skilgreind sem útvarp í almannaþágu eða útvarp með opinbert þjónustuhlutverk („public service broadcasting“), sbr. 3. gr. Samkvæmt ákvæðinu ber menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu ohf. að gera sérstakan þjónustusamning um markmið, umfang og nánari kröfur um almannaþjónustuhlutverkið.
     5.      Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að standa að annarri starfsemi eða rekstri sem tengist aðalstarfsemi félagsins.
     6.      Mælt er fyrir um fjárhagslegan aðskilnað þess reksturs sem fellur undir útvarp í almannaþágu, sbr. 3. gr., og alls annars reksturs, þar á meðal nýrrar starfsemi sem félagið kann að fara út í eitt sér eða með öðrum og rekstur sem telja má samkeppnisrekstur og ekki fellur undir skilgreiningu um útvarp í almannaþágu.
     7.      Lögð er sú skylda á Ríkisútvarpið ohf. að gera grein fyrir því í ársskýrslu til aðalfundar hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur félagsins um útvarp í almannaþágu. Í ljósi þess að Ríkisútvarpinu ohf. er ætlað að veita útvarpsþjónustu í almannaþágu, sem er í eðli sínu opinber þjónusta, kveður frumvarpið á um að upplýsingalög, nr. 50/1996, gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. Með því er tryggt að almenningur geti fengið aðgang að gögnum mála hjá því í samræmi við ákvæði laganna.
     8.      Menntamálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu, sbr. 7. gr. Í því felst m.a. að ráðherra kýs stjórn á aðalfundum félagsins, sbr. 1. mgr. 8. gr. Hins vegar er ekki mælt fyrir um vald hans til ráðningar á tilteknum starfsmönnum Ríkisútvarpsins ohf., eins og nú er gert í lögum um Ríkisútvarpið, sbr. 1. mgr. 6. gr. (skipun útvarpsstjóra) og 6. mgr. 9. gr. (ráðning framkvæmdastjóra).
     9.      Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi, sbr. 1. mgr. 8. gr., en áður en sú kosning fer fram skulu kosnir jafnmargir stjórnarmenn, bæði aðalmenn og varamenn, hlutbundinni kosningu á Alþingi, sem síðan skulu kosnir í stjórnina á aðalfundi. Hlutverk stjórnarinnar verður í meginatriðum hið sama og stjórna almennt í hlutafélögum, sbr. IX. kafla laga nr. 2/1995, þ.e. yfirumsjón með rekstri félagsins, sbr. nánar 1. mgr. 8. gr. Stjórninni er ætlað að skipuleggja starfsemi félagsins ásamt stjórnendum þess. Felld eru brott öll ákvæði um deildaskiptingu fyrirtækisins. Slík ákvæði þykja ekki lengur eiga heima í lögum heldur heyrir það undir eðlilegt starfssvið stjórnenda Ríkisútvarpsins ohf. að taka ákvarðanir um skiptingu fyrirtækisins í rekstrareiningar eins og almennt tíðkast í fyrirtækjarekstri. Það er ekki talið meðal verkefna stjórnar fyrirtækisins að hafa afskipti af dagskrá, sbr. 9. gr. Útvarpsstjóri er æðsti yfirmaður dagskrárgerðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. Tryggir þetta ákvæði ritstjórnarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins ohf.
     10.      Útvarpsstjóri verður æðsti stjórnandi Ríkisútvarpsins ohf. í daglegum rekstri, bæði framkvæmdastjóri og yfirmaður allrar dagskrárgerðar á vegum félagsins, svo sem nefnt hefur verið, sbr. 1. mgr. 10. gr. Er þetta í stórum dráttum í samræmi við núverandi fyrirkomulag og er þó sjálfstæði útvarpsstjóra aukið frá því sem nú er. Það verður stjórn félagsins sem ræður útvarpsstjóra og hefur yfir honum að segja, sbr. a-lið 1. mgr. 9. gr. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. án umsagnar eða tillagna annarra aðila gagnstætt því sem nú er. Skv. 6. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið ræður útvarpsstjóri starfsfólk við dagskrá aðeins að fengnum tillögum útvarpsráðs og menntamálaráðherra ræður framkvæmdastjóra einstakra deilda.
     11.      Útvarpsráð verður lagt niður og þar með hætt afskiptum þess af dagskrá, sbr. nú 8. gr. laga um Ríkisútvarpið.
     12.      Ríkisútvarpið ohf. verður stofnað með setningu laganna, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I. Framlag ríkissjóðs í formi innborgaðs hlutafjár verður í upphafi ákveðið a.m.k. 5.000.000 kr.
     13.      Tryggilega er búið um réttindi núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins, sbr. nánar ákvæði til bráðabirgða II.
     14.      Tekjustofnar félagsins breytast þannig að sérstakt gjald er lagt á þá einstaklinga sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögaðila sem skattskyldir eru skv. 2. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. og ákvæði til bráðabirgða V. Fram að þeim tíma, þ.e. til og með 31. desember 2008, verður lagt á og innheimt afnotagjald með sama hætti og verið hefur. Þannig er gert ráð fyrir því að frá og með 1. janúar 2009 falli niður öll ákvæði núgildandi laga um Ríkisútvarpið er varða afnotagjald og innheimtu þess, sbr. 2. og 4. mgr. 10. gr. og 12.–18. gr. laga um Ríkisútvarpið, en það verður þó að gerast í áföngum til þess að tryggja innheimtu þeirra afnotagjalda sem gjaldfalla í tíð núgildandi laga, sbr. gildistökuákvæði frumvarps þessa.
     15.      Ákvæði útvarpslaga eiga að gilda um Ríkisútvarpið ohf. að því leyti sem ekki eru sett sérákvæði um félagið samkvæmt þessu frumvarpi. Almenn ákvæði útvarpslaga, nr. 53/2000, eiga því að gilda um Ríkisútvarpið ohf. eins og aðrar útvarpsstöðvar, svo sem ákvæði um auglýsingabirtingu, ákvæði til verndar börnum, önnur fyrirmæli sem sett verða í samræmi við Evrópusambandstilskipanir 89/552/EBE og 97/36/EB, svo sem um hlutfall evrópsks efnis í útvarpsdagskrá og hlutfall efnis frá sjálfstæðum framleiðendum, ákvæði um eftirlit útvarpsréttarnefndar og ákvæði um ábyrgð á útvarpsefni.
     16.      Ekki þykir ástæða til þess að taka upp í frumvarp þetta ýmis ákvæði sem nú er að finna í lögum um Ríkisútvarpið. Við gerð frumvarps þessa hefur verið leitast við að einfalda innra skipulag Ríkisútvarpsins. Vísast til þess að í texta laganna er einungis lýst helstu atriðum er varða innra skipulag Ríkisútvarpsins ohf. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að rekstrarleg atriði séu upptalin í lögunum sem eðlilegast er að stjórn félagsins og daglegir stjórnendur taki ákvarðanir um.
     17.      Í stórum dráttum munu gilda svipaðar reglur um Ríkisútvarpið ohf. og giltu áður um Ríkisútvarpið samkvæmt útvarpslögum, nr. 68/1985, og nú samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, að því leyti sem ekki hefur verið gerð grein fyrir breytingum hér að framan.

3. Formbreyting og fjárhagslegur aðskilnaður.
    Sú leið hefur verið farin í auknum mæli á undanförnum árum, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, að breyta ríkisstofnunum í hlutafélög. Í þessu sambandi hefur valið um félagsform yfirleitt staðið á milli annars vegar hlutafélags, einkahlutafélags eða sameignarfélags og hins vegar sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri. Á síðasta þingi voru uppi áform um að breyta Ríkisútvarpinu í sameignarfélag eins aðila en við það fyrirkomulag hafa verið gerðar umtalsverðar athugasemdir af hálfu ESA. Varð því niðurstaðan sú að hætta við þau áform. Þá þótti einkahlutafélagsformið ekki henta fyrir svo stórt fyrirtæki sem Ríkisútvarpið enda er það félagsform einkum sniðið að einstaklingsrekstri og rekstri smáfyrirtækja. Við samanburð á sjálfseignarstofnun og hlutafélagi þótti hlutafélagsformið henta betur enda gildir um hlutafélög ítarleg og skýr löggjöf, leikreglur eru þar allar vel þekktar og fjöldi fordæma til um hvernig leysa beri úr einstökum málum. Þá þótti hlutafélagsformið henta mun betur til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru um fjárhagslegan aðskilnað almannaútvarps frá samkeppnisrekstri.
    Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir þeirri leið að ríkisstofnunin Ríkisútvarpið verði lögð niður og nýtt félag, hlutafélag, taki við réttindum og skyldum hennar. Þá er gert ráð fyrir því að ríkið eigi allt hlutafé í Ríkisútvarpinu ohf. og sala félagsins eða eignarhluta þess svo og slit þess séu óheimil. Orðalagið er frábrugðið því sem tíðkast hefur í lögum þar sem ríkisstofnunum er breytt í hlutafélög en þar hefur verið tekið fram að sala hlutafjár væri óheimil nema með samþykki Alþingis. Í þessu frumvarpi er fyrirvarinn „nema með samþykki Alþingis“ felldur burt til þess að leggja áherslu á að breytingin er ekki gerð til þess að selja félagið. Það verður einungis gert með nýrri lagasetningu og engin áform eru uppi um slíkt af hálfu núverandi ríkistjórnar.
    Á síðasta þingi voru samþykkt lög nr. 90/2006 um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/2005 (opinber hlutafélög). Koma þau ákvæði til viðbótar þeim ákvæðum í lögum um hlutafélög sem fela í sér almennar leikreglur um hlutafélög hér á landi og koma því til með að gilda um Ríkisútvarpið ohf.
    Í flestum eða öllum Evrópuríkjum hefur ríkisvaldið um langan aldur staðið að útvarpsrekstri og á því hefur yfirleitt ekki orðið breyting þó að einkaaðilum hafi í seinni tíð einnig verið heimilaður útvarpsrekstur og ríkiseinokun á þessu sviði teljist ekki samrýmast fyrirmælum um tjáningarfrelsi. Eru útvarpsstöðvar, sem reknar eru af ríkjum, hugsaðar sem opinberar þjónustustofnanir („public service broadcasting“). Er ríkisútvarpsstöðvum ætlað að flytja vandað efni, sérstaklega af innlendum og menningarlegum toga, sem ekki sé víst að útvarpsstöðvar, sem eingöngu eru reknar með viðskiptasjónarmið í huga, telji arðvænlegt að láta gera eða flytja. Einnig er sú krafa gerð til ríkisútvarpsstöðvanna að þær tryggi vissa fjölbreytni í efnisvali og efnismeðferð og tryggi að skoðanir og sjónarmið í þýðingarmiklum þjóðfélagsmálum, er almenning varða, komist á framfæri, sem og að um mál sé fjallað málefnalega og af hlutlægni. Á seinni tímum er því m.a. haldið fram að almenningur eigi kröfu á því að geta gengið að einni opinni sjónvarpsrás að minnsta kosti og styðst þessi röksemd við hugmyndina um hið svokallaða upplýsingasamfélag. Það er skýr stefna í öllum Evrópuríkjum að starfrækt skuli útvarp í almenningsþágu í formi opinberra þjónustufyrirtækja, núorðið víðast hvar við hlið útvarps einkaaðila í viðskiptalegum tilgangi. Til að mynda ítrekaði ráðherranefnd Evrópuráðsins á fundi sínum 11. september 1996 álit sitt um hið nauðsynlega hlutverk útvarps í almannaþágu sem afgerandi þátt í fjölhyggju í fjölmiðlun sem sé aðgengileg fyrir alla, bæði á landsgrundvelli og svæðisbundið, með því að séð sé fyrir víðtækri dagskrárþjónustu er nái til upplýsingar, menntunar, menningar og afþreyingar. Pólitísk öfl innan Evrópusambandsins, þar á meðal ráðherraráð sambandsins, leggja einnig mjög ríka áherslu á rétt ríkjanna til þess að reka útvarp í almannaþágu og rétt einstakra ríkja til þess að skilgreina hlutverk þess. Loks hafa menningarmálaráðherrar Norðurlanda á síðustu árum lýst yfir stuðningi við útvarp í almannaþágu.
    Þar sem ríkið rekur útvarpsstarfsemi verður að gera þá kröfu að sá rekstur sé eins hagkvæmur og við verður komið. Þykir þetta best verða gert þannig að fjárhagslegum rekstri fyrirtækisins verði hagað sem líkast rekstri einkafyrirtækis. Það er þekkt víða í Evrópu að ríkisútvarpsstöðvarnar séu reknar af sjálfstæðum félögum. Af Norðurlöndunum má nefna að í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð hafa verið stofnuð hlutafélög um rekstur ríkisútvarpsstöðvanna (í Svíþjóð eru hlutafélögin að vísu í eigu sérstakra stofnana). Í Danmörku er Danmarks Radio sjálfstæð ríkisstofnun með sama hætti og íslenska Ríkisútvarpið er nú.
    Helstu kostir þess að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins í hlutafélagsform þykja vera þessir: Ábyrgð stjórnenda verður aukin og þeir verða sjálfstæðari í störfum sínum. Með breytingu í hlutafélag gefst færi á að skilgreina verkaskiptingu á milli daglegra stjórnenda og stjórnar. Í frumvarpinu hefur verið leitast við að skerpa nokkuð skilgreininguna á verkaskiptingunni milli framkvæmdastjóra (útvarpsstjóra) og samstarfsmanna hans og stjórnar (9. og 10. gr.).
    Þá þarf hið nýja hlutafélag að skilja á milli fjárhags þess hluta starfseminnar sem fellur undir skilgreiningu 3. gr. um útvarp í almannaþágu og þess hluta starfseminnar sem fellur ekki undir þessa skilgreiningu og er jafnvel í beinni samkeppni við aðra aðila, sbr. 4. og 5. gr. Hins vegar getur sum starfsemi eða þjónusta verið þess eðlis að hún fellur undir skilgreininguna um útvarp í almannaþjónustu en er jafnframt í samkeppni við aðra aðila. Verður t.d. að telja netþjónustu Ríkisútvarpsins rúmast innan hugtaksins útvarp í almannaþágu skv. 3. gr. en sjálfsagt getur það breyst í tímans rás hvers konar rekstur verður almennt talinn geta flokkast undir útvarpsþjónustu í almannaþágu. Ekki má nota fjármuni frá rekstri skv. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað af rekstri sem ekki flokkast undir útvarp í almannaþágu.
    Að sjálfsögðu er þó ekki gert ráð fyrir því í frumvarpi þessu að Ríkisútvarpið geti eftir rekstrarformsbreytingu ráðist í verkefni sem eru alls óskyld grundvallarhlutverki þess, en hins vegar er beinlínis gert ráð fyrir því að fyrirtækið geti eitt sér eða í samvinnu við aðra rekið starfsemi sem fellur ekki undir skilgreiningu 3. gr., sbr. 4. gr., en þá er mælt fyrir um það að slíkur rekstur verði fjárhagslega aðskilinn grunnrekstri félagsins, sbr. 5. gr. Aukið sjálfstæði félagsins og svigrúm þess til athafna á svo að skila sér til allra starfsmanna þess í betri möguleikum til framtaks í starfi og þar með áhugaverðari starfsvettvangi. Þykja þannig öll rök mæla með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag þó að ríkið verði áfram eigandi félagsins.

4. Tekjustofnar fyrirtækisins.
    Það er mjög mismunandi meðal Evrópuríkja hvaða tekjustofnar eru fengnir útvarpsstöðvum sem flokkaðar eru undir opinber þjónustufyrirtæki. Algengasti tekjustofninn er leyfisgjald (afnotagjald) sem styðst venjulega við eign á sjónvarpsviðtæki. Einnig tíðkast leyfisgjald ásamt sérstöku gjaldi til ríkisútvarpsstöðva („public service“ gjalda sem stundum a.m.k. eru lögð á aðrar útvarpsstöðvar), sömuleiðis leyfisgjald og auglýsingatekjur eða auglýsingatekjur ásamt greiðslum af fjárlögum. Oftast er um það að ræða að tekjustofnarnir séu fleiri en einn og er algengasta samsetningin leyfisgjald (afnotagjald) og auglýsingatekjur.
    Ekki eru í sjónvarpstilskipunum Evrópusambandsins nein fyrirmæli eða ráðagerðir sem takmarka heimildir aðildarríkjanna til fjármögnunar á starfsemi útvarpsstöðva í eigu opinberra aðila. Er hér um að ræða tilskipanir 89/552/EBE, sem breytt var með tilskipun 97/36/ EB, en um tilskipanir þessar var ítarlega fjallað í greinargerð frumvarpsins til útvarpslaga, nr. 53/2000. Á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins, sem haldin var í Amsterdam í júnímánuði 1997, var samþykkt sérstök bókun um útvarpsþjónustu í almannaþágu í aðildarríkjunum („Protocol on the System of Public Broadcasting in the Member States“). Í bókun þessari lýstu Evrópusambandsríkin yfir þeirri skoðun sinni að útvarpsþjónusta í almannaþágu í aðildarríkjunum tengdist með beinum hætti lýðræðislegum, félagslegum og menningarlegum þörfum þjóðfélaganna og þeirri þörf að viðhalda fjölbreytni í fjölmiðlun. Evrópusambandsríkin komu sér í bókun þessari saman um eftirfarandi túlkunarreglur sem bætt var við stofnsáttmála Evrópusambandsins þegar Amsterdamsáttmálinn tók gildi 1. maí 1999: „Ákvæði stofnsáttmálans um Evrópusambandið skulu engin áhrif hafa á heimildir aðildarríkjanna til þess að gera ráðstafanir til tekjuöflunar fyrir útvarp í almannaþágu („public service broadcasting“) að svo miklu leyti sem þeim tekjum er veitt til útvarpsstöðva til þess að þær inni af hendi þau verkefni í almannaþágu, sem þeim eru falin, skilgreind og skipulögð hjá hverju aðildarríki fyrir sig, og að því leyti sem tekjuöflunin hefur ekki áhrif á viðskiptaskilyrði og samkeppni innan sambandsins í þeim mæli að brjóti í bága við sameiginlega hagsmuni jafnframt því sem tekið skal tillit til þeirrar ætlunar að um sé að ræða starfsemi í almannaþágu.“
    Í þessari bókun felst að ákvarðanir um tekjuöflun til útvarps í almannaþágu („public service broadcasting“) verði að mestu leyti látnar vera á valdsviði hvers aðildarríkis, eins og verið hefur. Búast má við að ákvæði EES-samningsins verði túlkuð með svipuðum hætti.
    Hér á landi hefur það fyrirkomulag verið tíðkað lengi að Ríkisútvarpið fái greidd afnotagjöld og samkvæmt útvarpslögum er þetta gjald, útvarpsgjald, lagt á eigendur útvarpsviðtækja (2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000). Einnig hefur Ríkisútvarpið tekjur af auglýsingum, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um Ríkisútvarpið. Í framkvæmd hefur stofnunin einnig tekjur af þáttum sem í þessu tilliti er jafnað til auglýsinga, svo sem af kostun einstakra dagskrárliða, og fjarsölu. Lengi vel hafði Ríkisútvarpið einnig tekjur af aðflutningsgjöldum af útvarpsviðtækjum og hlutum í þau, en sá tekjustofn var felldur niður með 3. gr. laga nr. 144/1995.
    Allt frá upphafi sjónvarpsreksturs á árinu 1966 hafa verið leyfðar auglýsingar í sjónvarpi Ríkisútvarpsins og stofnunin haft af þeim tekjur. Sú ráðstöfun hefur ætíð verið nokkuð umdeild. Í upphafi var hún gagnrýnd af dagblöðunum sem töldu með þessu vegið að tekjuöflunarmöguleikum sínum. Á síðari árum hefur gagnrýnin einkum komið frá keppinautum á sjónvarpsmarkaði sem einnig hafa gagnrýnt lögbundið afnotagjald til Ríkisútvarpsins. Í skýrslu starfshóps um endurskoðun á útvarpslögum frá 1996 kom fram sú tillaga meiri hluta starfshópsins að Ríkisútvarpið hyrfi alveg af auglýsingamarkaði. Var augljóslega á því byggt í skýrslunni, að því er sjónvarpsstöðvar varðar, að í vændum væri mikil samkeppni milli einkarekinna sjónvarpsstöðva. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin.
    Ef sjónvarp Ríkisútvarpsins hyrfi af auglýsingamarkaði við núverandi aðstæður yrði í reynd engin samkeppni um auglýsingaframboð í sjónvarpi. Það yrðu nánast tveir aðilar sem eftir yrðu á auglýsingamarkaði í sjónvarpi (365 ehf. með Stöð 2 og Sýn annars vegar og Íslenska sjónvarpsfélagið ohf. með Skjá einn hins vegar). Hver sem þróunin kann að verða í framtíðinni þykir ekki rétt að leggja það til nú að hætt verði auglýsingum í sjónvarpi Ríkisútvarpsins.
    Önnur sjónarmið koma hins vegar til álita um auglýsingar í hljóðvarpi en eiga við um auglýsingar í sjónvarpi. Á hljóðvarpssviðinu er veruleg samkeppni, en hún er hins vegar að mestu leyti bundin við þéttbýlissvæði. Hljóðvarpsstöðvum hefur yfirleitt ekki tekist að byggja upp dreifikerfi sín þannig að þær nái til landsins alls, trúlega vegna þess að auglýsingatekjur þeirra hafa ekki leyft slíkar fjárfestingar. Í þessu frumvarpi er ekki gerð tillaga um að Ríkisútvarpinu ohf. verði bannað að afla tekna með auglýsingum í hljóðvarpi. Kemur þar fyrst og fremst tvennt til. Í fyrsta lagi þarf að taka slíka ákvörðun með góðum fyrirvara svo að þeir aðilar, sem fyrir eru á markaðnum, og aðilar, sem við breyttar aðstæður gætu haft hug á að fara inn á markaðinn, hafi nægan tíma til þess að laga sig að nýju umhverfi. Í öðru lagi hefur hljóðvarp Ríkisútvarpsins svo mikla útbreiðslu að ótækt þykir að svipta viðskiptalífið og allan almenning svo öflugum auglýsingamiðli án þess að gerðar hafi verið aðrar ráðstafanir sem líklegar séu til þess að bæta upp þann missi – og þá með það einnig í huga að búið verði í haginn fyrir samkeppni á þessum markaði. Eins og málum er nú háttað verður naumast hjá því komist að líta á auglýsingaþjónustu í hljóðvarpi Ríkisútvarpsins sem þátt í opinberu þjónustuhlutverki þess. Þykir af framangreindum ástæðum ekki fært að leggja það til nú að auglýsingum verði hætt í hljóðvarpi Ríkisútvarpsins.
    Afnotagjald Ríkisútvarpsins hefur einnig verið umdeildur tekjustofn. Þeir sem andvígir eru opinberum útvarpsrekstri hafa andmælt gjaldinu sem gjaldtöku fyrir þjónustu sem þeir óski ekki eftir. Er sú röksemd skiljanleg þegar litið er á hana frá sjónarhóli þeirra sem telja ekki þörf fyrir það að ríkið standi að rekstri fjölmiðla. Einnig hafa ýmsir þeir sem aðhyllast eða geta sætt sig við útvarpsrekstur ríkisins látið í ljós efasemdir um að innheimta afnotagjalds sé eðlilegasta leiðin til tekjuöflunar fyrir Ríkisútvarpið. Starfshópur sá um endurskoðun á útvarpslögum, sem fyrr er nefndur, lagði t.d. til að afnotagjaldakerfi og innheimtukerfi Ríkisútvarpsins í núverandi mynd yrði lagt niður, enda væri sú skipan í senn þunglamaleg, kostnaðarsöm og óskilvirk. Lagði starfshópurinn til að Ríkisútvarpinu yrðu fengnar tekjur með nefskatti, innheimtum af landsmönnum öllum eldri en sextán ára og af öllum lögaðilum í landinu. Til vara lagði starfshópurinn til að Ríkisútvarpið yrði flutt frá B-hluta og yfir á A-hluta ríkisreiknings þannig að rekstur stofnunarinnar byggðist á framlagi fjárveitingavaldsins samkvæmt samþykkt fjárlaga hverju sinni.
    Við samningu frumvarps þessa hefur fjármögnun á rekstri Ríkisútvarpsins komið til nýrrar skoðunar. Er það niðurstaða ráðuneytisins að leggja til að fjármögnun í formi afnotagjalds verði felld niður frá 1. janúar 2009, en í þess stað komi sérstakt gjald sem leggst á skattskylda einstaklinga og lögaðila, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Þessi niðurstaða styðst aðallega við þrenns konar rök. Í fyrsta lagi hefur þessi leið í för með sér sparnað þar sem sérstakur kostnaður við innheimtu afnotagjalds fellur niður. Í öðru lagi fylgir sá annmarki núverandi fyrirkomulagi að allir þeir sem gerast áskrifendur að einkarekinni sjónvarpsstöð og kaupa sér sjónvarpstæki til þess að njóta þjónustu hennar verða sjálfkrafa greiðendur afnotagjalda til Ríkisútvarpsins þar sem greiðsla afnotagjaldsins er bundin við eign á viðtæki. Með því að afnema tengsl viðtækjaeignar við greiðslu til Ríkisútvarpsins eru hin neikvæðu áhrif á viðskipti sjónvarpsnotenda við einkaaðila upprætt að þessu leyti. Í þriðja lagi leiðir breytingin til þess að kostnaður hinna tekjulægstu einstaklinga við að njóta útvarps í almannaþágu fellur niður. Alls leggst gjaldið á um 160.000 einstaklinga á aldursbilinu 16–70 ára og um 22.000 lögaðila. Gjaldið lýtur sömu lögmálum og sérstakt gjald sem lagt er á samkvæmt lögum um málefni aldraðra til tekjuöflunar fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra. Tekjutenging gjaldsins þýðir að tekjulausir eða tekjulágir einstaklingar greiða ekkert gjald, sbr. lög nr. 125/1999.
    Á árinu 2004 námu afnotagjöld tæplega 2,4 milljarði króna af tæplega 3,4 milljarða króna rekstrartekjum Ríkisútvarpsins, eða rúmlega 70% af rekstrartekjum. Var hlutur afnotagjalda af rekstrartekjum Ríkisútvarpsins á árinu 2004 lítið eitt hærri en á árinu 2003. Aðrar tekjur Ríkisútvarpsins á árinu 2004 (auglýsingatekjur, kostunartekjur og ýmsar tekjur) námu um 988 milljónum króna.

5. Yfirlit yfir rekstrarform ríkisfjölmiðla annars staðar á Norðurlöndum, í Stóra Bretlandi, Hollandi og Austurríki.
Danmarks Radio (DR), Danmörku.
    Danmarks Radio er fjárhagslega sjálfstæð ríkisstofnun sem hefur megintekjur sínar af afnotagjöldum (skylduáskrift) en fær engar auglýsingatekjur. Upphæð afnotagjalds er ákvörðuð af danska þinginu til fjögurra ára í senn. Í stjórn DR sitja 10 manns sem valdir eru til fjögurra ára í senn, þar með talinn formaðurinn sem er tilnefndur af menntamálaráðherra, þrír eru skipaðir af menntamálaráðherra, sex kosnir af þinginu og einn ráðsmaður er fulltrúi starfsmanna stofnunarinnar. Útvarpsráð ber ábyrgð á dagskránni og að útvarpslögum sé framfylgt. Ráðið setur leiðbeinandi reglur um starfssemi DR og ræður útvarpsstjóra og aðra fulltrúa í framkvæmdastjórn sem annast daglega stjórn.

Norsk Rikskringkasting AS (NRK), Noregi.
    Norska ríkisútvarpinu var með lögum frá 1996 breytt í hlutafélag með takmarkaða ábyrgð. Hlutafélagið um NRK, sem er að fullu í eigu norska ríkisins, er stofnað samkvæmt sérákvæði í norskum hlutafélagalögum um hlutafélög í eigu ríkisins. Samkvæmt norskum hlutafélagalögum er heimilt að stofna hlutafélög með takmarkaðri ábyrgð sem eru að öllu leyti í eigu norska ríkisins. Að öðru leyti gilda almenn ákvæði hlutafélagalaga um slík ríkishlutafélög, þ.m.t. NRK. Útvarpsráð NRK er skipað níu mönnum, þar af þremur fulltrúum starfsmanna. Það hefur engin afskipti af daglegum rekstri. Formaður, varaformaður og fjórir ráðsmenn eru valdir á aðalfundi NRK. Ráðið skipar útvarpsstjóra sem jafnframt er framkvæmdastjóri. Útvarpsráðið gerir tillögur að stefnu til að leggja fyrir aðalfund um rekstur NRK og dótturfélaga þess, auk tillagna um fjárhæð afnotagjalds. Fulltrúar menningarmálaráðuneytisins og norska þingsins sækja aðalfund NRK. Ráðuneytið fer með löggjöf um útvarpsmál, reglugerðir og innheimtu útvarpsgjalds. NRK fær tekjur sínar af afnotagjöldum (skylduáskrift) og eru auglýsingar bannaðar. Ýmiss konar kostun á tilteknu efni er leyfileg.

Sveriges Radio/Television/Utbildingsradion (SR), Svíþjóð.
    Frá árinu 1994 er almannaútvarpi í Svíþjóð skipt í þrjú hlutafélög með takmarkaða ábyrgð (Sveriges Radio AB, Sveriges Television AB og Utbildningsradion AB) og fer eignarhaldsfélag/sjálfseignarstofnun (Förvaltningsstiftelsen) með eignarhald og yfirstjórn þeirra allra. Ríkisstjórnin skipar 11 manna stjórn Förvaltningsstiftelsen að fengnum tilnefningum þingflokka; formaður er skipaður til fjögurra ára en aðrir stjórnarmenn til 8 ára. Stjórnarmenn eru þó ekki allir skipaðir frá sama tíma heldur er helmingi stjórnar skipt út í kjölfar þingkosninga til að tryggja að kosningaúrslit endurspegli ekki stjórnarskipan á hverjum tíma. Eignarhaldsfélagið skiptir sér ekki af innra skipulagi útvarpsfyrirtækjanna heldur hafa þau hvert um sig eigin stjórn. Svo dæmi sé tekið er stjórn sænska ríkisútvarpsins (Sveriges Radio) skipuð 14 einstaklingum og útvarpsstjóri á einnig sæti í stjórn fyrirtækisins. Tveir stjórnarmenn eru skipaðir af ríkisstjórninni, sex af aðalfundi (bolagsstamma) og fjórir af fulltrúum samtaka starfsmanna (blaðamannafélagi o.s.frv.). Almennt hefur fyrirtækið mikið sjálfstæði frá stjórnvöldum en almannaþjónustuhlutverk fyrirtækisins er ítarlega skilgreint og reglulega skilað inn ítarlegum greinargerðum um hvernig gengur að uppfylla það. Í stjórn Sveriges Television sitja sjö einstaklingar, fimm skipaðir af aðalfundi en tveir (þar af formaður) af ríkisstjórn. Fjölmiðlar í eigu sænska ríkisins eru fjármagnaðir með afnotagjöldum og eru auglýsingar bannaðar. Kostun á ýmiss konar efni, t.d. íþróttaviðburðum, er leyfileg.

Rundradion AB (YLE), Finnlandi.
    Finnska ríkisútvarpið, YLE, er hlutafélag með takmarkaða ábyrgð. Finnska ríkið á 99,98% hlut í félaginu, en aðrir hluthafar eru u.þ.b. 60 talsins. Eru aðrir hluthafar að mestu leyti fyrirtæki og samtök, t.d. fjölmiðlar, bankar o.fl. Ástæðan er sú að YLE var upphaflega stofnað árið 1926 sem hlutafélag í eigu einkaaðila. Árið 1934 varð sú breyting á félaginu að ríkið réði ferðinni, þ.e. ríkið skyldi ávallt eiga a.m.k. 90% hlut í félaginu. Með finnsku útvarpslögunum, sem tóku gildi 1. janúar 1994, er ákvæði þess efnis að ríkið skuli ætíð eiga a.m.k. 70% hlut í félaginu. Þess má geta að aðrir hluthafar en ríkið munu allir vera úr hópi upprunalegra eigenda YLE. Æðsta stjórn YLE er 21 manns framkvæmdaráð sem finnska þingið velur í kjölfar þingkosninga. Þann 1. janúar 2006 voru gerðar þær breytingar að framkvæmdaráðið réð sjálfstæða sjö manna stjórn og máttu stjórnarmenn hvorki sitja í framkvæmdaráðinu né vera yfirmenn innan stofnunarinnar. Þessi nýja sjálfstæða stjórn velur útvarpsstjóra og framkvæmdastjóra YLE, samþykkja rekstraráætlanir o.fl. Framkvæmdaráðið tekur ákvarðanir um stefnumótun í fjármálum og starfseminni, sem og ákvarðanir um hvort draga skuli úr tilteknum þáttum starfseminnar, auka við þá eða ráðast skuli í verulegar skipulagsbreytingar. Finnska útvarpið er fjármagnað með afnotagjöldum og eru auglýsingar bannaðar.

British Broadcasting Corporation (BBC), Bretlandi.
    Tilvist og rekstrarform British Broadcasting Corporation (BBC) byggist á konunglegum sáttmála (e. Royal Charter) frá árinu 1926 og hefur það haldið þeirri stöðu til dagsins í dag.
    Að enskum rétti getur drottningin heimilað stofnun fyrirtækis um tiltekinn tíma með konunglegum sáttmála samkvæmt tillögu ráðgjafarnefndar konungdæmisins (e. Privy Council) en slíkt fyrirkomulag rekur sögu sína allt til 13. aldar. Upprunalegur tilgangur Royal Charter var stofnun fyrirtækja, þ.m.t. stofnun borga og bæja, þar sem tilgangur og réttindi fyrirtækjanna voru skilgreind. Nú á dögum eru hinir konunglegu sáttmálar einkum ætlaðir fyrir stofnun fyrirtækja sem starfa í almannaþágu. Sáttmálinn um BBC hefur reglugerðarígildi og rennur út árið 2006. Vegna þessa er ljóst að ekki þarf að breyta lögum til að breyta rekstrarformi BBC. Að íslenskum rétti verður réttarstöðu BBC einna helst líkt við sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri samkvæmt lögum nr. 33/1999. Í því felst m.a. að stofnunin ber ein fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum sínum. Talið er að breytinga sé að vænta við endurskoðun sáttmálans um BBC á næsta ári, einkum í ljósi aukinnar áherslu á þátttöku í samkeppnisrekstri, auk kröfu framkvæmdastjórnar ESB um aðskilnað samkeppnisþátta í starfsemi BBC frá opinberum þjónustuskyldum sem kostaðar eru af leyfisgjaldi (e. TV License). Samningur BBC við bresk stjórnvöld tryggir stofnuninni tekjur af innheimtu leyfisgjalds. Skylduáskrift er að leyfisgjaldinu en auk þess felast tekjur BBC í auglýsingatekjum sem aflað er utan Bretlands og tekjum fyrir ýmiss konar afleidda starfsemi í dótturfyrirtækjum stofnunarinnar. Framkvæmdastjórn BBC telur níu framkvæmdastjóra, auk forstjóra sem er formaður framkvæmdastjórnar. Framkvæmdastjórnin ber ábyrgð gagnvart svonefndu tólf manna stjórnendaráði (e. Board of Governors). Hlutverk þeirra er að fylgjast með starfsemi stofnunarinnar og tryggja sjálfstæði hennar. Stjórnarmenn eru skipaðir af drottningu í samráði við ráðherra ríkisstjórnarinnar. Stjórnendaráð BBC ræður forstjóra og aðra framkvæmdastjóra og ákvarðar laun þeirra. BBC rekur fjölmörg dótturfélög sem mörg eru í samkeppni við einkarekna fjölmiðla á sviði ljósvakamiðla, fréttaþjónustu og ýmiss konar útgáfu. Dótturfélögin eru flest hlutafélög með takmarkaðri ábyrgð.

Nederlandse Omroep Stichting (NOS), Hollandi.
    Í Hollandi eru nokkrar rekstrareiningar sem falla undir stofnunina Nederlandse Omroep Stichting (NOS). Ólíkar rekstrareiningar sem heyra undir stofnunina eru t.d. sjónvarpsstöðvarnar NL1, NL2, NL3 og fimm útvarpsrásir. NOS sendir sjálft út fréttir og íþróttir. NOS er með tíu ára leyfi sem gefið er út með konunglegri tilskipun í tengslum við hollensku fjölmiðlalögin. Í stjórn NOS eru 13 stjórnarmenn sem skipa þriggja manna framkvæmdastjórn með samþykki ráðherra til fimm ára. Í framkvæmdastjórn mega ekki sitja stjórnarmenn NOS. Framkvæmdastjórnin ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar auk dagskrárstefnu NOS. Ríkisstjórnin skipar formann stjórnar. Ráðherra skipar hluta stjórnarinnar og skipa rekstrareiningarnar sem heyra undir NOS sína stjórnarmenn. Stjórnin samþykkir ársreikninga stofnunarinnar og tekur meiri háttar ákvarðanir um stefnu NOS í samræmi við tillögur framkvæmdastjórnarinnar. NOS fær tekjur sínar annars vegar í fjárlögum hollenska ríkisins og hins vegar með auglýsingatekjum.

Öesterreichischer Rundfund (ORF), Austurríki.
    Austurríska ríkisútvarpið, ORF, er skipulagt sem stofnun. Í stjórninni (þ. Stiftungsrat) eru 35 stjórnarmenn sem valdir eru til fjögurra ára í senn. Sex stjórnarmenn eru valdir í hlutfalli við stærð flokkanna á austurríska þinginu. Níu eru valdir af héraðsstjórnum (þ. länder) Austurríkis. Níu eru valdir af ríkisstjórninni, sex af dagskrárráði ORF og fimm eru starfsmenn stofnunarinnar. Stjórnmálamenn eða starfsmenn stjórnmálaflokka mega ekki vera í stjórn ORF. Stjórnarmenn mega heldur ekki vera starfsmenn stofnunarinnar nema þeir fimm sem valdir eru frá ORF. Sérstakar kröfur eru gerðar til stjórnarmanna um þekkingu á ólíkum sviðum, t.d. á austurrísku og alþjóðlegu fjölmiðlaumhverfi, hagfræði, vísindum, menningu o.fl. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra stofnunarinnar til fimm ára. Framkvæmdastjórinn sér um allan daglegan rekstur, en stjórnin er ábyrg fyrir dagskrá ORF. Austurríska ríkisútvarpið skilar skýrslu um það hvernig hún uppfyllir almannaþjónustukröfuna til austurríska þingsins. Öesterreichischer Rundfund er fjármagnað með afnotagjöldum og auglýsingatekjum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er fjallað um eignaraðild að Ríkisútvarpinu ohf. Hefur verið gerð grein fyrir efni 1. gr. í almennu athugasemdunum að framan. Grein þessi felur í sér undantekningu frá þeirri almennu reglu laga nr. 2/1995, um hlutafélög, að hluthafar í hlutafélögum skuli vera tveir hið fæsta. Í þessu hlutafélagi er aðeins einn hluthafi. Mörg fordæmi eru fyrir því að þessi leið sé farin. Þá er einnig gert ráð fyrir því í ákvæðinu að sala félagsins sé bönnuð og eins sala á hluta þess. Í því felst að óheimilt er t.d. að selja dótturfélag sem hefði verið stofnað og yfirtekið hluta af starfsemi hlutafélagsins. Ríkisútvarpinu ohf. er hins vegar frjálst að stofna dótturfélög um ákveðna hluta starfseminnar en er óheimilt að selja þau, til þess þarf nýja sjálfstæða lagasetningu. Ef til sölu ætti að koma dugir því ekki að afla einungis heimildar í fjárlögum.
    Þá er tekið fram í 2. mgr. 1. gr. að Ríkisútvarpinu ohf. sé óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð. Í fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem lagt var fram á síðasta þingi á þskj. 1207, 791. mál, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, lögum um prentrétt, nr. 57/1956, og samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum, og boðað hefur verið að verði lagt fram að nýju, samhliða þessu frumvarpi, er lagt til að lögfest verði sú regla í 2. málsl. lokamálsgreinar nýrrar 6. gr. a útvarpslaga, sbr. 4. gr. frumvarpsins, að Ríkisútvarpinu ohf. sé óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð. Í nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar eftir 2. umræðu um frumvarp um Ríkisútvarpið hf. á síðasta þingi, sem vísað er til í upphafi almennra athugasemda hér að framan, var talið eðlilegt að samhljóða ákvæði yrði bætt við 1. gr. frumvarpsins sem fjallaði um eignaraðild að Ríkisútvarpinu hf. Í nefndarálitinu var því lögð til sú breyting á 1. gr. frumvarpsins um Ríkisútvarpið hf. að í greinina yrði tekinn upp áðurnefndur 2. málsl. lokamálsgreinar 6. gr. a, sbr. 4. gr. fjölmiðlafrumvarps. Þótti fara best á því að skipa öllum ákvæðum í 1. gr. frumvarpsins um Ríkisútvarpið hf. er lytu að eignarhaldi íslenska ríkisins á því, svo og ákvæðum sem banna annars vegar sölu á hlutum í því, sameiningu þess við önnur félög eða slit á því og banna hins vegar Ríkisútvarpinu hf. kaup á hlutum í öðrum fyrirtækjum sem gefa út dagblöð eða reka útvarpsstöðvar. Þá segir í framangreindu áliti meiri hluta menntamálanefndar að ákvæði 1. gr. frumvarpsins þannig orðuð árétti skýrt sérstöðu Ríkisútvarpsins hf. að lögum sem réttlæti að íslenska ríkið sé eini eigandi félagsins sem hafi á hendi útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þessi opinbera þjónusta sem Ríkisútvarpinu hf. sé þannig gert að sinna, svo og ákvæði frumvarpsins um bann við sölu á hlutum í því og kaupum þess á hlutum í dagblöðum og öðrum útvarpsstöðvum, réttlæti einnig að ákvæði fjölmiðlafrumvarps um takmarkanir á eignarhaldi á útvarpsstöðvum gildi ekki um Ríkisútvarpið hf. Þar sem sá munur sem þannig sé gerður á Ríkisútvarpinu hf. og öðrum útvarpsstöðvum byggist samkvæmt framansögðu bæði á málefnalegum og veigamiklum sjónarmiðum, svo og sérstöðu um hlutverk þess og skyldur, fari ákvæði þessi ekki í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er lýst hlutverki Ríkisútvarpsins ohf. Í 1. mgr. kemur fram það meginhlutverk félagsins að reka hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu. Áður hefur verið að því vikið hvað felst í skilgreiningunni á útvarpsþjónustu í almannaþágu. Er stundum í þessu sambandi talað um útvarp með opinbert þjónustuhlutverk, en í báðum tilvikum er vísað til þess sama og þegar á ensku er talað um „public service broadcasting“. Þess háttar útvarpsstöðvar eiga ekki einungis að taka mið af fjárhagslegum ávinningi í rekstri sínum heldur sinna t.d. ýmiss konar menningarlegri starfsemi, rækta þjóðlegan menningararf o.s.frv., sem ekki er víst að útvarpsstöðvar, sem eingöngu eru reknar með viðskiptaleg sjónarmið í huga, telji sér skylt eða fært að sinna með sama hætti. Að vísu er það svo að víða hafa mörkin milli útvarpsstöðva í almannaþágu og útvarps, þar sem viðskiptahagsmunir ráða ferðinni, dofnað mjög þar sem útvarpsstöðvar í almannaþágu flytja að stórum hluta efni sem mjög svipar til efnis annarra útvarpsstöðva, svo sem skemmtiefni af ýmsu tagi. Eftir sem áður eru gerðar meiri kröfur til útvarpsstöðva í almannaþágu um flutning efnis af alvarlegra tagi, sem og til meiri varkárni í fréttaflutningi, kynningu allra sjónarmiða í þjóðfélagsmálum er almenning varða miklu o.s.frv. Annars vísast til þess hluta í almennu athugasemdunum að framan þar sem almennt var fjallað um útvarpsþjónustu í almannaþágu.
    Þá er í þessari grein, sem fjallar auk framangreinds um hlutverk Ríkisútvarpsins ohf., fjallað um þær skyldur félagsins sem leiðir af því hlutverki þess að það reki útvarpsþjónustu í almannaþágu.
    Talið er rétt að skilgreina skyldur Ríkisútvarpsins ohf. nokkru nákvæmar en gert er í gildandi lögum um Ríkisútvarpið, sbr. einkum 3.–5. gr. laganna. Í stórum dráttum má segja að fylgt sé nokkuð hefðbundinni skilgreiningu á skyldum útvarps í almannaþágu: að flutt sé vandað og fjölbreytt dagskrárefni sem nái til allra landsmanna, lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi séu virt, lögð sé rækt við þjóðleg gildi, efnisval sé miðað við þarfir sem flestra þjóðfélagshópa, gætt sé óhlutdrægni, stutt sé við ýmiss konar menningarstarfsemi, haldið sé uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu og starfsemin sé innt af hendi með sem fullkomnustum tæknibúnaði.
    Skal nú vikið að einstökum ákvæðum greinarinnar.
    Ákvæði 1. tölul. er í samræmi við 1. mgr. 3. gr. núgildandi laga.
    Ákvæði 3. tölul. er að formi til nýtt ákvæði og lýsir með almennum orðum skyldu Ríkisútvarpsins ohf. til þess að standa að gerð og dreifingu fjölbreytts og vandaðs dagskrárefnis fyrir sjónvarp og hljóðvarp með tæknilega fullkomnum aðferðum.
    Ákvæði 2. og 4.–9. tölul. eru sama efnis og ákvæði 2.–3. mgr. 3. gr. gildandi laga, en orðalagsbreytingar eru sums staðar gerðar. Ákvæði fyrri málsliðar 2. tölul. er í flestum meginatriðum samhljóða 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga. Í ákvæðinu er mælt fyrir um skyldu félagsins til að senda út til alls landsins en sú breyting lögð til að miða við a.m.k. eina hljóðvarps og sjónvarpsdagskrá í stað tveggja árið um kring. Síðan er tekið fram um skyldu félagsins til þess að birta hluta efnis síns með viðeigandi hætti í öðrum miðlum, þ.m.t. á netinu. Þá er í 8. tölul. tekin berum orðum fram skylda félagsins til þess að flytja efni á sviði íþrótta og annars tómstundastarfs, en slíkt efni er sérstaklega þýðingarmikið fyrir ungt fólk.
    Í 9. tölul. er tekið upp ákvæði fyrri málsliðar 4. mgr. 3. gr. gildandi laga um skyldu til að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs. Síðan er bætt við ákvæði um skyldu félagsins til þess m.a. að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa, en slíkar skyldur verða æ fyrirferðarmeiri í nútímaþjóðfélagi. Sem dæmi um skyldu Ríkisútvarpsins í þessu efni má nefna dóm Hæstaréttar frá 6. maí 1999 í málinu nr. 151/1999: Berglind Stefánsdóttir og Félag heyrnarlausra gegn Ríkisútvarpinu. Í máli þessu var um það deilt hvort Ríkisútvarpinu væri skylt að láta túlka á táknmáli framboðsræður í sjónvarpinu kvöldið fyrir kosningar, um leið og þær færu fram, eða hvort Ríkisútvarpinu væri heimilt að sinna þörfum heyrnarlausra með öðrum aðferðum sem það hugðist beita. Hæstiréttur benti á að það væri óaðskiljanlegur þáttur kosningarréttar, sem verndaður væri í III. kafla stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 og 3. gr. I. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, að sá sem réttarins nyti hefði tækifæri til að kynna sér þau atriði sem kosið væri um. Ljóst þótti að það sé í samræmi við lögákveðið hlutverk Ríkisútvarpsins skv. 15. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985, (nú 3. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000) að það kynni frambjóðendur og stefnumál þeirra fyrir kosningar til Alþingis. Bæri Ríkisútvarpinu ótvírætt að gæta jafnræðis þegar það sinnti þessu hlutverki sínu og lyti sú skylda ekki aðeins að frambjóðendum og þeim stjórnmálaöflum sem í hlut ættu heldur einnig að þeim sem útsendingum væri beint til. Ætti því Ríkisútvarpið að haga gerð og útsendingu framboðsumræðna þannig að aðgengilegt væri heyrnarlausum, sbr. einnig 7. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Þótt játa bæri Ríkisútvarpinu verulegu svigrúmi við tilhögun dagskrár og útsendinga yrðu þær ákvarðanir, sem röskuðu þeim skyldum og réttindum sem mælt væri fyrir um í 15. gr. útvarpslaga (nú 3. gr. laga um Ríkisútvarpið) og 7. gr. laga um málefni fatlaðra, að styðjast við gild málefnaleg rök. Þótti Ríkisútvarpið ekki hafa fært fram nægilega gild og málefnaleg rök til að réttlæta þá mismunun sem fólst í ákvörðun þess, en fyrir lá að tæknilega var vel framkvæmanlegt að hafa þann háttinn á sem krafist var. Einnig var litið til þess að skammur tími var á milli útsendingar og upphafs kjörfundar. Þóttu áfrýjendur eiga rétt á því að kröfur þeirra yrðu teknar til greina við þessar aðstæður. Tilvik það sem um ræðir í máli þessu er vissulega sérstakt. Það getur hins vegar vel orðið til leiðbeiningar í öðrum málum þó að sjálfsögðu verði að meta hvert mál fyrir sig, þar á meðal það hvað teljist vera eðlilegar þarfir.
    10. tölul. kemur í stað 6. mgr. 4. gr. laga um Ríkisútvarpið. Efnislega eru þrjár breytingar gerðar. Hin fyrsta er sú að í stað orðalagsins að Ríkisútvarpið skuli „stefna að því“ að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins er skyldan gerð ótvíræð. Önnur er sú að komið skal upp víðar um landið aðstöðu til útvarps, þ.e. bæði sjónvarps og hljóðvarps, en ekki einungis hljóðvarps, eins og orðað er í gildandi lögum. Þriðja breytingin, sem lögð er til, er á þá leið að þeirri starfsemi, sem um ræðir í greininni, skuli komið upp utan höfuðborgarsvæðisins, en ekki í hverju kjördæmi, og er þessi tillaga gerð sérstaklega með hliðsjón af örri tækniþróun á sviði útvarps og að ekki þurfi að setja upp aðstöðu til dagskrárgerðar í hverjum landsfjórðungi.
    Ákvæði 11. tölul. um skyldu Ríkisútvarpsins ohf. til þess að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps er að formi til nýtt. Þetta hefur þó verið viðurkennt eitt meginhlutverk Ríkisútvarpsins og felst í raun og veru, a.m.k. að verulegum hluta, í 13. gr. útvarpslaga.
    Í 12. tölul., sem er nýtt ákvæði, er mælt fyrir um skyldu félagsins til þess að koma sér upp þeim eignum, föstum og lausum, sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi þess.
    Í 13. tölul. er fjallað um varðveisluskyldu félagsins á þann veg að það varðveiti til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt. Er orðalagið sambærilegt tillögu meiri hluta menntamálanefndar í nefndaráliti eftir 2. umræðu um frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. á síðasta þingi, en þar var þó lagt til að ákvæðið yrði sett í 4. gr. frumvarpsins sem fjallaði um aðra starfsemi Ríkisútvarpsins hf. Við nánari skoðun verður að telja að varðveisluhlutverk Ríkisútvarpsins ohf. á frumfluttu efni þess sé hluti af almannaþjónustuhlutverki félagsins og því er lagt til að þetta ákvæði eigi heima í 3. gr. frumvarpsins sem fjallar um þá þjónustu.
    Í 3. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu ohf. beri að gera sérstakan þjónustusamning um markmið, umfang og nánari kröfur skv. 2. mgr. um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Er það í samræmi við nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar eftir 2. umræðu um frumvarp um Ríkisútvarpið hf. á síðasta þingi. Kom fram í álitinu að til að tryggja mætti frekar framkvæmd eftirlits Ríkisendurskoðunar við endurskoðun og eftirlit með fjárreiðum Ríkisútvarpsins teldi meiri hlutinn rétt að kveðið yrði á um það í frumvarpinu að menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu hf. bæri að gera framangreindan samning þar sem m.a. yrði kveðið á um vægi innlendrar dagskrárgerðar í dagskrá Ríkisútvarpsins hf. Með því að kveða á um skyldu menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins hf. til þess að gera slíkan þjónustusamning í frumvarpinu taldi meiri hlutinn að endanlega yrði tryggt að komið hefði verið til móts við athugasemdir erlendra eftirlitsstofnana um gagnsæi almannaþjónustuhlutverks Ríkisútvarpsins hf. sem kveðið væri á um í 3. gr. frumvarpsins. Enn fremur taldi meiri hlutinn að slíkur samningur væri í samræmi við ákvæði e- liðar 10. gr. frumvarpsins um skyldu stjórnar Ríkisútvarpsins hf. til að gera grein fyrir því í ársskýrslu sinni hvernig tekist hefði að uppfylla lögbundnar skyldur félagsins um útvarp í almannaþágu. Menntamálaráðuneytið og Ríkisútvarpið hafa unnið drög að slíku samkomulagi og fylgja þau með frumvarpi þessu.

Um 4. gr.


    Ákvæði 4. gr. er nýmæli. Í 1. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um heimild til handa Ríkisútvarpinu ohf. til þess að standa að annarri starfsemi sem tengist aðalstarfsemi fyrirtækisins. Getur félagið gert þetta hvort sem er innan eigin vébanda eða með því að standa að öðrum fyrirtækjum í þessu skyni sem félagið á eitt eða með öðrum aðilum. Undir ákvæði þessarar greinar fellur m.a. hvers konar nýsköpunarstarf sem ekki fellur undir skilgreiningu 3. gr. um útvarp í almannaþágu. Þótt aðalstarfsemi Ríkisútvarpsins ohf. sé útvarp í almannaþágu er sú krafa í vaxandi mæli gerð til fyrirtækja, sem reka útvarp af því tagi, að þau séu sem best rekin, veiti öðrum útvarpsstöðvum á markaðnum samkeppni og aðhald og skili jafnvel hagnaði. Þess vegna er nauðsynlegt að veita Ríkisútvarpinu ohf. heimild til að reka starfsemi sem ekki fellur undir skilgreiningu 3. gr. en með fjárhagslegum aðskilnaði frá hinni hefðbundnu starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., sbr. 5. gr.
    Þá segir í 2. mgr. að Ríkisútvarpinu ohf. sé heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að miðla áður framleiddu efni í eigu félagsins, svo sem rituðu máli, hljómplötum, hljóðsnældum, geisladiskum, myndböndum og margmiðlunarefni. Þykir rétt að fella þessa starfsemi undir aðra starfsemi félagsins.
    Í 3. mgr. er tekið fram að Ríkisútvarpinu ohf. sé óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og varðveitt eru hjá félaginu. Við meðferð frumvarps um Ríkisútvarpið ohf. á síðasta þingi komu fram efasemdir í meðferð menntamálanefndar er lutu að 2. málsl. 1. gr. frumvarpsins. Það ákvæði, eins og frumvarp þetta, mælir fyrir um að sala hins nýja hlutafélags eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess sé óheimil. Fram komu efasemdir um að ákvæðið tryggði með óyggjandi hætti að félaginu væri óheimilt að selja ýmsar eignir og hluti sem hafa menningar- og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og verið hafa í vörslum Ríkisútvarpsins og varðveitt af því. Er hér aðallega haft í huga hið mikla safn Ríkisútvarpsins, sem varðveitt er á safnadeild þess, af alls kyns upptökum úr hljóðvarpi og sjónvarpi, kvikmyndum o.fl., sem telja verður að hafi menningar- og sögulegt gildi fyrir þjóðina. Fram kom við meðferð málsins í nefndinni að sala þessara verðmæta væri háð ýmsum lagalegum hindrunum sem leiða mætti af almennum reglum höfundarréttarins sem um þau gilda. Taldi meiri hluti menntamálanefndar að með þeirri breytingu, sem frumvarpið kvæði á um á rekstrarformi Ríkisútvarpsins, færðust þau réttindi sem það hefði haft á þessum verðmætum til hins nýja félags, auk þess sem þær skyldur sem á Ríkisútvarpinu hvíldu gagnvart þeim færðust yfir á herðar félagsins. Til þess að eyða framkomnum efasemdum taldi meiri hlutinn engu síður ástæðu til að kveða sérstaklega á um það í frumvarpinu að Ríkisútvarpinu hf. væri óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hefðu slíkt gildi fyrir þjóðina og varðveitt væru hjá Ríkisútvarpinu hf. Slíkt ákvæði girti fyrir að áðurnefnd verðmæti yrðu seld út úr hinu nýja félagi og líta yrði svo á að aðgangur almennings að þeim yrði óbreyttur frá því sem verið hefði á síðustu árum og áratugum. Lagði meiri hlutinn því til að nýju ákvæði þess efnis yrði bætt við 4. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Um þessa grein vísast til 3. kafla í almennum athugasemdum. Í greininni felst það nýmæli að krafist er fjárhagslegs aðskilnaðar milli starfsemi sem fellur undir skilgreiningu 3. gr. um útvarp í almannaþágu og allrar annarrar starfsemi þar á meðal starfsemi sem telst til samkeppnisrekstrar. Nánari umfjöllun um efni þessarar greinar er að finna í almennum athugasemdum, einkum 1. og 3. kafla.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. frumvarpsins er tekið upp óbreytt efni 5. mgr. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið þess efnis að efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins ohf., skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni, og önnur atriði tengd þessu fyrirmæli. Þessi áskilnaður er í samræmi við núgildandi ákvæði útvarpslaga, nr. 53/2000. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa að öðru leyti.

Um III. kafla.


    Í þessum kafla frumvarpsins er mælt fyrir um stjórnskipulag Ríkisútvarpsins ohf.
    Samkvæmt 8. gr. fer menntamálaráðherra með eignarhlut ríkisins í félaginu. Hann kýs stjórn félagsins í samræmi við hlutbundna kosningu Alþingis. Félagsfundir fara með æðsta vald í málefnum félagsins. Stjórn þess fer með málefni félagsins á milli félagsfunda. Stjórnin skal skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara, sbr. 1. mgr. 8. gr.
    Undir stjórn félagsins heyrir útvarpsstjóri, sem ráðinn er af stjórninni, og er hann æðsti yfirmaður alls daglegs rekstrar á vegum félagsins, jafnt á sviði framkvæmdastjórnar sem á sviði dagskrárgerðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn félagsins og skiptir með þeim verkum í samræmi við skipurit félagsins sem stjórn félagsins ákveður, sbr. 2. mgr. 10. gr

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa en fram eru komnar í athugasemdum um þennan kafla frumvarpsins og í 2. kafla í hinum almennu athugasemdum.

Um 8. gr.


    Í þessari grein er leitast við að treysta sjálfstæði stjórnar félagsins með tvennum hætti. Þannig miðar 1. mgr. að því að treysta sjálfstæði stjórnarinnar gagnvart framkvæmdarvaldinu, en 2. mgr. leitast m.a. við að treysta sjálfstæði gagnvart öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eða fjölmiðlatengdum fyrirtækjum.
    Í ákvæðinu er gert er ráð fyrir því að stjórn félagsins verði kosin á aðalfundi sem haldinn skuli í síðasta lagi fyrir lok maímánaðar ár hvert. Alþingi skal fyrir þann tíma hafa kosið menn til setu í stjórninni.
    Hvað varðar 2. málsl. 2. mgr. er hér í raun um hæfisreglu að ræða sem tengd er almennum neikvæðum hæfisreglum hvað varðar stjórnarsetu. Þannig verður almennt að telja að einstaklingar, sem beint eða óbeint inna af hendi störf, taka við greiðslum eða hafa hagsmuna að gæta í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eða fjölmiðlatengdum fyrirtækjum en Ríkisútvarpinu ohf., geti ekki gætt hagsmuna félagsins hvað varðar skyldur þess til útvarps í almannaþágu.

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar er lýst starfssviði stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. í meginatriðum. Meðal annars er í 1. mgr. nefnt að ráða útvarpsstjóra og veita honum lausn frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör, að taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, sem ekki falla undir daglegan rekstur, að samþykkja fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár o.s.frv., og annast önnur verkefni eins og ákveðið verður í samþykktum félagsins, sbr. lög nr. 2/1995. Þá er enn fremur lögð sú skylda á stjórn félagsins að skila til aðalfundur greinargerð um það hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur félagsins um útvarp í almannaþágu.
    Í 2. mgr. er svo heimilað að skilgreina nánar starfssvið stjórnarinnar í samþykktum félagsins. Þannig er ekki mælt með tæmandi hætti fyrir um starfssvið stjórnar heldur er gert ráð fyrir að því verði gerð nánari skil í samþykktum.

Um 10. gr.


    Hér eru fyrirmæli um útvarpsstjóra og starfssvið hans. Í því sem mestu skiptir er starfssvið útvarpsstjóra óbreytt frá gildandi lögum. Hann er framkvæmdastjóri félagsins og gilda um þann hluta almennar reglur um störf framkvæmdastjóra. Auk þess er útvarpsstjóri æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar á vegum Ríkisútvarpsins ohf. Í stórum dráttum er ákvæði 1. mgr. 10. gr. í samræmi við gildandi lög, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. laga um Ríkisútvarpið. Þó er sjálfstæði útvarpsstjóra og starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf. yfirleitt aukið í sambandi við dag skrárgerð þar sem útvarpsráð er lagt niður og þar með hætt afskiptum þess af útvarpsefni, sbr. nú 8. gr. laga um Ríkisútvarpið.
    Í 2. mgr. er tekið fram að útvarpsstjóri ráði aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. Er hér um að ræða verulega breytingu frá núverandi fyrirkomulagi, sbr. 6. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið þar sem segir að framkvæmdastjórar deilda, sbr. 4. mgr. 9. gr., séu ráðnir af menntamálaráðherra að fengnum tillögum útvarpsstjóra og útvarpsráðs, og útvarpsstjóri ráði starfsfólk dagskrár að fengnum tillögum útvarpsráðs. Skv. 2. mgr. á útvarpsstjóri að vera algjörlega sjálfstæður í ráðningum starfsmanna félagsins, þó fyrst um sinn með þeim fyrirvara að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II skal Ríkisútvarpið ohf. bjóða störf öllum starfsmönnum Ríkisútvarpsins.
    Að öðru leyti vísast til 8. tölul. í lýsingunni á meginefni frumvarpsins í 2. kafla almennu athugasemdanna.

Um 11. gr.


    Í 4. kafla hinna almennu athugasemda við frumvarpið (Tekjustofnar fyrirtækisins) var gerð grein fyrir því að í frumvarpi þessu er á því byggt að frá og með 1. janúar 2009 verði hætt að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins með afnotagjöldum (útvarpsgjaldi). Vísast til þess sem þar sagði um þessa breytingu og rökin fyrir henni.
    Í samræmi við þessa breytingu er í 11. gr. frumvarpsins lagt til að frá og með 1. janúar 2009 skiptist tekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf. í þrennt:
     1.      Sérstakt gjald sem lagt verður á einstaklinga og lögaðila.
     2.      Tekjur af auglýsingum og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess í útvarpi og öðrum miðlum.
     3.      Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.
    Tekjur skv. 1. tölul 1. mgr. ákvæðisins yrðu miðað við nýlega 8% hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins 14.580 kr. af hverjum gjaldanda og mundu skila alls um 2.770 milljónum kr. miðað við full skil, en á árinu 2005 skiluðu afnotagjöld Ríkisútvarpsins um 2.500 milljónum kr. Eðlilegt er að fjárhæð nefskattsins verði endurskoðuð þegar nær dregur því að breyting á tekjustofnum Ríkisútvarpsins ohf. kemur til framkvæmda. Almennt mætti þó miða við að haga skattlagningunni þannig að hvert þriggja manna heimili yrði nokkurn veginn jafnsett eftir sem áður, sem mundi þýða að gjaldið lækkaði fyrir fámennari heimili, en hækkaði fyrir heimili þar sem fullorðnir einstaklingar 16 ára og eldri væru 4 eða fleiri. Væntanlega næði gjaldið ekki til námsmanna sem væru 16 ára og eldri þar sem almennt má gera ráð fyrir að þeir falli undir þau tekjumörk sem ákvæðið tekur mið af, sbr. lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
    Hvað varðar ráðstöfun á tekjum skv. 1. tölul. 1. mgr. ber að taka fram að Ríkisútvarpið ohf. verður fyrst og fremst útvarp í almannaþágu, sbr. 3. gr. frumvarps þessa. Komi hins vegar til annarrar starfsemi af hálfu félagsins, sem tengist fyrrgreindri meginstarfsemi, þarf að halda fjárreiðum vegna þess rekstrar aðskildum, þar á meðal starfsemi sem fellur undir samkeppisrekstur. Á grundvelli samkeppnissjónarmiða verður félaginu óheimilt að nota tekjur sínar til að greiða niður kostnað af öðrum rekstri, enda sé ekki um að ræða starfsemi sem telst til útvarps í almannaþágu í skilningi 3. gr. frumvarpsins.
    Hvað varðar 2. tölul. 1. mgr. er lagt til að heimilt sé að birta auglýsingar er tengjast dagskrárefni þess í útvarpi og öðrum miðlum. Hér er um að ræða breytingu frá gildandi rétti, en þar er heimil gjaldtaka fyrir auglýsingar í „hljóðvarpi og sjónvarpi“. Ástæða þykir að kveða með skýrum hætti á um það að Ríkisútvarpinu ohf. verði heimilt að birta auglýsingar í öðrum miðlum en útvarpi að teknu tilliti til niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3845/2003. Í málinu var kvartað yfir því að Ríkisútvarpið notaði tekjur sínar til þess að byggja upp vefinn www.ruv.is, en hluti hans væri fjármagnaður með afnotagjöldum á sjónvarp og útvarp. Niðurstaða umboðsmanns var m.a. sú að sala Ríkisútvarpsins á auglýsingum til birtingar á heimasíðunni gæti ekki talist heimil gjaldtaka fyrir auglýsingar í „hljóðvarpi og sjónvarpi“ skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 122/2000.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að helmingur tekna vegna gjaldsins sé greiddur fyrir fram þann 15. febrúar og 15. maí ár hvert af hálfu fjármálaráðuneytisins. Eftirstöðvar gjaldsins mundu greiðast á tímabilinu frá ágúst til desember í samræmi við innheimtu annarra opinberra gjalda.
    Í 4. mgr. eru fyrirmæli um að setja skuli gjaldskrár fyrir auglýsingabirtingu og aðra skylda tekjustofna og er þar átt við gjaldtöku skv. 15. gr. útvarpslaga. Er það í verkahring stjórnar að setja slíkar gjaldskrár, í reynd auðvitað í samráði við daglega stjórnendur sem fara með auglýsingamál og fjármál fyrirtækisins.

Um 12. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram að um Ríkisútvarpið ohf. gildi að öðru leyti en segir í frumvarpinu lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum. Þarfnast það ekki frekari skýringar. Í 2. mgr. segir síðan að upplýsingalög, nr. 50/1996, gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. Er það í samræmi við nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar eftir 2. umræðu um frumvarp þetta um Ríkisútvarpið hf. á síðasta þingi. Í umræðum um frumvarpið innan nefndarinnar og í umræðum á Alþingi á síðasta þingi var lögð á það þung áhersla að ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, giltu um Ríkisútvarpið hf. Eins og nánar er rakið í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum, nr. 50/1996, gilda lögin einvörðungu um stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga en ekki um hlutafélög og skiptir þar engu þótt hlutafélagið sé að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags. Í ljósi þess að Ríkisútvarpinu hf. væri ætlað að veita útvarpsþjónustu í almannaþágu sem væri í eðli sínu opinber þjónusta taldi meiri hlutinn engu síður rétt að upplýsingalög giltu um starfsemi þess þannig að almenningur gæti fengið aðgang að gögnum mála hjá því í samræmi við ákvæði laganna.

Um 13. gr.


    Ákvæði 1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er lagt til að lög nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, falli úr gildi frá og með 1. janúar 2007. Þótt gildistökuákvæði frumvarps þessa kveði á um að lögin taki þegar gildi þarf að ætla stofnun félagsins og ráðningu framkvæmdastjóra þess ákveðinn tíma, auk yfirfærslu starfsmanna Ríkisútvarpsins frá stofnuninni til félagsins. Því er við það miðað að lögin um Ríkisútvarpið falli úr gildi frá og með 1. janúar 2007 og stofnunin verði lögð niður frá sama tíma. Þó er mælt fyrir um það að þær greinar sem varða álagningu afnotagjalds séu í gildi til 1. janúar 2009, er nýr tekjustofn kemur til, og þær greinar sem varða innheimtu áfallins afnotagjalds séu í gildi til 1. janúar 2012, en skv. 2. mgr. 15. gr. laga um Ríkisútvarpið helst lögveð fyrir afnotagjaldi í þrjú ár frá gjalddaga. Þar sem nauðsynlegt er að hafa ákvæði um innheimtu afnotagjalda, sem falla á í tíð núgildandi laga um Ríkisútvarpið, er lagt til að þau ákvæði verði í sérstökum lögum, lögum um útvarpsgjald og innheimtu þess, á meðan þau ákvæði eru í gildi. Sjá fylgiskjal I.
    Samkvæmt framansögðu mun rekstur félagsins verða fjármagnaður með sérstöku gjaldi sem lagt verður á einstaklinga og lögaðila sem skattskyldir eru skv. 1.–2. gr. laga nr. 90/2003. Þessi breyting mun ekki eiga sér stað strax – gert er ráð fyrir því að hið nýja félag fái tveggja og hálfs árs aðlögunartíma áður en rekstur þess verður alfarið fjármagnaður með framangreindum hætti. Í þessu felst að félaginu verður veittur þriggja ára aðlögunartími, en hann mun fela í sér svigrúm til handa félaginu til að starfa áfram samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, en jafnframt tækifæri til að aðlaga reksturinn hinu nýja umhverfi.
    Í 3. mgr. er sett ákvæði um það að þar sem í öðrum lögum er vísað til Ríkisútvarpsins sé átt við Ríkisútvarpið ohf. Samkvæmt athugun á lagasafni á netinu er vikið að Ríkisútvarpinu á einn eða annan hátt í 10 réttarheimildum í lagasafni auk laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, þ.e.: 8. gr. forsetabréfs nr. 114/1945, um starfsháttu orðunefndar, 28. gr. laga nr. 17/1965, um landgræðslu, 3. mgr. 47. gr. laga nr. 76/1970, um lax og silungsveiði, 4. gr. laga nr. 37/1975, um Leiklistarskóla Íslands, b-lið 1. mgr. 3. gr., 4. mgr. 3. gr., 4. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, 3. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1990, um Íslenska málnefnd, 2. mgr. 86. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, 25. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, 6. og 34. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000, og 10. gr. laga nr. 20/2002, um skylduskil til safna. Samkvæmt framangreindu ákvæði 3. mgr. 13. gr. frumvarpsins ber eftir gildistöku laganna að skilja þau lagaákvæði þar sem talað er um Ríkisútvarpið sem þar sé átt við Ríkisútvarpið ohf.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. fjalla um stofnun hlutafélags um Ríkisútvarpið og eignir og skuldir Ríkisútvarpsins sem ganga til hlutafélagsins. Þegar hefur verið fjallað um þessa formbreytingu og þau atriði sem af henni leiðir, sbr. 3. kafla í hinum almennu athugasemdum að framan um formbreytinguna, 2. kafla almennu athugasemdanna (meginefni frumvarpsins) og athugasemdir um 1. og 2. gr. frumvarpsins. Eins og þegar hefur verið lýst í 3. kafla í hinum almennu athugasemdum er ráðgert að ríkissjóður yfirtaki hlut Ríkisútvarpsins vegna greiðsluþátttöku í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sbr. b-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands.
    Í 3. mgr. er m.a. mælt fyrir um að menntamálaráðherra ákveði heildarfjárhæð hlutafjár í Ríkisútvarpinu ohf. Við stofnun félagsins skuli þó lögð fram a.m.k. 5.000.000 kr. fjárhæð sem hlutafé og skal sú fjárhæð greidd af ríkissjóði eigi síðar en hálfum mánuði eftir skráningu félagsins. Samkvæmt ákvæðinu getur menntamálaráðherra ákveðið að leggja fram hærra hlutafé í upphafi kjósi hann það.
    4. mgr. kveður á um að eftir að lög um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, falla úr gildi 1. janúar 2007, sbr. 2. mgr. 13. gr., taki Ríkisútvarpið ohf. við rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins, og um leið er Ríkisútvarpið lagt niður. Tekur félagið þá m.a. við lögbundnu leyfi Ríkisútvarpsins til útvarpsreksturs. Jafnframt skal Ríkisútvarpið ohf. yfirtaka þær skyldur sem Ríkisútvarpið hefur undirgengist í samningum við þriðju aðila.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Í þessu ákvæði mælir fyrir um réttindi starfsmanna við breytingu Ríkisútvarpsins í hlutafélag. Tilgangur ákvæðisins er að réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins verði við formbreytinguna tryggð með eðlilegum hætti og sambærileg öðrum tilvikum um breytingar á rekstrarformi ríkisstofnana, sbr. ákvæði í frumvörpum um Rafmagnsveitur ríkisins ohf. og Matvælarannsóknir ohf. Ekki er þörf á að setja í lög sérákvæði um starfsmannamál þegar ríkisfyrirtæki eru hlutafélagavædd nema hvað varðar takmörkun á rétti til töku lífeyris úr B-deild LSR samhliða starfi. Um réttarstöðu starfsmanna á þessum tímamótum gilda almenn ákvæði starfsmannalaga og eftir atvikum aðilaskiptalaga. Starfsmannalögin hafa þýðingu að því er varðar starfslok í þjónustu ríkisins, þ.e. hvort starfsmaður getur átt rétt á biðlaunum ef hann fer ekki að vinna hjá hlutafélaginu, en síðarnefndu lögin hafa þýðingu að því er varðar möguleika á áframhaldandi starfi hjá nýju félagi og ýmis atriði varðandi launakjör og starfsskilyrði. Meginreglan er sú að réttur til biðlauna flyst ekki til hlutafélagsins. Í þessu ákvæði er veitt undanþága frá meginreglunni þannig að biðlaunarétturinn flyst til hlutafélagsins og helst þar til 31. desember 2009. Ástæðan fyrir þessu er e.t.v. fyrst og fremst sú að 1. janúar 2009 er ráðgert að taka upp nefskatt í stað afnotagjalda og því má gera ráð fyrir að á því ári verði ljóst hvaða störf í innheimtudeild verði lögð niður. Ákvæðið tekur til allra starfsmanna þar sem ekki þótti rétt að láta það taka til starfsmanna innheimtudeildar einvörðungu, auk þess sem gera má ráð fyrir að flestar skipulagsbreytingar verði komnar fram fyrir árslok 2009.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Hér er gert ráð fyrir að eigi síðar en 30 dögum eftir gildistöku laganna skuli haldinn stofnfundur þar sem menntamálaráðherra kýs stjórn Ríkisútvarpsins ohf. Frá gildistöku laganna og þar til að kosning stjórnarmanna hefur farið fram skal menntamálaráðherra vera í fyrirsvari fyrir Ríkisútvarpið ohf.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.


    Þar sem ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir að útvarpsráð starfi áfram eru hér fyrirmæli um það hvernig umboð þess fellur niður. Er gert ráð fyrir að umboð aðalmanna og varamanna í útvarpsráði, sem síðast voru kjörnir, falli niður við gildistöku laganna.

Um ákvæði til bráðabirgða V.


    Ráðgert er að afnema álagningu útvarpsgjalds 1. janúar 2009. Í ákvæðinu er mælt fyrir um hverjir tekjustofnar hlutafélagsins skuli vera frá gildistöku laganna til og með 31. desember 2008. Eftir þann tíma ber að miða við 12. gr. laganna.



Fylgiskjal I.


Lög um útvarpsgjald og innheimtu þess.



1. gr. (áður 12. gr.)


    Eigandi viðtækis sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins skal greiða afnotagjald, útvarpsgjald, af hverju tæki. Þó skal aðeins greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Afslátt skal veita þeim sem aðeins geta nýtt sér svart/hvíta móttöku sjónvarpsefnis og þeim sem einungis geta nýtt sér hljóðvarpssendingar. Einnig er heimilt að veita fyrirtækjum og stofnunum afslátt vegna fjölda tækja á sama stað. Nánari ákvæði um afslátt og skilgreiningu á heimili skal setja í reglugerð.
    Í reglugerð má ákveða að þeir sem hljóta uppbót á elli og örorkulífeyri skv. 17. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, verði undanþegnir afnotagjöldum. Í reglugerð má einnig ákveða undanþágu blindra manna frá greiðslu afnotagjalds af hljóðvarpi.

2. gr. (áður 13. gr.)


    Eigandi, sem breytir afnotum sínum, sbr. 12. gr., skal tilkynna það Ríkisútvarpinu þegar í stað.
    Hver sá er fæst við sölu viðtækja skal tilkynna innheimtudeild Ríkisútvarpsins í fyrstu viku næsta mánaðar eftir sölumánuð hverjir séu kaupendur. Í tilkynningunni skal greina fullt nafn, nafnnúmer og heimilisfang kaupanda og seljanda, enn fremur aðrar upplýsingar samkvæmt reglugerð.

3. gr. (áður 14. gr.)


    Ríkisútvarpið heldur skrá yfir öll viðtæki sem notuð eru hér á landi og í íslenskum skipum og flugvélum og nota má til móttöku útvarpsefnis.
    Afmá skal viðtæki af skrá ef sönnur, sem innheimtustjóri metur gildar, eru á það færðar að tækið sé orðið ónýtt eða verði af öðrum ástæðum ekki lengur notað til móttöku útsendingar Ríkisútvarpsins.

4. gr. (áður 15. gr.)


    Útvarpsgjaldi ásamt dráttarvöxtum, öðru vangreiðsluálagi og öllum innheimtukostnaði fylgir lögveðsréttur í viðkomandi viðtæki sem helst þótt eigendaskipti verði. Gengur veðið fyrir hvers konar eldri sem yngri samningsveðum, dómveðum og öðrum höftum sem á viðtæki kunna að hvíla, nema eignarréttarfyrirvörum.
    Lögveðið helst í þrjú ár frá gjalddaga.
    Eigendur viðtækja bera ábyrgð á greiðslu útvarpsgjalda af þeim til Ríkisútvarpsins sem á hafa fallið áður en tilkynning um eigendaskipti skv. 13. gr. hefur borist Ríkisútvarpinu.

5. gr. (áður 16. gr.)


    Innheimtustjóri Ríkisútvarpsins skal fullnægja almennum dómaraskilyrðum.

6. gr. (áður 17. gr.)


    Fyrsta virkan dag eftir eindaga leggst á útvarpsgjald 10% álag vegna kostnaðar af innheimtu.
    Lögtaksréttur er fyrir ógreiddum útvarpsgjöldum, álagi skv. 1. mgr., vöxtum og innheimtukostnaði.

7. gr. (áður 18. gr.)


    Innheimtustjóri getur framkvæmt eða látið framkvæma innsiglun á viðtæki:
     1.      ef það er hagnýtt til móttöku án þess að það hafi verið tilkynnt til Ríkisútvarpsins,
     2.      ef vanskil eru orðin á greiðslu útvarpsgjalds,
     3.      ef hlutaðeigandi aðili hefur sagt upp útvarpsnotum.
    Nú eru fyrir hendi skilyrði skv. 1. tölul. 1. mgr. eða gert hefur verið lögtak í viðtæki fyrir vangreiddu útvarpsgjaldi og getur þá innheimtustjóri tekið eða látið taka viðtækið úr vörslu eiganda eða annars vörslumanns.

    Ákvæði 1., 2., 3. og 5. gr. falla úr gildi 1. janúar 2009, en ákvæði 4., 6. og 7. gr. falla úr gildi 1. janúar 2012.



Fylgiskjal II.


(Drög)
Samningur um útvarpsþjónustu í almannaþágu.


     Menntamálaráðuneyti annars vegar og Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) hins vegar gera með sér svofelldan

samning



um útvarpsþjónustu Ríkisútvarpsins ohf. í almannaþágu skv. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf., nr. XX/2006.

1. gr.
Almennt um samninginn.

    Markmiðið með samningnum er að lýsa nánar tilgangi og hlutverki RÚV og þeim kröfum sem gerðar eru til félagsins á grundvelli laganna. Í samningnum er útvarpsþjónusta í almannaþágu skilgreind, m.a. til að afmarka hana frá annarri starfsemi á fjölmiðla- og samkeppnismarkaði.
    RÚV gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Áhersla skal lögð á að miðla íslenskri menningu og skal RÚV vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu.

2. gr.
Almennt um útvarpsþjónustu í almannaþágu.

    Útvarpsþjónusta RÚV í almannaþágu felst í miðlun texta, hljóðs og mynda. RÚV ber að uppfylla menningarlegar, þjóðfélagslegar og lýðræðislegar þarfir í íslensku samfélagi með þeim tæknilegu aðferðum sem hagkvæmt er að nota hverju sinni.
    RÚV skal með vönduðum hætti miðla fréttum, upplýsingum, menningarefni, fræðsluefni, íþróttum og afþreyingu.
    RÚV skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu og menningu. Það skal reyna til hins ýtrasta að miðla íslensku máli þannig að hlustendur, lesendur og áhorfendur geti treyst því að tal og texti sé ávallt á lýtalausri íslensku.
    RÚV skal hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi. Félagið skal leitast við að virkja aðra til samstarfs með það að markmiði að efla slíka miðlun.
    RÚV skal ávallt flytja fréttir og fréttatengt efni af sanngirni og hlutlægni. Halda skal í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Fjalla skal um umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni af nákvæmni og óhlutdrægni.
    RÚV skal veita fötluðum aðgang að útvarpsþjónustu í almannaþágu með því að nýta tæknimöguleika, svo sem með textun á sjónvarpsefni, með textavarpi og á vefsvæði sínu. Fjöldi textaðra klukkustunda skal aukast að lágmarki um um 100% frá upphafi samningstímabilsins til loka þess (úr 167 klst. í 334 klst.). Stefnt skal að því að öll forunnin innlend dagskrá verði textuð í lok samningstímabilsins. Þá skal hlutfall útsendinga á táknmáli vera a.m.k. hið sama og við upphaf samningstímabilsins. Einnig skal táknmálstúlkun fylgja sjónvarpsumræðum í aðdraganda kosninga.

    RÚV skal miðla efni sem höfðar til ólíkra hópa þjóðfélagsins. Efnið skal endurspegla margbreytileika menningar á Íslandi, lífsviðhorf og lífsskilyrði fólks í öllum landshlutum.
    RÚV skal fjalla um fjölþjóðlegt samfélag á Íslandi. Þá skal RÚV leitast við að sinna þörfum íbúa frá öðrum löndum m.a. með fréttum og upplýsingum á erlendu tungumáli.
    RÚV skal nýta nýjustu tækni í útsendingum og þjónustu hverju sinni til að auðvelda notendum aðgang að útvarpsþjónustu í almannaþágu.
    Útsending RÚV skal vera a.m.k. tvær hljóðvarpsdagskrár og ein sjónvarpsdagskrá auk svæðisútvarps árið um kring. RÚV skal hafa frumkvæði að því að nýta nýja tækni til útsendinga.
    RÚV skal setja sér dagskrárstefnu er taki til allra sviða miðlunar. Í þeirri stefnu skulu koma fram áherslur stofnunarinnar í efni dagskrár og þjónustu við notendur.
    Útvarpsstjóri skal setja reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttastofu. Reglurnar skulu samdar í samráði við félag fréttamanna á RÚV. Í reglunum skal m.a. fjallað um: starfsskilyrði stjórnenda fréttastofu og fréttamanna við að framfylgja dagskrárstefnu útvarpsstöðvarinnar; starfshætti sem ætlað er að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttamanna gagnvart eigendum útvarpsstöðvarinnar; skilyrði áminningar og brottvikningar fréttamanna.
    RÚV skal móta reglur um móttöku erinda sem lúta að útvarpsþjónustu í almannaþágu og hvernig afgreiðslu slíkra erinda skuli háttað.
    RÚV skal leitast við að kanna með reglubundnum hætti viðhorf almennings til dagskrárefnis og efnistaka með það fyrir augum að geta lagað dagskrá sína sem best að þörfum og óskum almennings í landinu.

Útvarpsþjónusta í almannaþágu á veraldarvefnum.


    RÚV skal miðla m.a. fréttum, fræðsluefni, dagskrá og upplýsingum um einstaka dagskrárliði á vefsvæði sínu eftir því sem réttindi leyfa. Á vefsvæði RÚV skal veita ýmiss konar þjónustu í því skyni að notendur hafi ávallt greiðan aðgang að því efni sem til er.

Útvarpsþjónusta í almannaþágu á textavarpinu.


    Í textavarpi skal miðla m.a. fréttum, textun á efni, dagskrá og upplýsingum um dagskrá og einstaka dagskrárliði.

3. gr.
Sjónvarps- og hljóðvarpsefni.

Íslenskt efni.
    RÚV skal leggja áherslu á íslenskt sjónvarpsefni og skal hlutfall þess á kjörtíma, á milli kl. 19.00 og 23.00, vera 65% við lok samningstímans sem er tæplega 50% aukning frá árinu 2005 en þá var hlutfallið 44%.
    RÚV er skylt að senda út fréttir og fréttatengt efni í sjónvarpi á tímabilinu milli kl. 17.00 og 24.00 alla daga ársins nema á aðfangadag jóla og á gamlársdag þegar heimilt er að flytja fréttir fyrir kl. 17.00. Skal útsendingartími innlendra og erlendra frétta eigi vera skemmri að jafnaði á samningstímanum en hann er við upphaf samningstímabilsins. Þá skal RÚV senda reglulega út fréttir í hljóðvarpi allan daginn alla daga ársins.
    RÚV er skylt að senda út fréttir á táknmáli alla daga ársins.
    RÚV skal bjóða upp á svæðisbundnar útsendingar á efni, þ.m.t. fréttir, menningu, afþreyingu og listir til að þjóna betur íbúum á landinu öllu.
    RÚV skal senda út fræðsluefni og heimildarþætti. Þá skal RÚV leggja metnað sinn í að nota ólíka tækni og margmiðlun til að koma á framfæri fréttum og fræðsluefni til almennings.
    RÚV skal halda úti dagskrá í hljóðvarpi með unnu dagskrárefni og skal hún ekki minnka að umfangi á samningstímanum. Þar skal sent út fjölbreytt menningarefni, fræðsluefni, barnaefni, fréttir og fréttatengt efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.
    RÚV skal hafa frumkvæði að því kynna íslenska tónlist og miðla henni í hljóðvarpi.

Börn og ungmenni.
    RÚV skal á hverjum degi senda út vandað skemmti- og fræðsluefni fyrir börn og unglinga. Leggja skal áherslu á íslenskt barnaefni og talsetja skal erlent barnaefni fyrir yngsta aldurshópinn í sjónvarpi. Skal efnið að lágmarki vera það sama og við upphaf samningstímabilsins eða um 550 klst.
    RÚV skal leitast við að taka tillit til hagsmuna barna áður en teknar eru ákvarðanir um birtingu auglýsinga þar sem auglýstar er vörur eða þjónusta ætluð börnum.
    RÚV skal gæta þess að ekki séu sendir út þættir eða kvikmyndir sem geta skaðað eða haft slæm áhrif á þroska barna, svo sem efni þar sem sýnt er djarft eða ofbeldisfullt efni á þeim tíma sem ætla má að börn séu að horfa á sjónvarp. Þá skal ekki sýna brot úr slíkum þáttum eða kvikmyndum á daginn og fyrripart kvölds þegar ætla má að börn séu að horfa á sjónvarp. Þegar slíkt dagskrárefni er sent út skal fara á undan því munnleg viðvörun eða það auðkennt með sjónrænu merki allan þann tíma sem útsendingin stendur yfir.

Nýsköpun í dagskrárgerð.
    RÚV skal vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð. RÚV skal styrkja og efla sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildarmyndagerð með því að kaupa og sýna efni frá sjálfstæðum framleiðendum. RÚV skal gerast kaupandi eða meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum eða öðru sjónvarpsefni og verja til þess að lágmarki 150 millj. kr. á ári frá og með árinu 2008. Árið 2009 hækkar upphæðin í 200 millj. kr. og verður við lok samningstímabilsins 250 millj. kr.

Erlent efni.
    RÚV skal leggja áherslu á sjónvarpsefni á Norðurlandamálum og skal efnið að jafnaði vera að lágmarki 5% af útsendu efni.
    RÚV skal hafa frumkvæði að því kynna og sýna þætti og kvikmyndir frá öðrum ríkjum Evrópu, svo og kvikmyndir frá öðrum heimshlutum sem lítið hafa verið kynntar hér á landi.

Annað dagskrárefni.
    RÚV skal fjalla um, útvarpa og sýna frá menningarviðburðum bæði innan lands og erlendis. Skal menningarumfjöllun vera að lágmarki hin sama í mínútum talið og við upphaf samningstímabilsins í hljóðvarpi og sjónvarpi.
    RÚV skal segja fréttir af, útvarpa og sýna frá íþróttaviðburðum bæði innan lands og erlendis og gæta jafnræðis milli íþróttagreina eins og kostur er.
    RÚV skal senda út fjölbreytt íslenskt og erlent skemmtiefni fyrir ólíka aldurs- og þjóðfélagshópa.

Almennt um dagskrárefni.
    RÚV skal gæta jafnræðis milli kynja í fréttaumfjöllun, almennu dagskrárefni og í umfjöllun um íþróttir og íþróttaviðburði eftir því sem kostur er.
    Kappkosta skal að tryggja gæði og fjölbreytni dagskrárefnis.
    Dagskrárefni á RÚV má ekki með nokkru móti hvetja til fordóma eða haturs á grundvelli kynþáttar, kynferðis, þjóðernis, trúar eða kynhneigðar.

Menningararfur.


    RÚV skal sjá til þess að frumflutt dagskrárefni verði varðveitt til frambúðar. RÚV skal auk þess varðveita myndir, hljóð og texta sem ætla má að hafi menningarsögulegt gildi auk efnis sem dæmigert er fyrir efnisframleiðslu RÚV á hverjum tíma og heyrir ekki sérstaklega undir lög um skylduskil til safna, nr. 20/2002. RÚV getur með sérstökum samningi falið annarri stofnun að varðveita dagskrárefnið með viðeigandi hætti.
    RÚV skal gera ráðstafanir til að hljóðrit og myndir ásamt handritum sé aðgengilegt almenningi eftir því sem við á, hvort heldur gegn gjaldi eða endurgjaldslaust.
    RÚV skal gera áætlun um að koma eldra efni, t.d. á plötum, segulböndum og filmum, yfir á aðgengilegt form til geymslu og til framtíðarnotkunar á efninu. Skal RÚV birta þá áætlun eigi síðar en 31. desember 2007.
    RÚV skal gert að varðveita sögulegar minjar, svo sem búninga, leiktjöld, útsendingatæki o.fl., sem ætla má að hafi menningarsögulegt gildi. RÚV getur með sérstökum samningi falið annarri stofnun að varðveita minjarnar með viðeigandi hætti.
    RÚV er óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og varðveitt eru hjá félaginu. Þá er RÚV óheimilt að selja eða farga útsendu efni og minjum sem félaginu þykir ekki ástæða til að geyma án samþykkis menntamálaráðuneytis og án þess að bjóða það þar til bærum stofnunum til varðveislu.
    Stefnt verður að því á samningstímanum að ná heildarsamkomulagi við rétthafa um víðtækari notkun á eldra safnaefni til að gera það aðgengilegra almenningi.

4. gr.
Alþjónusta.

    RÚV er skylt að veita öllum landsmönnum og lögaðilum almannaþjónustu. Félagið skal senda út dagskrá hljóðvarps og sjónvarps til alls landsins og næstu miða að ekki minna umfangi en gert er í dag. Skulu landsmenn og lögaðilar hafa aðgang að dagskrá og efni í sjónvarpi, hljóðvarpi, á vefsvæði og eftir öðrum leiðum sem RÚV notar við miðlun á almannaþjónustuefni sínu.
    RÚV skal að lágmarki senda út sjónvarpsdagskrá í 7 klukkustundir á dag. Þá skal önnur hljóðvarpsdagskráin vera send út að lágmarki 18 klukkustundir á sólarhring og hina skal senda út allan sólarhringinn. Með útsendri dagskrá er hér átt við skipulagða flutningsröð viðfangsefna sem undirbúin eru eða flutt af starfsmönnum hljóðvarps- eða sjónvarpsstöðvar og miðlað er til hlustenda eða áhorfenda.
    Nú er lokið útboði á UHF tíðnisviðinu og hafinn undirbúningur að uppbyggingu á stafrænu sjónvarpi um allt land. Þá eru fyrirhugaðar sjónvarpssendingar RÚV á gervihnetti. Skal gerður sérstakur samningur milli RÚV og menntamálaráðuneytis um útbreiðslu og þjónustu í stafrænu hljóðvarpi og sjónvarpi fyrir 31. desember 2007.
    Í samningnum skal koma fram:
          Hvaða tækni RÚV hyggst nota til að ná til allra landsmanna.
          Hvaða tímaramma RÚV setur sér í útbreiðslu á stafrænu hljóðvarpi og sjónvarpi.
          Hvernig RÚV hyggst hvetja alla landsmenn til að skipta úr hliðrænni yfir í stafræna tækni áður en slökkt verður á hliðrænum hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingum hér á landi.
          Hvort RÚV hyggst byggja upp eigið dreifikerfi, nota dreifikerfi annarra eða efna til samstarfs um dreifingu með öðrum hætti.
          Upplýsingar um fyrirhugaða þjónustu í grafísku þjónustuviðmóti í stafrænu sjónvarpi.
          Hvort og þá hvaða gagnvirka þjónustu RÚV hyggst veita í stafrænu sjónvarpi.
          Hvaða áform RÚV hefur í útsendingum á breiðtjaldi og háskerpu.

Öryggisþjónusta.


    RÚV er skylt að koma á framfæri tilkynningum frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum og gera hlé á auglýstri dagskrá ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst. RÚV reynir til hins ýtrasta að gera ráðstafanir til að útsending geti ætíð verið samfelld.

5. gr.
Fjármál.

    RÚV skal hafa að leiðarljósi að reka metnaðarfulla útvarpsþjónustu í almannaþágu fyrir móttekið ríkisframlag.
    RÚV skal hafa að leiðarljósi að reka metnaðarfulla útvarpsþjónustu í almannaþágu fyrir móttekið ríkisframlag. Þau tölulegu markmið sem lögð eru til grundvallar í samningnum byggjast á þeirri forsendu að tekjur RÚV lækki ekki á tímabilinu..
    RÚV skal gæta jafnræðis gagnvart viðskiptamönnum félagsins. Afsláttarkjör fyrir kostunaraðila og auglýsendur skulu vera gagnsæ og standa öllum viðskiptamönnum til boða fyrir sambærilegt umfang viðskipta.
    RÚV skal halda kostnaðar- og verkbókhald yfir aðföng, framleiðslu og útsendingu dagskrárliða og hagnýtingu annars efnis sem miðlað er til almennings þannig að uppfylltar séu kröfur um gagnsæi sem fram koma í reglugerð um aðskilið bókhald hjá fyrirtækjum sem veitt eru sérstök réttindi eða einkaréttur, eða falið er að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu, skv. 59. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og stunda einnig aðra starfsemi nr. 214/2006, sbr. ákvæði 24C.6.3.2(1) í leiðbeinandi reglum ríkisstyrkja- og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þess skal sérstaklega gætt að haldið sé aðskildum tekju- og kostnaðarliðum vegna þeirrar starfsemi sem fellur undir almannaútvarpsþjónustu annars vegar og starfsemi sem flokka má sem samkeppnisrekstur hins vegar.
    RÚV skal árlega, jafnskjótt og ársuppgjör liggur fyrir, skila upplýsingum til ráðuneytisins um tekjur RÚV á næstliðnu ári að frádregnum kostnaði, annars vegar af útvarpsþjónustu í almannaþágu og hins vegar af þeim hluta starfseminnar sem telst vera í samkeppnisrekstri. Á grundvelli þeirra upplýsinga skal RÚV leggja fram rekstraráætlun um ætlaða tekjuþörf til að standa undir kostnaði við útvarpsþjónustu í almannaþágu, sbr. 5. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf.
    RÚV skal gæta þess að kostnaðar- og verkbókhald fyrirtækisins uppfylli kröfur þær sem fram koma í 14. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, einkum að því er varðar aðskilnað tekna og útgjalda af útvarpsþjónustu í almannaþágu og samkeppnisrekstri. Skal þannig komið í veg fyrir undirboð RÚV á auglýsingamarkaði og niðurgreiðslu á samkeppnisrekstri með tekjum frá útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þess skal gætt að viðskiptaleg hagnýting efnis sem framleitt hefur verið í útvarpsþjónustu í almannaþágu fari fram á markaðslegum forsendum. Fjárhagsleg tengsl við dótturfyrirtæki skulu fara fram á markaðslegum forsendum.

6. gr.
Eftirlit og upplýsingagjöf.

    RÚV skal lúta eftirliti ríkisendurskoðanda og veita honum allar nauðsynlegar upplýsingar til að sannreyna megi hvernig RÚV uppfyllir skyldur sínar samkvæmt leiðbeinandi reglum ríkisstyrkja- og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA um útvarpsþjónustu í almannaþágu, útg. 23. apríl 2004, einkum skyldur samkvæmt ákvæðum: 24C.6.2, 24C.6.3.2(1), 24C.6.3.3(1) og 24C.6.3.3(4). (Sjá fylgiskjal II með samningi þessum.)
    RÚV skal sérstaklega láta ríkisendurskoðanda í té upplýsingar til að sannreyna megi gagnsæi og hlutlæga kostnaðargreiningu á almannaþjónustuhlutverki RÚV, byggða á ársreikningi næstliðins árs, að teknu tilliti til tekna að frádregnum kostnaði við þann hluta starfsemi RÚV sem fellur undir samkeppnisrekstur.
    RÚV skal á hverjum tíma, eftir því sem Samkeppniseftirlitið eða ríkisendurskoðandi óskar eftir, veita allar nauðsynlegar upplýsingar til að sannreyna megi hvort RÚV uppfylli skyldur skv. 14. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005. Í því skyni skal RÚV koma upp nákvæmu verkþátta- og kostnaðargreiningarkerfi, þannig að hægt sé að skilgreina nákvæmlega kostnað við efnisgerð.
    RÚV er enn fremur skylt að veita öllum þeim sem óska upplýsinga um starfsemi fyrirtækisins í samræmi við upplýsingalög, nr. 50/1996.

7. gr.
Kynning á starfsemi RÚV.

    RÚV skal á hverju ári taka á móti nemendum af fjölmiðlabrautum í framhaldsskólum og háskólum í starfskynningu til að kynna þeim starfsemi RÚV.

8. gr.
Ársskýrsla.

    RÚV er skylt að afhenda menntamálaráðuneytinu ársskýrslu þar sem fram kemur:
          Ársreikningur félagsins sem uppfyllir ákvæði laga um ársreikninga, nr. 3/2006, ásamt skýrslu endurskoðenda þar sem gerð er grein fyrir tekjum RÚV að frádregnum kostnaði, annars vegar af útvarpsþjónustu í almannaþágu og hins vegar af þeim hluta starfseminnar sem telst vera í samkeppnisrekstri.
          Upplýsingar um hvernig RÚV hefur sinnt útvarpsþjónustu í almannaþágu.
          Tölulegar upplýsingar um hlutfall, flokkun og uppruna efnis í hljóðvarpi og sjónvarpi.
          Tölulegar upplýsingar um íslenskt leikið dagskrárefni í hljóðvarpi og sjónvarpi.
          Upplýsingar um verkefni sem RÚV hefur verið kaupandi eða meðframleiðandi að og hversu miklum fjármunum félagið hefur varið til þeirra.
          Tölulegar upplýsingar um textun innlends dagskrárefnis.
          Tölulegar upplýsingar um útsendingu á íslenskri tónlist.
          Umfang svæðisstöðva.
          Fyrirhugaðar breytingar á ritstjórnarstefnu.
          Framkvæmd dagskrár- og fréttastefnu.
          Greinargerð um viðhorf almennings eins og þau koma fram í könnunum sem RÚV lætur framkvæma eða í ábendingum og kvörtunum til stofnunarinnar sjálfrar. Þá skal gera grein fyrir því hvernig brugðist hefur verið við eða bregðast skuli við framangreindu.

9. gr.
Endurskoðunarákvæði og gildistími.

    Aðilar skulu funda árlega um efni og framkvæmd samnings þessa og sameiginlegar áherslur og markmiðssetningu. Sé talin ástæða til skulu samningsaðilar gera breytingar á samningi þessum er fram komi í sérstökum viðauka.

    Samningur þessi gildir frá 1. XX 2006 til 1. XX 2010.

Reykjavík, XX. XXXX 2006




F.h. menntamálaráðuneytis,



______________________


F.h. Ríkisútvarpsins ohf.,



___________________





Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf.


    Í frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélag í eigu ríkissjóðs um rekstur Ríkisútvarpsins sem taki yfir eignir og skuldir þess. Í öðru lagi er mælt fyrir um afnám afnotagjalda og álagningu sérstaks útvarpsgjalds. Í þriðja lagi eru gerðar breytingar á stjórnun. Í fjórða og síðasta lagi er mælt fyrir um fjárhagslegan aðskilnað á fjárreiðum reksturs sem fellur undir útvarp í almannaþágu og annars reksturs. Í 2. kafla í almennum athugasemdum við frumvarpið er boðað frumvarp um breytingu á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands til að fella niður greiðsluþátttöku Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar.
    Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins verður Ríkisútvarpið rekið sem hlutafélag í eigu ríkisins en ekki sem ríkisstofnun. Þessi breyting á rekstrarformi veldur því að ábyrgð ríkissjóðs á rekstrinum verður ekki lengur ótakmörkuð. Fjárreiður hlutafélagsins verða sýndar í E-hluta ríkissjóðs, en til hans teljast sameignar- og hlutafélög sem ríkið á að hálfu eða meira en ekki í B-hluta ríkissjóðs þar sem stofnunin Ríkisútvarpið hefur verið. Hlutafélagið mun fá fjárveitingu frá A-hluta ríkissjóðs sem svarar til tekna af sérstökum skatti á sama hátt og stofnunin Ríkisútvarpið hefur fengið fjárveitingu vegna tekna af afnotagjöldum þótt það innheimti þau gjöld sjálft. Gjaldstofn, álagning og innheimta munu hins vegar breytast eins og greint verður frá síðar.
    Samkvæmt 1. tölul.1.mgr. 11. gr. fumvarpsins er m.a. lagt til að hlutafélagið hafi frá 1. janúar 2009 tekjur af sérstökum skatti, útvarpsgjaldi, sem ráðherra staðfestir að fengnum tillögum útvarpsstjóra en skattstjórar leggja á samhliða álagningu tekjuskatts. Afnotagjöld sem stofnunin Ríkisútvarpið innheimtir falla niður frá sama tíma. Gera má ráð fyrir að breytt tilhögun við álagningu og innheimtu gjaldsins leiði til aukinnar vinnu og einhverrar hækkunar á útgjöldum skattstofa og innheimtumanna þar sem sem nokkur fjöldi þeirra sem skatturinn verður lagður á mun fyrirsjáanlega ekki hafa tekjur til að greiða gjaldið af. Ekki eru forsendur til að áætla fjárhæðir í þessu sambandi. Á móti sparast að mestu innheimta afnotagjalda sem kostar stofnunina Ríkisútvarpið nú 70–80 m.kr. á ári en jafnframt falla niður 40 m.kr. tekjur sem stofnunin hefur haft af innheimtuaðgerðum og dráttarvöxtum.
    Skylda til að greiða gjaldið mun hvíla samkvæmt frumvarpinu á öllum einstaklingum sem eru heimilisfastir hér á landi og þeim sem dvelja hér á landi lengur en 183 daga á ári eða hverju tólf mánaða tímabili. Undanþegnir skattinum eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður samkvæmt lögum um sjóðinn. Samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra árið 2005 vegna tekna á árinu 2004 greiddu 165.704 einstaklingar gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og hafði þeim fjölgað um 3,2% frá árinu áður. Að auki skulu lögaðilar sem eru skattskyldir og bera sjálfstæða skattaðild vera skattskyldir, þó ekki dánarbú, þrotabú og ýmsir lögaðilar sem eru undanþegnir skattskyldu, svo sem stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra voru 34.369 lögaðilar á skattgrunnskrá við álagningu 2005 og þar af voru 26.043 aðilar tekju- og eignarskattsskyldir. Af þeim fjölda greiddu 22.166 lögaðilar opinber gjöld og hafði þeim fjölgað um 8,3% milli ára. Gera verður ráð fyrir að ekki takist að innheimta skattinn hjá öllum sem hann verður formlega lagður á, eins og gildir einnig um afnotagjöldin. Sé miðað við að 1,5% fjölgun greiðenda milli ára má reikna með að um það bil 190 þúsund aðilar greiddu gjaldið í ár ef það væri lagt á og miðað við 14.580 kr. gjald á ári næmu tekjur af því um 2.770 m.kr. Gera má ráð fyrir að af þeirri fjárhæð innheimtist nálægt 65 m.kr. ekki og verði afskrifaðar. Samkvæmt þessum forsendum skilar hinn nýi skattstofn nánast sömu krónutölu í ríkissjóð og núverandi afnotagjöld.
    Auk tekna af útvarpsgjaldi er gert ráð fyrir í 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. að hlutafélagið hafi tekjur af auglýsingum, kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess. Í fjárlögum 2006 er áætlað að tekjur stofnunarinnar Ríkisútvarpsins vegna þessa nemi 1.009 m.kr. með virðisaukaskatti. Að síðustu er gert ráð fyrir í 3. tölul. 1. mgr. 12. gr. að Alþingi kunni að ákveða aðrar tekjur.
    Stofnunin Ríkisútvarpið er í virðisaukaskattsskyldri starfsemi þannig að afnotagjöld sem skila um 70% tekna þess bera 14% virðisaukaskatt en aðrar tekjur sem skila um 30% bera 24,5% skatt. Stofnunin skilar ríkissjóði útskatti af tekjunum en fær endurgreiddan innskatt af kostnaði og fjárfestingum nákvæmlega eins og önnur fyrirtæki. Árið 2004 mun útskattur hafa numið 591 m.kr. og innskattur 201 m.kr. og voru nettó tekjur ríkissjóðs af skattinum því 390 m.kr.
    Verði frumvarpið að lögum verður sú breyting á tekjusamsetningu Ríkisútvarpsins frá því sem verið hefur að í stað afnotagjalda sem bera virðsaukaskatt koma tekjur af útvarpsgjaldi sem bera ekki virðisaukaskatt. Miðað við framangreindar forsendur og að öðru óbreyttu má ætla að hlutafélagið verði á grunnskrá virðisaukaskatts eins og stofnunin hefur verið. Ef þetta verður raunin er slegið á að útskattur minnki um nálægt 300 m.kr. og innskattur um nálægt 140 m.kr. þannig að nettó tekjur ríkissjóðs af skattinum verði um 230 m.kr. sem er lækkun um 160 m.kr. á ári og yrði hagur hlutafélagsins þeim mun betri.
    Áætlað er að stofnunin Ríkisútvarpið hafi skuldað ríkissjóði 900 m.kr. í árslok 2005. Skuldin hefur ekki verið vaxtareiknuð fremur en almennt tíðkast um viðskiptareikninga ríkisstofnana hjá ríkissjóði. Gera verður ráð fyrir að hlutafélagið verði krafið um vexti af skuldinni og ef miðað yrði við 9% vexti mundi það greiða ríkissjóði um 80 m.kr. í tekjur á ári næstu árin.
    Samkvæmt bráðabirgðaákvæði I í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkið leggi allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar stofnunarinnar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins. Samkvæmt ríkisreikningi 2005 námu eignir Ríkisútvarpsins um 4,6 milljörðum kr. í lok þess árs. Þar af voru fastafjármunir metnir á 3,6 milljarða kr. en veltufjármunir stóðu í 1,1 milljarði. Á móti komu tæplega 4,7 milljarðar í skuldir og var eigið fé stofnunarinnar neikvætt um 186 m.kr. í árslok. Mestu munaði um nálægt 2,9 milljarða króna skuld við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og er áætlað að afborgun af skuldabréfinu sé um 220 m.kr. í ár. Ríkisendurskoðun vinnur að endurskoðun og endurmati á eignum og skuldum stofnunarinnar og er vonast til að tillaga að stofnefnahagsreikningi verði lögð fram á næstunni.
    Í bráðabirgðaákvæðinu er einnig kveðið á um að ríkissjóður leggi hlutafélaginu til að minnsta kosti 5 m.kr. hlutafé innan ákveðins tíma. Hlutaféð yrði ekki talið til útgjalda hjá ríkinu samkvæmt bókhaldsreglum ríkisins heldur til eignar, en afla þarf heimildar fyrir greiðslunni í fjárlögum.
    Í bráðabirgðaákvæði II í frumvarpinu er fjallað um breytingar sem snúa að starfsmönnum stofnunarinnar Ríkisútvarpsins og er lagt til að hlutafélagið bjóði þeim öllum starf. Um biðlaunarétt starfsmanna gilda ákvæði laga nr. 70/1996, en þó er lagt til að réttur starfsmanna verði ríkari þannig að þeir haldi honum verði starf sem þeir taka hjá hlutafélaginu lagt niður fyrir árslok 2009. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu frá því síðastliðið vor eiga 163 starfsmenn biðlaunarétt að upphæð 467 m.kr. Hins vegar eru ekki forsendur til að áætla að hvaða leyti muni reyna á þetta, en útgjöld sem af þessu kann að leiða lenda á hlutafélaginu.
    Ríkisútvarpið er skuldbundið til að greiða 25% af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands samkvæmt lögum um hljómsveitina. Lagafrumvarpið felur ekki í sér breytingu á þessu en samkvæmt athugasemdum er boðað sérstakt frumvarp til breytinga á lögum um Sinfóníuhljómsveitina þar sem m.a. greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins og Seltjarnarnesbæjar verði felld niður. Í fjárlögum 2006 er gert ráð fyrir að greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins nemi 132,3 m.kr. og hlutur Seltjarnarness er áætlaður 5,3 m.kr.
    Samkvæmt framangreindum forsendum er niðurstaða þessa kostnaðarmats sú að verði frumvarpið óbreytt að lögum muni, þegar lögin eru að fullu gengin í gildi, útgjöld A-hluta ríkissjóðs ekki breytast svo heitið geti. Sé tekið tillit til þess að í frumvarpinu er boðað að greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins í rekstri til Sinfóníuhljómsveitar Íslands falli niður aukast útgjöld ríkisins um tæplega 138 m.kr. miðað við forsendur fjárlaga 2006. Að auki benda forsendur sem greint er frá að framan til að árlegar tekjur ríkisins af virðisaukaskatti minnki um 160 m.kr. en á móti fái ríkið vaxtatekjur frá hlutafélaginu þar til það hefur gert upp skuld sína við ríkið, líklega um 80 m.kr. á ári fyrstu árin. Greiða þarf a.m.k. 5 m.kr. einsskiptisframlag úr ríkissjóði vegna hlutafjár við stofnun félagsins.