Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 349. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 481  —  349. mál.




Nefndarálit


um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 70/2005, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur, Ólöfu Hrefnu Kristjánsdóttur og Sesselju Sigurðardóttur frá utanríkisráðuneyti og Harald Örn Ólafsson og Hrein Hrafnkelsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 70/2005 frá 29. apríl 2005, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB frá 21. apríl 2004 um yfirtökutilboð.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB miðar að því að samræma og styrkja reglur um yfirtökutilboð í Evrópu og tryggja jafna meðferð og aukin réttindi hluthafa í yfirtökum. Í tilskipuninni, sem nær til félaga sem fengið hafa skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulagðan verðbréfamarkað, eru sett lágmarksskilyrði sem ná bæði til skyldubundinna tilboða og almennra valfrjálsra tilboða, en aðildarríkjum er heimilt að setja fleiri skilyrði og strangari ákvæði en kveðið er á um í tilskipuninni.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi en meginhluti tilskipunarinnar hefur hefur þegar verið innleiddur með lögum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 28. nóv. 2006.


Halldór Blöndal,

form., frsm.

Össur Skarphéðinsson.

Jón Kristjánsson.


Drífa Hjartardóttir.

Jón Gunnarsson.