Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 57. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 502  —  57. mál.




Nefndarálit


um breyt. á l. nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Frá menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason skrifstofustjóra frá menntamálaráðuneyti, Þröst Ólafsson, framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sigurð Bjarka Gunnarsson frá Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Pál Magnússon, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, Útvarpsréttarnefnd, Seltjarnarneskaupstað, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ríkislögreglustjóra, Kennaraháskóla Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið ohf. og felur í sér tillögu um niðurfellingu greiðsluþátttöku Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og einnig að greiðsluþátttaka Seltjarnarnesbæjar verði felld niður.
    Við umfjöllun nefndarinnar var fjallað um þau hljóðfæri sem Ríkisútvarpið hélt eftir við rekstrarlegan aðskilnað Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar en þá hélt Ríkisútvarpið eftir tveimur fiðlum og einni víólu. Samkvæmt skýrslu matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings verða framangreind hljóðfæri ekki hluti af eignum Ríkisútvarpsins ohf. og er í þessu sambandi einkum litið til Guarnerius del Gesu fiðlunnar frá 1728. Framangreind hljóðfæri verða eign ríkissjóðs og verður gerður samningur milli ríkisins og Sinfóníuhljómsveitarinnar um afnot þeirra.
    Nefndin hefur litið svo á að fyrirhuguð lækkun á skuld Ríkisútvarpsins við ríkissjóð að fjárhæð 625 millj. kr. samkvæmt breytingartillögu við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006, sem er til meðferðar á yfirstandandi þingi og ætlað er að tryggja 15% eiginfjárhlutfall við stofnun Ríkisútvarpsins ohf., komi til lækkunar á skuld Ríkisútvarpsins við Sinfóníuhljómsveit Íslands sem samkvæmt árshlutareikningi nam 692,2 millj. kr. 30. júní 2006.
Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Mörður Árnason, Einar Már Sigurðarson og Össur Skarphéðinsson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja og styðja breytingartillögur við málið.

Alþingi, 29. nóv. 2006.


Sigurður Kári Kristjánsson,

form., frsm.

Dagný Jónsdóttir.

Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Össur Skarphéðinsson,

með fyrirvara.

Einar Már Sigurðarson,

með fyrirvara.

Kjartan Ólafsson.


Mörður Árnason,

með fyrirvara.

Sæunn Stefánsdóttir.