Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 189. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 541  —  189. mál.




Breytingartillaga


við frv. til l. um breyt. á l. um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum.

Frá Jóni Bjarnasyni.


    Við ákvæði til bráðabirgða.
       a.      1. mgr. orðist svo:
                 Skipað og ótímabundið ráðið starfsfólk Hólaskóla skal halda stöðum sínum. Þeir einir geta þó orðið prófessorar, dósentar og lektorar við Hólaskóla sem uppfylla kröfur 34. gr. laganna. Skólameistari Hólaskóla verður rektor Hólaskóla – Háskólans á Hólum.
       b.      2. mgr. falli brott.

Greinargerð.

    Með þessu lagafrumvarpi er verið að heimila Hólaskóla að starfrækja námsbrautir á háskólastigi og veita eigin háskólagráður á sérgreindum námssviðum að uppfylltum skilyrðum. Jafnframt er kveðið á um að öll núverandi störf við Hólaskóla verði lögð niður en starfsfólki boðin störf við Hólaskóla – Háskólann á Hólum.
    Með nýjum lögum um búnaðarfræðslu sem tóku gildi 1. júlí 1999 var skólanum heimilað að kenna á afmörkuðum sviðum á háskólastigi. Þá var nafni skólans breytt úr Bændaskólanum á Hólum í Hólaskóla. Skólastjóri varð skólameistari. Hliðstæð breyting var gerð á Bændaskólanum á Hvanneyri 1999, þá breyttist nafn skólans í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og skólastjóri varð rektor.
    Þrátt fyrir þær viðamiklu breytingar sem gerðar voru á lagaumhverfi skólanna var þess vandlega gætt að hrófla ekki við öryggi stofnananna hvað starfsmannahald varðaði. Þess vegna var kveðið á um í lögunum að starfsfólk héldi óbreytt stöðum sínum og störfum hjá stofnunum þrátt fyrir þessa breytingu á lagaumgjörð þeirra. Eins var haft við þegar Kennaraskólanum var breytt í Kennaraháskóla.
    Frá því að Hólaskóli var stofnaður aftur 1882 hefur lagaumgjörð hans oft verið breytt og það mun meir en nú. En það hefur aldrei gerst fyrr í 125 ára sögu skólans að stofnunin og störfin séu lögð niður þótt gerð sé formbreyting á lagaumgjörðinni. Ítrekað hefur verið lögð áhersla á að hér sé um formbreytingu að ræða og í raun sé verið að staðfesta þá starfsemi sem þegar er fyrir hendi og gefa henni frekari möguleika til að þróast. Hér sé ekki um eðlisbreytingu á starfsemi Hólaskóla að ræða. Þess vegna er fullkomlega óeðlilegt af þessu tilefni að leggja öll störf við stofnunina niður þótt kveðið sé á um að starfsmönnum verði boðin aftur störf.
    Að sjálfsögðu á starfsfólkið rétt á biðlaunum og starfslokasamningum í kjölfar slíkra aðgerða. En með því að leggja störfin og stofnunina niður með þessum hætti er öryggi hennar og samfélagsins á Hólum sett í uppnám að ástæðulausu. Þess vegna er lagt til að ráðningarsamningar sé órofnir svo og réttur starfsfólks þrátt fyrir þessa formbreytingu skólans.